Húsleitir Umfangsmiklar húsleitir voru gerðar í starfsstöðvum útgerðarfyrirtækisins Samherja í Reykjavík og á Akureyri 27. mars árið 2012.
Húsleitir Umfangsmiklar húsleitir voru gerðar í starfsstöðvum útgerðarfyrirtækisins Samherja í Reykjavík og á Akureyri 27. mars árið 2012. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rit almenns efnis Seðlabankinn gegn Samherja – eftirför eða eftirlit? ★★★★· Eftir Björn Jón Bragason. Almenna bókafélagið, 2024. Kilja, 226 bls., nafnaskrá.

Bækur

Björn

Bjarnason

Gjaldeyrishöft voru meðal ráða sem gripið var til hrunhaustið 2008. Þau yrðu kannski við lýði í 10 mánuði eða svo á meðan siglt yrði í gegnum brimskaflinn. Reyndin var önnur eins og lýst er í bókinni sem hér er til umsagnar: Seðlabankinn gegn Samherja – eftirlit eða eftirför? eftir Björn Jón Bragason.

Ákveðið var að fela Seðlabanka Íslands að sjá um eftirlit með framkvæmd gjaldeyrishaftanna. Í bókinni birtist hve fljótt höft og skammtanir leiða af sér öfgar og oflæti eftirlitsmanna. Er þakkarvert að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, bjó yfir seiglu, djörfung og fjármunum til að snúast til varnar og sigurs gegn bankanum sem gróf markvisst undan öflugu fyrirtæki hans.

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, sendi árið 2016 frá sér bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? Nýja bókin er sjálfstætt framhald athugana höfundar þótt hann veki nokkrum sinnum máls á því sem hann hafði áður birt. Hér verður litið til þess sem snýr að Samherja.

Í upphafi spyr höfundur hver eigi að gæta eftirlitsmannanna. Þar er þó til þess að líta að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og samstarfsfólk hans fékk margar viðvaranir frá eftirlitsmönnum vegna atlögu þeirra að Samherja. Þau létu sér því miður ekki segjast.

Umboðsmaður alþingis viðraði snemma þá skoðun að reglur seðlabankans um gjaldeyrismál væru ekki tæk refsiheimild. Þegar þáverandi viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, Samfylkingu, hreyfði því við Má Guðmundsson að lögfesta yrði reglur bankans taldi bankastjórinn það óráð, lögfestingin yrði túlkuð á þann veg að seðlabankinn hefði ekki haft nægar lögheimildir og fyrir hendi væri réttaróvissa. Ráðherrann hafði mótbárur bankastjórans að engu (38). Bankastjórinn vildi halda andliti út á við í stað þess að eyða réttaróvissu.

Í krafti úrskurða tveggja dómara sem reistir voru á gögnum sem síðan var fleygt (118) gripu seðlabankinn og fréttastofa ríkisútvarpsins til samstilltra húsleitaraðgerða gegn Samherja 27. mars 2012 og er þeim nákvæmlega lýst í bókinni. Fréttastofan notaði þá tíma sem hún hafði í dagskránni til að vekja rækilega athygli á aðgerðunum gegn Samherja. Var útsendingum á efni háttað eftir óskum seðlabankans (90). Ráðherrar VG og Samfylkingar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lágu ekki á liði sínu við að sverta fyrirtækið.

Í sýndarréttarhöldum er ákvörðun um sekt eða sakleysi sakbornings tekin fyrir fram. Réttarhöldin fá oft mikið rými í fjölmiðlum. Þau snúast ekki um tiltekinn glæp. Þeim er ætlað að þjóna ákveðnum tilgangi, oft pólitískum. Þau eru varin sem víti til varnaðar.

Seðlabankinn komst aldrei svo langt gagnvart Samherja með húsleit sinni og kærum að réttarhöld hæfust um efni málsins. Bankinn hafði aldrei neitt haldbært sakarefni í höndunum. Hann stóð þess í stað að sýndarkæru. Már Guðmundsson bankastjóri sagði í greinargerð til bankaráðs að aðgerðir bankans hefðu haft „töluverð fælingaráhrif“. Þetta hefði til dæmis mátt „glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja“ (170). Út á við sagði bankastjórinn hrakför bankans stafa af „lagaklúðri“. Hefði bankinn ekki kært Samherja hefði hann brotið lög (135). Talið um lagaklúður beindi athygli frá klúðri seðlabankans sjálfs.

Í stað þess að skoða mál til hlítar innan bankans og fara að ráðum þeirra sem hvöttu til varúðar, meðal annars bankaráðsmanna, gösluðust starfsmenn gjaldeyriseftirlitsins áfram undir forystu bankastjórans sem dró aðeins upp þá mynd sem hann taldi sér og bankanum til framdráttar. Bankinn gekk svo langt að villa um fyrir umboðsmanni alþingis.

Umboðsmaður sendi frá sér álit í janúar 2019 vegna kvörtunar Þorsteins Más sem taldi að bankinn hefði ekki haft lagagrundvöll til að ákvarða persónulega sekt á sig og það hefði bankinn vitað við sektargjörðina árið 2016.

Í álitinu taldi umboðsmaður bankann hafa brotið á Þorsteini Má og gagnrýndi stjórnsýslu bankans harðlega og hvernig staðið hefði verið að upplýsingagjöf til sín. Sagði hann að niðurstaða ríkissaksóknara frá 2014 hefði vakið athygli sína. Saksóknari hafnaði þá kæru bankans á hendur Samherja vegna skorts á refsiheimildum í lögunum um gjaldeyrismál. Sagðist umboðsmaður ekki hafa vitað um þessa afstöðu ríkissaksóknara þegar hann ritaði bankanum bréf í október 2015 og lýsti vafa um heimild seðlabankans til að leggja á stjórnvaldssektir. Í lok nóvember 2015 sat umboðsmaður fund að beiðni bankans um refsiheimildir bankans. Þá létu starfsmenn bankans enn hjá líða að upplýsa hann um afstöðu ríkissaksóknara (167-8).

Þegar þetta álit umboðsmanns var rætt í bankaráði seðlabankans sagði formaðurinn, Þórunn Guðmundsdóttir, Sjálfstæðisflokki, að „ekki ætti að nota sakborninga sem tilraunadýr til að fá niðurstöðu í lagatúlkunum“ (169).

Bókarhöfundur sýnir að þetta voru einmitt stjórnarhættir bankans. Hann lét aðra reka mál ofan í sig og síðan kom bankastjórinn í fjölmiðla og sagði mál „umdeild“ eða um „lagaklúður“ væri að ræða og dró þannig niðurstöðuna inn á grátt svæði þótt afdráttarlaust lægi fyrir að bankinn bryti á rétti annarra með ákvörðunum sínum.

Í bókinni eru birt fjölmörg dæmi um harða gagnrýni bankaráðsmanna en Már svaraði með undanbrögðum auk þess sem hann naut stuðnings ýmissa í bankaráðinu eins og Ágústs Ólafs Ágústssonar, Samfylkingu. Sjónarmið hans var að bankaráðið ætti að gæta sín í afskiptum sínum, „bankinn hlyti að taka sjálfstæða ákvörðun“ (142).

Þá báru sumir bankaráðsmenn beinlínis illan hug til Samherja eins og kemur fram í bókun Bolla Héðinssonar, Samfylkingu, 21. nóvember 2018 sem segir Samherja ekki hafa „úr háum söðli að detta þegar siðgæðiskröfur eru annars vegar og fyrirtækið í raun orðið hættulegt tjáningarfrelsinu í landinu“ (162).

Bókarhöfundur segir stefnubreytingu hafa orðið í upplýsingagjöf af hendi seðlabankans eftir að Ásgeir Jónsson tók við sem bankastjóri af Má 20. ágúst 2019 (179).

Meðal þess sem opinberaðist eftir bankastjóraskiptin var að Ingibjörg Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins, og Helgi Seljan, fréttamaður ríkisútvarpsins, „höfðu átt í umfangsmiklum samskiptum“. Telur höfundur að tölvusamskipti þeirra sýni „nánast samhæfðar aðgerðir fréttastofunnar og gjaldeyriseftirlitsins“ (180).

Það sem snýr að ákæruvaldinu í bókinni sýnir að þar gerast hlutir hægar en góðu hófi gegnir auk þess sem leyndarhyggja er úr hófi fram.

Hvað sem líður tveimur bókum höfundar og alúð hans við gagna- og upplýsingaöflun er sögunni af framkvæmd gjaldeyrishaftanna ekki lokið, öll kurl eru ekki enn til grafar komin.

Í lokaútgáfunni ætti að nota grafíska tækni og tímalínur til að sýna á eins einfaldan hátt og kostur er gang mála og úrslit þeirra.

Í bókarlok slær höfundur á kostnað ríkissjóðs vegna málsins sem hófst með húsleitinni í mars 2012 og telur hann slaga upp í tvo milljarða króna án þess að fjárútlátin skili nokkrum árangri fyrir málshefjanda, seðlabankann. Þá áætlar höfundur að Samherji hafi varið um einum milljarði til að verjast. „Í heild má því segja að Seðlabankamálið hafi kostað um þrjá milljarða króna og sennilega meira“ (212).

Texti höfundar er vandaður en frásögnin flókin eins og klækir bankans. Nafn Ingva Hrafns Óskarssonar bankaráðsmanns er misritað og hann kallaður Ingi og í nafnaskrá er sagt að hann komi við sögu á bls. 142 og 143 en hans er aðeins getið á bls. 141. Á bls. 26 segir að sá sem þetta ritar hafi beitt sér fyrir því að til varð embætti sérstaks saksóknara af því að svo virðist sem hann hafi „borið lítið traust til efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra“. Fyrir þessu eru engar heimildir. Í ræðum og greinum haustið 2008 eru færð málefnaleg rök fyrir nauðsyn breytinganna sem gerðar voru.

Björn Jón Bragason á þakkir skildar fyrir að brjótast í gegnum allt efnið sem býr að baki bókinni og auðvelda almennum lesanda að gera sér grein fyrir hvernig þremur milljörðum króna hefur til þessa verið varið á hálfgerðu hliðarspori í kerfi þar sem menn skjóta sér á bak við rannsóknarhagsmuni, bankaleynd eða vernd heimildarmanna þegar leitað er upplýsinga. Seðlabankinn fær falleinkunn og réttarvarslan þunga gagnrýni í þessari bók. Ríkisútvarpið ætti að gera hreint fyrir sínum dyrum.