Á miðvikudag datt Ingólfi Ómari í hug að lauma að mér eins og einni vísu: Eygló bræðir burtu snjá blána hæðadrögin. Vonir glæðast vekja þrá vorsins æðaslögin. Á Boðnarmiði segir Björn Ingólfsson nýjustu fréttir af svanga Manga: Í…

Á miðvikudag datt Ingólfi Ómari í hug að lauma að mér eins og einni vísu:

Eygló bræðir burtu snjá

blána hæðadrögin.

Vonir glæðast vekja þrá

vorsins æðaslögin.

Á Boðnarmiði segir Björn Ingólfsson nýjustu fréttir af svanga Manga:

Í stafsetningarkennslubókinni gömlu var þessi kviðlingur sem átti að tryggja að við færum ekki að skrifa breiðan sérhljóða á undan ng:

Það er langur gangur

fyrir hann svanga Manga

að bera þang í fangi

fram á langa tanga.

Þetta virkaði ágætlega.

En nú er kominn á söguhetjuna nýr vinkill eins og það heitir á nútímamáli:

Engan lengur syngur Svangi-Mangi

söng um göngu í keng með þang í fangi.

Slunginn drenginn angrar lengi lengi

löngun þung í sæng hjá Möngu á Engi.

Benedikt Jóhannsson yrkir:

Verpir krummi' í klettaskor.

Krakkanasir fyllir hor.

Þefja túnin þakin for.

Það er loksins komið vor.

Magnús Halldórsson yrkir við fallegar ljósmyndir:

Er þar gleðin alda löng,

öllu bægt frá voða

Þrestir með sinn þýða söng,

þannig vorið boða.

Til að orma tíu fá

sem taka þarf með hraði

Matarholu margir sjá,

í mjúku hrossataði.

Broddi B. Bjarnason yrkir:

Þegar næðir norðanátt,

og napurt er hér heima.

Fyrir handan hafið blátt,

hugur fer að dreyma.

Björn Geir Leifsson fann þessar æfingar á gömlum miða:

Ekki ætla mjög að efast

um í þetta sinn.

Að þú kannski sért að kvefast

kæri vinur minn.

Hósti slím og hor í nefi

hiti, slen og þreyta.

Ekki lengur leikur efi

læknis þarft' að leita.

¶Þarf ég geislum sunnu að sóa¶og setja upp derið?¶Er vorið að koma og grundirnar gróa;¶getur það verið?¶Jakob Frímannsson Skúfi kvað:¶Þó heimur spjalli margt um mig¶og mínum halli sóma¶læt ég falla um sjálfa sig¶svoddan palladóma.¶Íslensk þjóðvísa:¶Kvöldúlfur er kominn hér¶kunnugur innan gátta;¶sólin rennur, sýnist mér,¶senn er mál að hátta.¶Gamall húsgangur:¶Nú er úti veður vott¶verður allt að klessu ;¶ekki fær hann Grímur gott¶að gifta sig í þessu.¶Gömul vísa:¶Hún er suður í hólunum,¶hefur gráa skýlu.¶Meira veit ég ekkert um¶ættina hennar Grýlu.¶Öfugmælavísan:

Oftast nær er álftin brún

en hann krummi hvítur,

skundar fé um Skeljungs tún,

sko hvar blýið flýtur.