Agnar Hákon Kristinsson fæddist 28. maí 1954. Hann lést 24. mars 2024.

Útför hans fór fram 18. apríl 2024.

Í upphafi dymbilviku hringdi Jón Guðni fréttamaður í mig og sagði mér andlát sameiginlegs vinar okkar, Agnars Kristinssonar kennara. Ég vissi vel af hans erfiða heilsufari undanfarin ár en hélt að hann væri að komast yfir það versta eftir endurhæfingu á Reykjalundi sem hann lét mjög vel af. En veturinn hefur verið undirlagður af alls kyns umgangspestum og eftir margra ára erfiða veikindabaráttu konu hans sem lauk með ósigri og eigin vanheilsu var viðnámsþróttur Agnars greinilega ekki nægur. Það er dapurlegt að hann skyldi ekki fá að njóta nokkurra ára að loknu ævistarfinu.

Við Agnar vorum samstarfsmenn í rúman áratug í Réttarholtsskóla og kom sérlega vel saman. Ég var reyndar í leyfi þegar hann réðst til starfa við skólann árið 1989 sem kennari við sérdeild skólans. Stefna okkar í Réttarholtsskóla á þessum árum var að reyna að koma til móts við þarfir allra nemenda með því að reka sérdeild fyrir nemendur sem áttu í mestum erfiðleikum í almennum bekk. Þá höfðum við í nokkur ár rekið svonefndar fornámsdeildir fyrir nemendur sem höfðu lökustu útkomuna að loknum grunnskóla og áttu enga möguleika á að ráða við framhaldsnám án endurhæfingar. Reynslan sýndi að hægt væri að koma öllum til nokkurs þroska ef aðstæður og umgjörð í skólanum væri við þeirra hæfi. Það var ekki að orðlengja það að Agnar byggði upp og kenndi í sérdeild Réttarholtsskóla rúmlega tvo áratugi, uns hann varð að fara í veikindaleyfi og síðan á eftirlaun.

Það er ekki auðvelt starf að vinna með unglingum sem eiga í erfiðleikum við að takast á við almennt nám. Ástæður þess geta verið ótal margar og margir höfðu beðið marga og sára ósigra. Aðalatriðið er að hjálpa þeim við að nýta walla sína styrkleika af fremsta megni, byggja upp sjálfstraust og forðast ósigra. Þetta var sérgrein Agnars. Hann hélt vel utan um sinn hóp, ákveðinn og strangur, þegar þess þurfti með, en ekki síður hlýr og góður og næmur á þarfir og aðstæður hvers og eins. Mikilsverðast var að finna hverjum og einum farveg inn í framtíðina. Fyrir marga nemendur fann hann vinnustaði sem þeim hentaði og sóttu hluta námstímans og sum hver fundu þar starf til framtíðar. En fyrst og fremst miðaði starfið að uppbyggingu hvers og eins til að takast á við lífið þegar skyldunáminu sleppti. Við Agnar náðum vel saman varðandi þessa hugmyndafræði og hann fékk að halda áfram sínu striki eftir að ég hvarf frá skólanum og þegar ný hugmyndafræði, sem ekki tók endilega tillit til þarfa einstaklingsins, hélt innreið sína. Ég var hreykinn að hafa haft starfsmann eins og Agnar í starfsliði skólans og þakka honum innilega fyrir samstarfið og vináttuna. Ég votta fjölskyldu hans og vinum mína innilegustu samúð.

Haraldur Finnsson, fyrrverandi skólastjóri Réttarholtsskóla.