Guðjón Eyjólfsson fæddist 23. júní 1930. Hann lést 4. apríl 2024.

Útförin fór fram 16. apríl 2024.

Ævintýri, eljusemi, gleði, hjálpsemi, spilamennska og allur matur með kókos eru atriði sem svo sannarlega eiga við afa. Auðvitað 1.000 önnur orð en þetta eru orðin sem mér detta í hug núna þegar ég kveð hann.

Afi var góður í hversdagsævintýrum sem og í spariævintýrum. Á síðustu árum fórum við í frábær ferðalög til Spánar, Marokkós og Póllands og bak við hvert horn geymdist ævintýri.

Hér heima fórum við líka ótal bíltúra um Reykjavík. Oft var það ekki fyrr en nokkrum vikum seinna að ég fattaði hve vel bíltúrinn hjá afa hafði verið skipulagður. Eins og þegar ég stundaði nám í arkitektúr fór afi með mig í bíltúra og við fórum í heimsókn til vina hans. Þannig náði ég að upplifa heimili þeirra sem byggðu húsið. Það var mikil upplifun og einstök kynni af íslenskri byggingarlist sem ég bý vel að.

Á árum áður var mikið brallað í sveitinni hjá afa og ömmu á Þingvöllum. Á Þingvöllum naut afi sín í skógrækt og passaði ávallt upp á mosann og þreyttist ekki á að segja mér, barnabarninu, hvað það tæki hann langan tíma að vaxa.

Hann afi var svakalega duglegur og lagði allt kapp á að gefa af sér. Hann vann mikið og steypti sér heilshugar í öll verkefni, hvort sem það var að gera að steikinni, í vinnunni, skógræktinni, í spilamennsku eða vinskap.

Það lýsir afa vel að þegar við vorum á mannamótum hjá vinafólki hans þá passaði hann alltaf upp á að fara til þeirra sem þekktu ekki marga í veislunni, rabba við þau og kynna þau fyrir öðru fólki. Hann vann markvisst að því að efla þá sem voru í kringum hann. Afi naut þess að hitta fólk með allt það góða sem það hefur að gefa.

Afi var mikill karakter og hafði mikinn áhuga á lífinu. Það var alltaf gaman að bjóða afa í partí og ég minnist frábærra áramóta hér heima með afa og vinafólki. Það er ekki hver sem er sem er hrókur alls fagnaðar um 50 árum eldri en hinir. Hann náði alltaf að tengjast öllum og eins og maðurinn minn sagði; hann fór alltaf undir yfirborðið þegar hann spjallaði við fólk.

Við sem hann þekktum munum ávallt minnast hans þegar við borðum jógúrt með kókos eða kókosköku en honum þótti allur matur með kókos bestur.

Afi kenndi mér að elta það sem heillar og að halda áfram, alltaf, sama í hvaða stöðu maður er, og sjá það góða. Fáir hafa gefið mér eins mikla kennslustund í reisn og afi gerði.

Þvílík lukka að eiga svona afa!

Hvíldu í friði afi minn,

Hildur Steinþórsdóttir.

Guðjón Eyjólfsson á stað í mínu hjarta. Árið 2017 gaf hann Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ myntsafn sitt í fögrum peningaskáp sem barnabarn hans hafði hannað. Hátíðlegur viðburður var haldinn í nóvember 2017 í Keflavíkurkirkju. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og vinkona Guðjóns, kom með honum ásamt ættingjum hans og myntsafnið var afhent við formlega athöfn. Safnið var samsett af íslenskri og erlendri mynt og margt frá fyrri öldum og löndum sem ekki er lengur til.

Við Guðjón vorum í góðum samskiptum eftir að hann gaf okkur safnið og bauð hann mér nokkrum sinnum í heimsókn þar sem við drukkum blómate saman og ræddum um gjöfina til skólans, lífið og tilveruna.

Guðjón kom þó nokkrar ferðir í Myllubakkaskóla og bætti við myntsafnið, hitti nemendur ásamt því að taka eitt sinn á móti Keflvíkingi sem gaf silfurpening með mynd af Kristjáni X Danakonungi í safnið dýrmæta.

Við fórum á veitingastað í Reykjanesbæ og borðuðum saman og spjölluðum eins og við hefðum alltaf þekkst. Hann sagði mér frá Keflavík eins og hún var í hans æsku og hve ungur hann var þegar hann fór til höfuðborgarinnar að mennta sig.

Ég heimsótti hann á sjúkrahúsið á síðasta ári og síðan hringdu dætur hans í mig fyrir hans hönd og ég og hann áttum samræður sem gáfu mér mikið. Samtal við Guðjón, þennan hjartahlýja heiðursmann og ofurmenni í mínum huga, mun alla tíð vera mér í minni. Samskipti okkar gáfu mér mikið og mér þykir vænt um okkar vináttu. Takk fyrir gjafmildi þína og alúð kæri Guðjón.

Ég votta afkomendum Guðjóns mína innilegustu samúð og gangi ykkur allt að sólu. Megi fallegu minningarnar um hann fylgja ykkur inn í lífið.

Bryndís Björg Guðmundsdóttir, skólastjóri Myllubakkaskóla.

Þegar sá sem þetta ritar kom sem ungur maður inn í stétt löggiltra endurskoðenda árið 1975 var öðruvísi um að litast þar en í dag. Þar var þá aðeins að finna virðulega „eldri“ menn, gjarnan í dökkum jakkafötum og með bindi. Konur fyrirfundust þar ekki. Gamli tíminn allsráðandi og ekki mjög árennilegt fyrir nýútskrifaðan ungan og óreyndan mann að blanda geði við þennan hóp, hvað þá að reyna að verða hluti af honum. Enda kom á daginn að það átti eftir að taka sinn tíma.

Tveir af þessum hópi eru mér sérstaklega minnisstæðir. Fyrir hvað? Jú, þeir, umfram aðra, gerðu sér sérstakt far um að bjóða unga manninn velkominn á vettvang og láta hann finna að hann væri velkominn – væri einn af þessum tiltölulega fáu sem á þessum tíma tókst að komast inn í þessa stétt og væri vel að því kominn. Annar þessara manna var Guðjón Eyjólfsson, sem nú hefur kvatt þessa jarðvist í hárri elli.

Ég fann fljótt að Guðjón var hátt skrifaður í stéttinni og naut þar virðingar umfram marga aðra. Mér var kunnugt um að hann hafði aðstoðað margt af mínu föðurfólki og þekkti þar af leiðandi nokkuð til mín og minna aðstæðna. Ekki skemmdi að báðir vorum við af Suðurnesjum og töldum okkur það eflaust til tekna. Samskipti okkar voru alla tíð hin bestu og þar var ég nánast alltaf þiggjandinn – eins konar „föðurleg“ umhyggja sem ég fann alltaf frá honum.

Fljótlega eftir aldamótin hafði hann samband við mig og sagðist þurfa að gera mér tilboð, sem ég gæti ekki hafnað. Hann hefði um langt árabil verið endurskoðandi fyrir ákveðið fyrirtæki en hugðist nú láta af þeim störfum og bað mig að taka við af sér. Starfinu fylgdu ákveðin „hlunnindi“ sem gætu komið sér vel þegar aldur færðist yfir – beinn aðgangur að yfir sjötíu læknum! Þetta var aðdragandinn að meira en áratugar starfi mínu fyrir Læknasetrið í Mjódd en sem betur fer reyndi lítið á notkun „hlunnindanna“.

Ég er þakklátur fyrir kynni mín af heiðursmanninum Guðjóni Eyjólfssyni – þau voru virkilega mannbætandi. Megi hans vegferð á nýjum slóðum ganga vel. Fjölskyldu hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðjóns Eyjólfssonar.

Guðmundur Jóelsson.

Látinn er heiðursfélagi okkar í Lionsklúbbnum Nirði í Reykjavík, Guðjón Eyjólfsson. Guðjón gekk í klúbbinn okkar á stofnárinu 1960 og var mjög öflugur í starfi hans, sérstaklega á fyrstu árunum, sat í stjórn og var formaður klúbbsins 1969-1970. Svo sá hann um endurskoðun reikninga klúbbsins í fjöldamörg ár, en Guðjón var löggiltur endurskoðandi og starfaði við það alla tíð. Klúbbfélagar heiðruðu Guðjón með Melvin Jones-viðurkenningu, sem er æðsta viðurkenning Lionshreyfingarinnar á heimsvísu, og Kjaransgullmerki. Guðjón hafði mikinn áhuga á myntsöfnum og fræddi okkur félagana oft um þau fræði.

Ég kynntist Guðjóni fyrst á öðrum vettvangi, á Hótel Sögu þar sem ég starfaði. Hann og Konráð Guðmundsson, hótelstjóri á þeim tíma, voru mjög góðir vinir og sá hann um endurskoðun fyrir hótelið og var mjög tíður gestur í húsinu.

Hann og Guðlaug komu reglulega til okkar í Grillið enda mikið áhugafólk um góðan mat og góða þjónustu, og við spjölluðum oft um gömlu góðu dagana á Sögu.

Við Njarðarfélagar óskum börnum hans og fjölskyldu okkar dýpstu samúð, genginn er góður Lionsfélagi, blessuð sé minning hans.

Fh. Lionsklúbbsins Njarðar,

Hörður Sigurjónsson formaður.