Sýnileiki Auglýsing Icelandair fyllti stórt ljósaskilti á besta stað.
Sýnileiki Auglýsing Icelandair fyllti stórt ljósaskilti á besta stað. — Ljósmynd/Icelandair
Þeir sem áttu leið um Times Square í New York fyrr í mánuðinum gátu dáðst að færeyska fossinum Múlafossi í Gásadal en fossinn var þar í aðalhlutverki í nýrri auglýsingu Icelandair. Auglýsingunni var ætlað að vekja athygli á Færeyjum sem nýjum…

Þeir sem áttu leið um Times Square í New York fyrr í mánuðinum gátu dáðst að færeyska fossinum Múlafossi í Gásadal en fossinn var þar í aðalhlutverki í nýrri auglýsingu Icelandair.

Auglýsingunni var ætlað að vekja athygli á Færeyjum sem nýjum áfangastað flugfélagsins en Icelandair hefur flug til Færeyja 1. maí næstkomandi og verða fimm til sex ferðir í boði í viku hverri út október.

Í tilkynningu frá félaginu segir að flogið verði í morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli sem tengi Færeyjar mjög vel inn í leiðakerfi Icelandair og stórbæti þannig tengingar Færeyja við Norður-Ameríku.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Icelandair, segir Færeyjar í miklum vexti sem ferðamannastaður. „Höfum við tekið eftir sérstaklega miklum áhuga í Norður-Ameríku – svo miklum að samskiptastjóri okkar vestanhafs nefndi það að hann hefði varla séð viðlíka áhuga á neinum öðrum nýjum áfangastað sem við höfum kynnt. Við lögðum mikla áherslu á að áætlunin félli vel að flugi frá Bandaríkjunum og Kanada og þannig gætu amerískir ferðamenn ferðast auðveldlega til Færeyja með stuttu stoppi í Keflavík,“ segir hann. „Flestir þeirra nýta sér það að stoppa á Íslandi í nokkra daga á annarri hvorri leiðinni og fá þannig tvo spennandi áfangastaði í einni ferð. Við höfum einnig fundið fyrir miklum áhuga Íslendinga á að ferðast til Færeyja og Færeyinga að ferðast til Íslands enda er sterk taug á milli þessara frændþjóða.“ ai@mbl.is