Þórir Ólafsson fæddist 8. september 1935. Hann lést 21. mars 2024.

Útför hans var gerð 5. apríl 2024.

Ég var óharðnaður unglingur þegar ég byrjaði að venja komur mínar á heimili Þóris og Sibbu. Herbergi Silvu, dóttur þeirra hjóna, var svo að segja okkar félagsmiðstöð.

Fljótt varð hún Sibba „mamma“ okkar hinna líka, áhugasöm um hvað við værum að bralla, hvernig gengi í skólanum og já, hvernig okkur gengi í lífinu. Sibba var alltaf til í að hlusta á okkur.

Í fyrstu var ég eiginlega skíthræddur við Þóri. Ef hann var ekki í vinnunni hjá Veðurstofunni þá var hann í bílskúrnum að gera við bíla. Einstaka sinnum kom það fyrir að maður mætti honum komandi út af salerni heimilisins eða öfugt og hjarta óharðnaða unglingsins tók á rás.

Mögulega var þetta fyrsta kennslustund unglingsins í að ástin lætur ekki að sér hæða, andstæðir pólar geta sameinast.

Einhverra hluta vegna þá tók ég upp á því að heimsækja Silvu á jóladag. Fyrstu heimsóknirnar voru þannig að ég sat við eldhúsborðið, mæðgurnar voru að brasa saman í eldhúsinu fyrir fjölskyldumatinn um kvöldið og Þórir var inni í stofu, falinn á bak við harmonikkuhurðina sem deildi stofunni og eldhúsinu.

Þessi heimsókn varð að árlegum viðburði, fjölskylda mín vissi að ég gæti borðað eftir að ég væri búinn að heimsækja þau á Mánabrautinni. Tíminn leið, við fórum í menntaskóla og þegar ég kom í eitt skiptið tók Sibba á móti mér með þeim orðum að: „Silva er ekki heima, viltu að ég hringi í hana?“ „Ha, nei, ég er að heimsækja þig og Þóri!“

Það að sitja við eldhúsborðið með þessum heiðurshjónum var yndislegt. Þarna kynntist maður sterkri ást á milli tveggja einstaklinga og þvílíkum fyrirmyndum í þeim málum. Eftir því sem árin liðu tók ég konuna mína með í þessar heimsóknir og þegar Þórir sá konuna mína fyrst sagði hann: „Þú ert í lagi en ef ég væri þrjátíu árum yngri þá væri hún ekki með þér!“ og svo hlógum við.

Eftir nám í Danmörku, þar sem ég bjó í átta ár, kom ég heim tvíburum ríkari og að sjálfsögðu voru þau tekin með í jólahefðina að heimsækja Sibbu og Þóri.

Síðustu árin hef ég farið einn í þessa hvað mikilvægustu heimsókn hvers árs. Um síðustu jól kom einhver leti yfir mig og ég hugsaði: „Ég heimsæki þau í janúar!“ Svo kom janúar og febrúar og ekki fór ég í heimsóknina. Í mars hugsaði ég að nú ætti ég að taka mig saman í andlitinu og fara á Mánabrautina í heimsókn. Þá kom símtalið. Símtalið um að Þórir væri allur. Minningarnar helltust yfir mig sem og pirringur. Pirringur yfir því að fresta heimsókninni því maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.

Ég á eftir að sakna Þóris, við náðum vel saman. Hann sýndi það og sannaði að undir hörðu yfirborði leyndist mjúkur kall. Við gerðum grín hvor að öðrum, Sibba reyndi að hemja okkur og svo hlógum við.

Elsku Sibba, mikill er missir þinn en ég veit að kallinn verður hjá þér á kollinum við eldhúsborðið. Hann ræddi það nú kallinn að hann myndi yfirgefa okkur á undan þér en hann tryggði að „hún Sibba mín“ yrði nú ekki ein eftir hans dag.

Elsku Gústa, Silva og Óli, takk fyrir að leyfa mér að eignast smá hluta í kallinum og deila honum með ykkur.

Héðinn Sveinbjörnsson.