Andlát Lögreglan á Suðurlandi rannsakar mannslát í sumarhúsi.
Andlát Lögreglan á Suðurlandi rannsakar mannslát í sumarhúsi. — Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
Lögreglan á Suðurlandi hefur fjóra í haldi sem liggja undir grun um hugsanlegt manndráp í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu um miðjan dag á laugardag. Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn ræddi við mbl.is í gær og staðfesti þetta, kvað…

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Lögreglan á Suðurlandi hefur fjóra í haldi sem liggja undir grun um hugsanlegt manndráp í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu um miðjan dag á laugardag.

Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn ræddi við mbl.is í gær og staðfesti þetta, kvað yfirlögregluþjónninn frumvinnu málsins enn í gangi og hefði rannsókn þess staðið yfir í alla fyrrinótt.

„Það er búið að vera að vinna á fullu og sú vinna er enn í gangi,“ sagði Jón Gunnar við mbl.is og kvaðst ekki geta farið nánar út í gang mála að svo búnu. Því síður gæti hann greint frá kyni eða aldri þeirra er í haldi lögreglu væru né hver tilkynnti atvikið.

Það var laust fyrir klukkan 14 á laugardaginn sem lögreglu barst tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í sumarhúsinu en frá því greindi hún í tilkynningu. Var maðurinn, sem var á fertugsaldri, úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila.

„Eins og komið hefur fram barst tilkynning til Neyðarlínu – 112 um meðvitundarleysi rétt fyrir klukkan 14.00 í gær [fyrradag] þann 20. apríl. Hinir grunuðu, ásamt hinum látna, eru allir karlmenn af erlendum uppruna,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar í gær.

„Rannsókn lögreglu miðar að því að upplýsa um atburðarás á vettvangi og með hvaða hætti andlát mannsins bar að. Vegna rannsóknarhagsmuna getur lögregla ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ sagði enn fremur í tilkynningu lögreglu.