Tvenna Ari Sigurpálsson, sem skoraði tvö mörk í leiknum, fagnar öðru markanna með bakverðinum Davíð Erni Atlasyni á Víkingsvellinum.
Tvenna Ari Sigurpálsson, sem skoraði tvö mörk í leiknum, fagnar öðru markanna með bakverðinum Davíð Erni Atlasyni á Víkingsvellinum. — Morgunblaðið/Óttar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslands- og bikarmeistarar Víkings í Reykjavík eru einir með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Bestu deild karla í fótbolta. Víkingur gerði sér lítið fyrir og vann sannfærandi sigur á Breiðabliki í stórleik umferðarinnar í gærkvöldi, 4:1

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslands- og bikarmeistarar Víkings í Reykjavík eru einir með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í Bestu deild karla í fótbolta. Víkingur gerði sér lítið fyrir og vann sannfærandi sigur á Breiðabliki í stórleik umferðarinnar í gærkvöldi, 4:1.

Ari Sigurpálsson, sem var í aukahlutverki á síðustu leiktíð, skoraði tvö mörk fyrir Víking. Nikolaj Hansen komst einnig á blað, eins og Danijel Dejan Djuric. Kristófer Ingi Kristinsson gerði mark Breiðabliks, sem var að tapa sínum fyrstu stigum á leiktíðinni.

Nýliðar Vestra skoruðu sitt fyrsta mark og unnu sinn fyrsta sigur er liðið gerði góða ferð til Akureyrar og vann 1:0-sigur á KA. Stefndi allt í markalaust jafntefli en danski varnarmaðurinn Jeppe Gertsen skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. KA er aðeins með eitt stig, á meðan Vestri fékk sín fyrstu þrjú stig.

Markaveisla á Akranesi

ÍA vann annan stórsigurinn í röð er liðið vann sannfærandi heimasigur á Fylki í Akraneshöllinni, 5:1. ÍA vann 4:0-sigur á HK á útivelli í síðasta leik og eru nýliðarnir komnir með sex stig. Fylkir er aðeins með eitt stig. Hinrik Harðarson kom ÍA á bragðið á 11. mínútu. Rétt fyrir hálfleikshlé fékk Orri Sveinn Stefánsson hjá Fylki beint rautt spjald og gengu Skagamenn á lagið í seinni hálfleik.

Rúnar vann KR

Hinn 18 ára gamli Freyr Sigurðsson var hetja Fram í 1:0-útisigri á KR, en leikið var á Þróttaravellinum, þar sem grasið á Meistaravöllum er ekki klárt. Rúnar Kristinsson þjálfari Fram, sem hefur verið hjá KR stóran hluta ævinnar, fagnaði því sigri gegn uppeldisfélaginu.

Loks gerði FH góða ferð í Kórinn og vann 2:0-sigur á HK. Ástbjörn Þórðarson gerði fyrra markið á 67. mínútu og Björn Daníel Sverrisson það seinna á 80. mínútu.