Tvö Andre Onana fékk aðeins tvö mörk á sig í vítakeppninni í gær.
Tvö Andre Onana fékk aðeins tvö mörk á sig í vítakeppninni í gær. — AFP/Glyn Kirk
Arsenal og Liverpool eru í tveimur efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 74 stig hvort eftir sigra um helgina. Arsenal vann sigur á Wolves á útivelli, 2:0, á laugardag. Arsenal var mun sterkari aðilinn og var sigurinn verðskuldaður

Arsenal og Liverpool eru í tveimur efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta með 74 stig hvort eftir sigra um helgina.

Arsenal vann sigur á Wolves á útivelli, 2:0, á laugardag. Arsenal var mun sterkari aðilinn og var sigurinn verðskuldaður. Leandro Trossard gerði fyrra markið á 45. mínútu og Martin Ödegaard rak smiðshöggið í uppbótartíma.

Liverpool jafnaði Arsenal að stigum með 3:1-útisigri á Fulham í Lundúnum í gær. Trent Alexander-Arnold kom Liverpool í forystu á 32. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Timothy Castagne jafnaði fyrir Fulham í lok fyrri hálfleiks en Liverpool bætti við tveimur mörkum eftir hlé. Ryan Gravenberch gerði það fyrra á 53. mínútu og Diogo Jota það seinna 19 mínútum síðar.

Þá skoraði Jóhann Berg Guðmundsson sitt fyrsta mark á leiktíðinni í deildinni er hann gerði fjórða mark Burnley í 4:1-útisigri á Sheffield United í fallbaráttuslag. Jóhann kom inn á sem varamaður á 70. mínútu og skoraði fallegt mark örfáum sekúndum síðar.

Í enska bikarnum mætast Manchester United og Manchester City í úrslitum annað árið í röð. United slapp heldur betur með skrekkinn er liðið komst í 3:0 gegn Coventry úr B-deildinni á Wembley í gær. Coventry neitaði að gefast upp, jafnaði í 3:3, og knúði fram framlengingu. Þar var ekkert skorað en United var að lokum sterkari í vítakeppni og vann hana 4:2.

Manchester City vann Chelsea á sama velli á laugardag, 1:0. Bernardo Silva gerði sigurmarkið á 84. mínútu.