Dátar Hermenn við Þingvallaveginn á hernámsárunum.
Dátar Hermenn við Þingvallaveginn á hernámsárunum. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirvöld gengu langt í því að hnýsast í einkalíf íslenskra kvenna á hernámsárunum og vilja sumir tala um njósnir í því sambandi. Fylgst var með konum sem taldar voru vera í „ástandinu“ eins og Íslendingar kölluðu það ef íslenskar konur áttu í samskiptum við erlenda hermenn. Siðapostular töldu slíkt til merkis um slæmt siðferði og þessum þyrfti beinlínis að hjálpa við að koma þeim inn á brautir sem siðapostulum líkaði.

Yfirvöld gengu langt í því að hnýsast í einkalíf íslenskra kvenna á hernámsárunum og vilja sumir tala um njósnir í því sambandi. Fylgst var með konum sem taldar voru vera í „ástandinu“ eins og Íslendingar kölluðu það ef íslenskar konur áttu í samskiptum við erlenda hermenn. Siðapostular töldu slíkt til merkis um slæmt siðferði og þessum þyrfti beinlínis að hjálpa við að koma þeim inn á brautir sem siðapostulum líkaði.

„Vorið 1941 fól Hermann Jónasson forsætisráðherra Jóhönnu Knudsen fyrrverandi yfirhjúkrunarkonu að stýra tveggja mánaða lögreglurannsókn á samneyti hermanna og íslenskra kvenna. Jóhanna hafði nokkra einstaklinga á sínum snærum sem gáfu oft afar nákvæmar upplýsingar um einkahagi þessara kvenna,“ segir Bára Baldursdóttir sagnfræðingur sem sendi frá sér bók um ástandsárin í desember. Í dag segir hún frá rannsóknum sínum í Fræðakaffi á Borgarbókasafninu Spönginni klukkan 16.30.

„Þetta voru allt frá ungum stúlkum upp í konur á sextugs- og sjötugsaldri. Hjúkrunarkonan skráði þessar upplýsingar í minnisbækur, alls 10 talsins. Oft voru litlar eða engar sakir að baki þessum færslum. Nóg var að kona þætti hafa slæmt orð á sér eða sæist með hermanni. Upplýsingasöfnun af þessu tagi á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu og hlýtur að teljast gróf aðför að einkalífi fólks.“

Skjalasafn opnað eftir 50 ár

Bára hefur skoðað þetta tímabil í langan tíma.

„Ég hef unnið að þessu með hléum og skrifaði um þetta meistararitgerð. Þá fékk ég hins vegar takmarkaðan aðgang að heimildum. Mér fannst vanta meira til að myndin yrði skýr og taldi jafnvel að einhverjar heimildir hefðu glatast. Fyrir vikið ætlaði ég mér ekki að gera meira í þessu eftir að ég lauk ritgerðinni. Árið 2011 var opnað einkaskjalasafn sem varðveitt hafði verið á Þjóðskjalasafninu í hálfa öld. Þetta var skjalasafn Jóhönnu Knudsen sem hafði veitt ungmennaeftirlitinu forstöðu og var fyrsta lögreglukona landsins. Í þessu safni reyndust vera opinber gögn og ansi merkileg. Um svipað leyti skiluðu sér gögn frá vinnuskólanum á Kleppjárnsreykjum. Ég er ekki sú eina sem hef skoðað þessar heimildir og unnar hafa verið fræðigreinar upp úr þessu. En mig langaði að höfða til breiðari lesendahóps og fór þess vegna í að gefa út í bókarformi.“ kris@mbl.is