Elmar Diego Þorkelsson fæddist 15. júlí 1973. Hann lést 1. mars 2024.

Útför Elmars fór fram 12. mars 2024.

Mig langar að minnast þín með nokkrum orðum elsku frændi. Hverjum hefði dottið í hug að síðasta samtalið okkar yrði það síðasta? Ég man nákvæmlega hvernig það var, tvö stutt símtöl með nokkurra mínútna millibili sem enduðu með orðunum þínum: „Takk, elskan mín.“

Ég átti þér svo miklu meira að þakka Elmar. Þú varst alltaf klettur þeirra sem stóðu þér næst, alltaf sannur og boðinn og búinn til að hjálpa.

Það er skrítið að vera úti í heimi og rifja upp minningarnar mínar um þig. Að hugsa til þess að ég muni aldrei sjá þig aftur. Að ég muni aldrei upplifa það aftur að bíða með eftirvæntingu að þú mættir í fjölskylduboð með fallega brosið þitt og hláturinn. Þú áttir oft brandara í pokahorninu eða skemmtilegar sögur, blikkaðir stundum augunum meðan þú sagðir frá sem var síðan toppað með einstaklega einlægum hlátri þínum.

Ég man eftir því þegar ég mætti til þín í Betra bak að ræða kaup á rúmi. Það var svo lýsandi fyrir það hvernig húmorinn þinn mætti áreynslulaust inn í samræðurnar og einhvern veginn endaði ég á því að kaupa tvíbreiða sæng eftir að þú þuldir upp kostina við svoleiðis sæng og við hlógum okkur máttlaus.

Ég var svo heppin að fá að skottast í kringum þig þegar við mamma bjuggum hjá Ástu ömmu, varst eiginlega stóri bróðir minn á meðan, þú unglingur og ég bara krakki. Þú leyfðir mér að leika með playmóið þitt og tindátana en svo var ég allt í einu rækilega föst við snúrurnar á svölunum þegar prakkarinn í þér uppgötvaði þvottaklemmurnar.

Svo þegar við urðum eldri, þá áttum við meðal annars jafngömul börn og aldursmunurinn einhvern veginn hvarf. Það sást langar leiðir hvað þú varst alltaf stoltur af börnunum þínum og auðvitað barnabörnunum, enda dásamlega vönduð og falleg. Það fór ekki á milli mála að stjúpbörnin þín voru engin undantekning þegar ég náði að hitta ykkur á N1-mótinu þar sem þú varst að horfa á Ágúst Atla keppa og ég með Atla minn.

Það er svo margt sem þú áttir eftir að upplifa með þeim og missirinn svo mikill fyrir þau og ástvini þína.

Ef það er líf eftir þetta líf, þá er það smá huggun að Þorkell afi hafi tekið á móti þér. Ég veit þú saknaðir hans mikið og hefðir viljað hafa hann hjá þér. Megi allar góðar vættir gefa þínum nánustu og ástvinum styrk á þessum erfiðu tímum.

Þín verður sárt saknað elsku frændi

Þín frænka,

Jóhanna Jakobsdóttir.

Elmar Þór Diego Þorkelsson hefur nú haldið yfir móðuna miklu. Auk þess að hafa verið bekkjarbræður um tveggja ára skeið vorum við Elmar skólabræður frá því hann flutti í hverfið um tíu ára aldurinn og þangað til ég flutti úr hverfinu fjórtán ára. Elmar var um margt sérstakur maður, því hann bætti og græddi alla sem urðu á vegi hans, enda alltaf jákvæður og auðveldur í umgengni og sýndi öllum fyllstu virðingu og nærgætni auk þess að greina og laða fram það besta í öllum. Það er þó svo að margt kann að vera meitlað í stein og skrifað í lífsbók hvers og eins og það jafnvel áður en hlutirnir gerast.

Um Elmar má segja að hann hafi verið ljósvera, því strax um tólf og þrettán ára aldurinn var Elmar skrifaður í eigin lífsbók og annarra sem fyrsti kærasti margra stúlkna og ekki aðeins í sínum eigin árgangi. Á unglingsárum okkar hefði samt engan grunað að Elmar ætti síðar meir að verða harðduglegur og áræðinn maður í bæði vaxtarrækt og í hvers kyns vinnu og klífa þjóðfélagsstigann og ekki síst sem self-made man. Enn síður hefði nokkurn grunað að Elmar ætti eftir að bæta umhverfi sitt og líðan meðal ólíklegasta fólks sem var ekki í samræmi við neitt spálíkan eða neitt sem hægt var að gefa sér fyrirfram. Elmar hélt því áfram að vera pantaður sem mannasættir og ljósvera í lífi annarra og fleiri, því síðar var honum falið skv. lífsbók sinni að mæta fjölda manna sem áttu sér mikla áfallasögu og voru staddir á versta stað í lífinu, en þar var það alveg eins og þegar við vorum börn og bekkjarbræður, að Elmar var pantaður sem gleðigjafi í umhverfi sem var viðkvæmt og erfitt, en þurfti svo sannarlega á manni að halda sem lægði staðblæinn á vindasamasta stað sem hægt er að hugsa sér. Því hafa eflaust ótal margir staðið af sér vindinn og náð tökum á lífi sínu fyrir það eitt að hafa fengið að kynnast Elmari. Þetta segir sá sem átti sér sínar stundir sem bekkjabróðir Elmars í ellefu og tólf ára bekk, og líka heima hjá hvor öðrum og niðri í bæ saman, en var aldrei í neinu sambandi við hann síðar meir, en fylgdist þó með honum úr fjarska.

Elmar var einstakur maður sem lifði sem slíkur einbeittu lífi sem miðaði að því að mæta öðrum á sínum versta stað í lífinu sem gleðigjafi og maður sem lifði lífi sínu í verki eins og skv. bæn Frans frá Assisi, þar sem beðið er fyrir því að maður megi vera verkfæri friðar og veita liðsinni við að leiða inn kærleika þar sem hatur ríkir og trú þar efi ríkir og von þar sem örvænting drottnar. Elmar var maður sem lifði lífi sem gekk allt út á það að mæta fólki og byggja það upp, hvort sem það var í faðmi bekkjar- eða skólafélaga eða síðar í lífinu þegar hann var kallaður til þess sama þar sem þörfin var mest en fórnirnar sem þurfti að færa á móti voru svo miklar að þar hefði margur kiknað, þótt Elmar hafi staðið keikur þá sem síðar.

Árni B. Steinarsson Norðfjörð.