Cornucopia Björg á tónleikum með Björk á ferðalagi þeirra um heiminn.
Cornucopia Björg á tónleikum með Björk á ferðalagi þeirra um heiminn. — Ljósmynd/Santiago Felipe
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flautuleikarinn Björg Brjánsdóttir verður með einleikstónleika í Hannesarholti sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl. „Ég setti saman sérstaka efnisskrá sem mér fannst spennandi að flytja,“ segir hún um viðburðinn sem hefst klukkan 20.00

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Flautuleikarinn Björg Brjánsdóttir verður með einleikstónleika í Hannesarholti sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl. „Ég setti saman sérstaka efnisskrá sem mér fannst spennandi að flytja,“ segir hún um viðburðinn sem hefst klukkan 20.00.

Björg sendi frá sér fyrstu plötu sína, Growl Power, með fjórum einleiksverkum fyrir flautur eftir Báru Gísladóttur snemma árs og var með útgáfutónleika á Myrkum músíkdögum í Hörpu 24. janúar. Hún spilar meðal annars eitt þessara verka í Hannesarholti og tvö verk af væntanlegri plötu í haust, annað eftir Pál Ragnar Pálsson og hitt eftir Tuma Árnason. „Ég spila líka barrokktónlist og fleira.“

Þegar Björg var fjögurra ára segist hún hafa séð flautu í sjónvarpinu og þá hafi ekki orðið aftur snúið. „Ég vældi um að fá að spila á flautu í mörg ár þangað til ég óx upp í að vera nógu stór til þess og hef spilað síðan.“

Áhugi á tónlist og leiklist blandaðist í menntaskóla. Þá byrjaði Björg að semja tónlist og útsetja, prófa sig áfram í klassískri tónlist. Hún útskrifaðist með BA-gráðu af einleikarabraut frá Tónlistarháskóla Noregs 2017 og MA-gráðu frá Tónlistarháskólanum í Hannover í Þýskalandi, auk þess sem hún hefur stundað nám í Danmörku.

Með Björk í nokkur ár

Frá útskrift hefur Björg unnið við margs konar verkefni, ein og með öðrum, meðal annars spilað með sinfóníuhljómsveitinni í Braunschweig í Þýskalandi, Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar. Hún stofnaði kammersveitina Elju, er jafnframt flautuleikari tónlistarhópsins Caput og í flautuseptettinum Viibra, sem var á tónleikaferðalagi um heiminn með Björk undanfarin ár.

„Þá dansaði ég, sveiflaði flautunni og spilaði,“ segir Björg um ferðalagið. „Við byrjuðum að vinna með Björk 2016, hófum ferðalagið með henni 2018 og lukum því í desember 2023.“ Það hafi verið mjög skemmtilegt og spennandi og hún sé þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. „Ég fékk innsýn í hvernig hún vinnur, skapar og gerir tónlist, og það var víkkandi fyrir mig sem tónlistarmann. Einnig víkkaði það út þægindarammann að spila nótulaust og vera með kóreógrafíu við hvert lag. Þetta var allt öðruvísi en ég hafði gert áður og svo var þetta frábært tækifæri til þess að ferðast um heiminn.“

Björg var tilnefnd sem Flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022. „Það gaf mér byr undir báða vængi að halda áfram með einleiksverkefni,“ segir hún. „Það var mikil hvatning.“ Hún og Viibra spila með fransk-svissneska flautuleikaranum Emmanuel Pahud, einum fremsta flautuleikara heims, á tónlistarhátíð í Óðinsvéum í Danmörku 30. maí í tilefni þess að þá fær hann sérstök verðlaun.