Heyrn Hætt var að skima fyrir heyrn í grunnskólum á Íslandi árið 2011 en vonir standa til að það breytist í haust.
Heyrn Hætt var að skima fyrir heyrn í grunnskólum á Íslandi árið 2011 en vonir standa til að það breytist í haust. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ólafur Pálsson olafur@mbl.is Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) undirbýr tilraunaverkefni sem snýr að skimun á heyrn grunnskólabarna. Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ vonast til að hægt verði að hrinda verkefninu í framkvæmd í haust. Forsenda þess er þó blessun embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytis.

Viðtal

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) undirbýr tilraunaverkefni sem snýr að skimun á heyrn grunnskólabarna. Kristján Sverrisson forstjóri HTÍ vonast til að hægt verði að hrinda verkefninu í framkvæmd í haust. Forsenda þess er þó blessun embættis landlæknis og heilbrigðisráðuneytis.

Ein fárra Evrópuþjóða

Íslendingar eru ein fárra Evrópuþjóða sem ekki skima fyrir heyrn grunnskólabarna en margar þjóðir skima nokkrum sinnum á grunnskólagöngunni. Skimun á heyrn grunnskólabarna var aflögð árið 2011. Núverandi starfsfólki embættis landslæknis er ekki kunnugt um þær ástæður sem lágu að baki ákvörðuninni að því er segir í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. Embættið muni halda áfram að skoða hvort frekari upplýsingar finnist. Þá segir embættið í sama svari að ekkert mat liggi fyrir svo embættið viti um afleiðingar þess að skimanir hafi verið aflagðar á sínum tíma.

Getur brotist fram í hegðun

Kristján segir í samtali við Morgunblaðið að á sínum tíma hafi skimanirnar ekki verið taldar svara kostnaði miðað við þann fjölda barna sem greindist með óeðlilega heyrn og mikla óánægju hafa verið með ákvörðunina á sínum tíma. Segir hann það einmitt dýrt ef þau börn finnist ekki og nefnir sérkennslu og ýmis úrræði sem séu í raun dýrari en einföld skimun sem grípi börnin strax svo þau fái viðeigandi meðferð.

Tekur hann undir vangaveltu blaðamanns um hugsanlegan frekari samfélagslegan kostnað í framtíð barna sem lendi snemma í vandræðum í skóla. Í dag er eingöngu skimað við fæðingu og börn gripin sem fæðast með skerta heyrn eða heyrnarlaus. Alls konar sjúkdómar eða annað kunna að valda því að börn geti síðar misst heyrn, annaðhvort á öðru eyra eða báðum. Oft uppgötvast heyrnarskerðing þannig mjög seint og illa að sögn Kristjáns. Það gerist í gegnum seinan málþroska, seint tal og vandræði í skóla. „Það getur margt gerst frá fæðingu að sex ára aldri.“ Kristján segir börn snjöll í að blöffa sig í gegnum vandræði sín. Þau þekki ekkert annað og geti svo lent í vandræðum þegar þau eigi að taka eftir. Það geti brotist fram í hegðun og öllu mögulegu atferli. „Svo kemur í ljós að þau eru verulega heyrnarskert og heyra ekkert það sem fer fram í skólastofu. Við viljum reyna að ná þessum krökkum.“

Einfalt verklag

Í kjölfar ráðstefnu með umboðsmanni barna og landlækni um mánaðamótin febrúar-mars fann Kristján og hans fólk fyrir því að margir telja brýnt að koma aftur á skimun við upphaf skólagöngu. Hann segir lag á því að undirbúa tillögur til landlæknis og heilbrigðisráðuneytis um að hefja skimun á ný með einföldu verklagi þar sem ekki þyrfti endilega heilbrigðissérfræðing eða hjúkrunarfræðing til framkvæmdarinnar. HTÍ vinnur að þróun mismunandi mæliaðferða og mælitækja sem verða einföld, jafnvel svo einföld að sex ára börn gætu framkvæmt skimanirnar sjálf án aðstoðar að sögn Kristjáns. „Við erum að skoða hvernig þetta er gert hjá öðrum þjóðum og höfum fengið að láni sérstaka skimunarmæla frá nokkrum framleiðendum til þess að prófa hvað væri einfaldasta og öruggasta leiðin til að grípa þessi börn á eins einfaldan máta og hægt er.“

Í samvinnu við nokkra skóla

Hugmyndin er að koma á tilraunaverkefni í samvinnu við nokkra skóla, segir Kristján, og að það væri mikið framfaraskref. Skimað sé fyrir sjón á þremur skólastigum en aldrei fyrir heyrn. Sumar þjóðir skimi í 1., 4. og 7. bekk en Íslendingar hunsi skynfærið algjörlega og það sé slæmt. „Við teljum okkur eiga að vera í hópi fyrirmyndarþjóða. Það er í raun fáránlegt að kanna ekki með stuttu og einföldu móti hvort börn á grunnskólaaldri heyri eðlilega.“

Á stærri skala innan fárra ára

Segist Kristján sannfærður um að ef leyfi fáist fyrir tilraunum með skimanir í nokkrum grunnskólum verði sýnt fram á einfalda framkvæmd og að hægt verði að finna þau börn sem talin eru týnd í kerfinu. „Vonandi getum við hrint þessu af stað í haust í völdum sex ára bekkjum. Ef allt lukkast er mögulega hægt að hefja þetta á stærri skala innan fárra ára, vonandi haustið 2025. Við viljum auðvitað sjá þetta gerast sem fyrst en í fullri sátt.“

Hann telur best fara á því að fella verkefnið inn í þann tíma þegar aðrar skimanir fara fram á grunnskólabörnum. „Við þyrftum bara að fá vissan fjölda af sex ára bekkjum og helst úr mismunandi skólum til þess að fá næga svörun fyrir okkur,“ segir Kristján.

Einblína á heyrnarskerðingar og hljóðvist

Sérstakt að Ísland skeri sig úr

Salvör Nordal umboðsmaður barna segir hljóðvist í umhverfi barna ábótavant. Segir hún óviðunandi hljóðvist í skólanum geta haft mikil áhrif á líðan barna. Kennarar hafi kvartað yfir hljóðvist og leitað til Vinnueftirlitsins en það geti börn ekki. Vaxandi áhyggjur séu af tækjanotkun sem skaði heyrn barna. „Enginn veit fyrr en á reynir hversu viðkvæm heyrnin er.“

Salvör segir mikilvægt að leggja áherslu á heyrnarskerðingar og hljóðvist og mjög sérstakt sé að Ísland skeri sig úr í Evrópu hvað viðkemur skimun á heyrn. Segir hún skipta miklu máli að börn fái rétta greiningu svo þau fái einnig rétta þjónustu. „Við erum auðvitað þeirrar skoðunar að þjónusta við börn eigi að vera eins góð og hægt er en hvernig hún á nákvæmlega að vera útfærð verða sérfræðingarnir að segja til um,“ segir Salvör.