Strandveiðar Smábátamenn vilja rýmka veiðiheimildir á komandi vertíð, en fækka veiðidögum í mánuði, til að tryggja jafnræði á milli landshluta.
Strandveiðar Smábátamenn vilja rýmka veiðiheimildir á komandi vertíð, en fækka veiðidögum í mánuði, til að tryggja jafnræði á milli landshluta. — Ljósmynd/Rut Sigurðardóttir
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Landssamband smábátaeigenda hefur allt frá því að Fiskistofa auglýsti í fyrsta sinn stöðvun strandveiða, í ágúst 2020, óskað eftir að ráðherra tryggi nægar veiðiheimildir til 12 daga sóknar í hverjum mánuði maí til ágúst. Beiðni LS hefur til þessa ekki borið þann árangur sem vænst hefur verið.“

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Landssamband smábátaeigenda hefur allt frá því að Fiskistofa auglýsti í fyrsta sinn stöðvun strandveiða, í ágúst 2020, óskað eftir að ráðherra tryggi nægar veiðiheimildir til 12 daga sóknar í hverjum mánuði maí til ágúst. Beiðni LS hefur til þessa ekki borið þann árangur sem vænst hefur verið.“

Svo segir í bréfi sem Landssamband smábátaeigenda sendi Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur sem nýverið tók við embætti matvælaráðherra, en engin viðbrögð fengið enn, að sögn Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra landssambandsins.

Í bréfinu segir enn fremur að rúmt ár sé liðið frá því að landssambandið viðraði þá hugmynd að á meðan stjórnvöld sæju sér ekki fært að auka við veiðiheimildir til strandveiða og þar til yfirstandandi endurskoðun á lögum ljúki verði ákvæði um stöðvun vikið til hliðar, jafnframt sem veiðidögum verði fækkað um tvo í hverjum mánuði. „Full eining er um málið meðal svæðisfélaga LS að fara þessa leið,“ segir þar.

Í bréfinu er vakin athygli á því að standi vilji stjórnvalda ekki til þess að tryggja nægar veiðiheimildir sem dugi fyrir 48 strandveiðidaga verði dögum fækkað. Í stað tólf daga í hverjum mánuði verði fjöldi veiðidaga tíu. Samhliða breytingunni verði tryggt að ákvæði um að Fiskistofa skuli stöðva veiðar þegar sýnt þyki að leyfilegum heildarafla verði náð komi ekki til framkvæmda. Slík breyting muni tryggja fullt jafnræði strandveiða milli allra landshluta.

Segir Örn að það valdi vonbrigðum að svo virðist sem nýr matvælaráðherra hyggist ekki bregðast við óskum landssambandsins um breytingar á strandveiðikerfinu.

„Við áttum ekki von á því,“ segir hann og bendir á að Vinstri-grænir hafi hingað til viljað standa vörð um strandveiðikerfið og segist ekki úrkula vonar um að kerfinu verði breytt til batnaðar.

„Ég er samt þokkalega bjartsýnn á að dögunum verði fækkað niður í 10 og á móti komi að veiðarnar verði ekki stöðvaðar þegar 10 þúsund tonna markinu er náð,“ segir hann.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson