[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska landsliðskonan Bryndís Arna Níelsdóttir viðbeinsbrotnaði í leik Växjö gegn Pieta í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á dögunum og verður frá keppni í nokkurn tíma. Í samtali við Morgunblaðið sagði Bryndís að hún myndi ólíklega ná næstu…

Íslenska landsliðskonan Bryndís Arna Níelsdóttir viðbeinsbrotnaði í leik Växjö gegn Pieta í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á dögunum og verður frá keppni í nokkurn tíma. Í samtali við Morgunblaðið sagði Bryndís að hún myndi ólíklega ná næstu landsleikjum sem eru í lok maí og byrjun júní.

Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason skoraði glæsilegt mark fyrir Norrköping er liðið gerði 1:1-jafntefli gegn Gautaborg á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á laugardag. Gerði hann markið beint úr aukaspyrnu. Arnór lék allan leikinn, eins og Kolbeinn Þórðarson hjá Gautaborg. Ísak Andri Sigurgeirsson kom inn á sem varamaður hjá Norrköping á 80. mínútu.

Selma Sól Magnúsdóttir skoraði eina mark Nürnberg í 1:4-tapi liðsins gegn Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni í fótbolta á laugardag. Selma skoraði markið strax á 1. mínútu er hún gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr hornspyrnu. Nürnberg er í 11. sæti, fallsæti, með 12 stig eftir 19 leiki.

Viktor Gísli Hallgrímsson var fjarverandi vegna meiðsla þegar Nantes sigraði Paris SG í úrslitaleik franska bikarsins á laugardag. Leiknum lauk með sannfærandi sigri Nantes, 31:23, og er Viktor því franskur bikarmeistari.

Fjölnir sigraði Þór á heimavelli sínum í fyrsta leik liðanna í umspili um sæti í efstu deild karla í handbolta á laugardag, 30:26. Réðust úrslitin í framlengingu. Björgvin Páll Rúnarsson skoraði níu fyrir Fjölni. Brynjar Hólm Grétarsson og Aron Hólm Kristjánsson skoruðu sín átta mörkin hvor fyrir Akureyringa.

Þórsarar frá Akureyri tryggðu sér sæti í undanúrslitum umspils í 1. deild karla í körfubolta á heimavelli sínum á laugardag með 85:80-sigri á Skallagrími í oddaleik. Fremstur í flokki heimamanna var Harrison Butler sem skoraði heil 42 stig. Þór vann einvígið 3:2 og mætir ÍR í undanúrslitum.

Orri Freyr Þorkelsson lék mjög vel fyrir Sporting er liðið vann sannfærandi heimasigur á Benfica, 37:28, í efstu deild portúgalska handboltans á laugardag. Orri skoraði sjö mörk fyrir sitt lið. Stiven Tobar Valencia lék ekki með Benfica vegna meiðsla.

Ólafur Stefánsson, þjálfari Aue í 2. deild þýska handboltans, lætur af störfum í sumar. Sveinbjörn Pétursson markvörður liðsins er einnig á förum. Aue er á hraðri niðurleið í 3. deild en liðið tapaði 24:17, fyrir næstneðsta liði deildarinnar, TuS Vinnhorst, á laugardag.

Knattspyrnumaðurinn Jóhannes Kristinn Bjarnason fótbrotnaði í leik KR og Fram í Bestu deildinni á laugardag. Verður hann frá keppni næstu þrjá mánuðina.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði mark Lyngby er liðið mátti þola tap á útivelli gegn Viborg, 1:2, í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Andri lék allan leikinn, eins og Kolbeinn Birgir Finsson. Sævar Atli Magnússon lék fyrstu 69 mínúturnar. Lyngby er í 10. sæti með 25 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Óðinn Þór Ríkharðsson fór á kostum fyrir Kadetten er liðið lagði Pfadi Winterthur að velli á heimavelli, 25:22, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum svissneska handboltans í gær. Óðinn skoraði níu mörk og er Kadetten með 2:1 forystu í einvíginu.

Stjarnan knúði fram oddaleik í einvígi sínu gegn Haukum í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta með sigri í fjórða leik liðanna á heimavelli sínum í gær, 73:64. Haukar voru mun sterkari framan af og náðu 18 stiga forskoti í stöðunni 50:32. Stjarnan vann hins vegar fjórða og síðasta leikhlutann 29:6. Denia Davis-Stewart skoraði 24 stig og tók 18 fráköst fyrir Stjörnuna. Kolbrún María Ármannsdóttir gerði 22. Keira Robinson gerði 18 stig fyrir Hauka, eins og Tinna Guðrún Alexandersdóttir.