Tvenna Amanda Andradóttir fagnar öðru tveggja marka sinna í gær.
Tvenna Amanda Andradóttir fagnar öðru tveggja marka sinna í gær. — Morgunblaðið/Óttar
Íslandsmeistarar Vals fara vel af stað í titilvörn sinni í Bestu deild kvenna í fótbolta en liðið vann Þór/KA, 3:1, á heimavelli í upphafsleik deildarinnar á Hlíðarenda í gær. Landsliðskonan Amanda Andradóttir fer vel af stað á nýju tímabili

Íslandsmeistarar Vals fara vel af stað í titilvörn sinni í Bestu deild kvenna í fótbolta en liðið vann Þór/KA, 3:1, á heimavelli í upphafsleik deildarinnar á Hlíðarenda í gær. Landsliðskonan Amanda Andradóttir fer vel af stað á nýju tímabili. Hún skoraði í Meistarakeppni KSÍ í síðustu viku og gerði tvö fyrstu mörk Vals í gær.

Það fyrsta gerði hún á 24. mínútu eftir sendingu frá Jasmín Erlu Ingadóttur og það síðara strax þremur mínútum síðar með glæsilegu skoti eftir sendingu frá Fanndísi Friðriksdóttur.

Var staðan í hálfleik 2:0. Jasmín Erla bætti við þriðja markinu á 70. mínútu, í sínum fyrsta deildarleik með Val, eftir sendingu frá Amöndu. Jasmín, sem varð markadrottning Bestu deildarinnar árið 2022, kom til Vals frá Stjörnunni.

Sandra María Jessen fyrirliði Þórs/KA lagaði stöðuna fyrir norðankonur á 88. mínútu með glæsilegu skoti úr teignum og þar við sat.

„Amanda var stórhættuleg allan leikinn, Fanndís Friðriksdóttir var með áætlunarferðir upp vinstri kantinn og Jasmín Erla náði afar vel saman við þær tvær,“ skrifaði Gunnar Egill Daníelsson m.a. um leikinn á mbl.is