Jónína Þóra Einarsdóttir fæddist 5. september 1941. Hún lést 25. mars 2024.

Þóra var jarðsungin 19. apríl 2024.

Það var fallegur dagur er hún Þóra fór í sumarlandið. Minningar löngu liðinna ára komu í hugann. Kynni okkar hófust í kringum 1960 er við bjuggum í sama húsi og vorum báðar að hefja búskap og áttum margt sameiginlegt.

Þá er það að við tvenn hjón ákváðum að byggja framtíðarhús.

Ekki voru til peningar en þetta hlaut að reddast, sem sannarlega rættist.

Trjám og runnum plantað sem ekki var algengt á þessum árum.

Allt reddaðist, trén spruttu og börnin urðu sjö í húsinu og ævilöng vinátta skapaðist er nú nær til barnabarna. Við Þóra vorum félagslega sinnaðar og virkar í ýmsum félögum.

Brugðum okkur í allra kerlinga hlutverk og glöddum með því samborgara.

Eina ógleymanlega ferð fórum við hjón með Þóru og Ægi í Jökulfirði,

óðum við sóleyjar og hvönn og horfðum á sólina dansa eftir haffletinum um lágnættið.

Ég gæti talað um svo margt er minningar geyma allar ljúfar.

Kæru systur, ástarþakkir fyrir að koma til mín eftir burtför mömmu ykkar, það minnti mig á liðinn tíma, þegar hægt var að gráta saman.

Kæri Ægir, þinn missir er mestur, allar góðar minningar hugga.

Þóra mín, góða ferð í sumarlandið. Takk fyrir allt.

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti

(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)

Kveðja,

Erna.

„Hvað ertu með í matinn?“ var kallað yfir grænmetiskælinn í Hagkaup Eiðistorgi.

Við Þóra hittumst oft í búðinni og þá fórum við oft yfir málin í léttum dúr. Þá bárum við saman bækur okkar um matarinnkaup og bara alls konar sem okkur datt í hug.

Hún kallaði mig yfirleitt ellistoð foreldra minna. Hún var alltaf svo hress og skemmtileg og alltaf stutt í brosið og elskulegheitin.

Þóra vann um árabil hjá Seltjarnarnesbæ og lengst af með honum pabba. Alltaf sinnti hún sínum störfum af alúð og fagmennsku. Þóra var mikil slysavarnakona og félagi í Vörðunni hér á Nesinu.

Hún birtist hér ævinlega með Neyðarkarlinn sem bærinn keypti til stuðnings slysavarnastarfi.

Hún var ötul í starfi Sjálfstæðisfélagsins um árabil og setti svo sannarlega svip á mannlífíð hér úti á Nesi eins og öll hennar stóra fjölskylda.

Ellistoðin ég vil þakka elsku Þóru samfylgdina í gegn um lífið.

Vil að lokum votta allri stórfjölskyldu Þóru, og Ægi mínum sérstaklega, innilega samúð mína og minnar fjölskyldu.

Guð geymi minninguna um góða konu.

Þór Sigurgeirsson.

Fólkið í Túni.

Margar góðar minningar fylgja sambúð okkar fjölskyldanna í Túni, Tjarnarbóli 15. Foreldrar mínir, Eyjólfur og Erna, byggðu ásamt Þóru og Ægi húsið í Túni. Bjuggu fjölskyldurnar hvor á sinni hæðinni og var mikið líf og fjör í húsinu enda sjö börn.

Fjölskyldurnar hafa svo fléttast saman í gegnum lífið og gera enn og nú er komið að fjórða ættlið þar sem vinskapur barnabarns mín og langömmubarns Þóru og Ægis er að skapa sínar fyrstu minningar.

Það voru allaf hlýjar og góðar móttökur hjá Þóru, sama hvað maður hafði gert af sér, og sjaldan var ítalska salatið langt undan.

Elsku Ægir, Lilja, Sigrún, Hafdís systir, Þóra Guðný og fjölskyldur, um leið og ég þakka fyrir samfylgdina sendi ég ykkur kærleikskveðjur og styrk í sorginni.

Árni Kolbeins.