Jóna Marín Sveinbjörnsdóttir fæddist 14. júní 1927. Hún lést 5. mars 2024.

Útförin fór fram 13. mars 2024.

Kveðja frá Ingvarsdætrum.

Við systur nutum þeirrar gæfu að eiga okkar sveit þótt við færum ekki í sveit í orðins fyllstu merkingu. Okkar sveit var í Uppsölum en þar dvaldi pabbi okkar í sjö sumur. Að fara austur að Uppsölum var ávallt tilhlökkunarefni. Þar tók hundurinn Lubbi fagnandi á móti okkur og í fjósinu heilsaði á fremsta bási kýrin Skrauta. Úti í haga var hesturinn Skjóni en við vorum sannfærðar um að Skrauta og Skjóni væru hjón. Svo voru það hænsnin og kötturinn, matjurtagarðurinn og hlaðan.

Fyrsti viðkomustaður þegar í Uppsali var komið var jafnan eldhúsið. Það virtist ekki skipta neinu máli hvort við mættum óvænt eða höfðum gert boð á undan okkur. Alltaf var borin fram nýbökuð kaka með smjörkremi ásamt ískaldri mjólk sem lengi vel kom úr mjólkurkælinum í fjósinu en síðar meir úr fernu frá MS. Þetta var töfrum líkast því kökurnar voru alltaf nýbakaðar og virtust bara bíða næsta gests. Og meðan við borðuðum kepptust systkinin um orðið, þá helst Lauga og Guðjón, en Jóna átti síðar eftir að láta til sín taka. Þau systkinin voru samheldin og samhent. Verkaskiptingin var skýr og virðing þeirra hverra fyrir öðru mikil.

Þótt við systur dveldum ekki sumarlangt í sveit líkt og pabbi, kynntumst við Uppsalalífinu um margt í gegnum hann. Hann sagði okkur frá því hvernig hann beið þess með óþreyju vor hvert að komast austur í sauðburðinn. Að smala fénu, rýja ærnar, reka kýrnar, hjálpa til við mjaltir og reka vinalegar kýrnar í nátthagann. Hann sagði okkur frá ævintýrum sínum í sveitinni. Eitt þeirra var þegar hann leiddi hest fyrir neðan hól og prófaði að stökkva ofan á hann eins og indjánarnir í kúrekamyndunum gerðu með heldur sársaukafullum árangri þó. Þegar hann svaf í rúman sólarhring eftir ævintýralegar leitir með Guðjóni. Fjörug spilamennska á kvöldin með þeim systrum. Hvernig hann beið þess með sömu óþreyju að komast austur fyrir fjall í jólafríinu. Allar sögurnar sagðar af svo mikilli hlýju og væntumþykju til þeirra systkina sem áttu svo ríkan og fallegan þátt í uppvexti pabba.

Jóna var tvíburasystir Laugu. Þær systur voru samrýmdar en ólíkar. Þegar við vorum litlar var það Lauga sem hafði jafnan orðið fyrir þeim systrum. Við kynntumst því Laugu um margt betur en Jónu. En þegar Lauga hafði kvatt varð okkur ljóst að Jóna hafði ekki minna að segja. Og þannig kynntumst við Jónu betur þegar við vorum sjálfar orðnar fullorðnar en það var sérlega notalegt að heimsækja Jónu og Guðjón og síðar Jónu á Selfoss. Jóna var eldklár eins og systir hennar og ótrúlega minnug. Skemmtileg og skörp til síðasta dags. Og rausnarleg. Eftirminnilegt er þegar hún var hæstbjóðandi í kálfinn Hvíta-Gauta sem boðinn var upp til heiðurs Gauta Gunnarssyni bónda til styrktar göngudeild sjúkrahússins á Selfossi.

Við systur kveðjum nú kæru Jónu, síðasta þeirra Uppsalasystkina, með þakklæti. Við þökkum bæði fyrir það sem hún var okkur og föður okkar, og munum halda áfram að segja sögur úr Uppsölum en þær eru allar bjartar og góðar.

Guðrún, Hildur og Árný Ingvarsdætur.

Nú kveðjum við með söknuði Jónu frá Uppsölum í hinsta sinn.

Þegar ég hugsa til baka og rifja upp þær minningar sem ég á af systkinunum á Uppsölum finn ég fyrir hlýju og þakklæti fyrir vinskapinn og allar dýrmætu samverustundirnar í gegnum tíðina. Það var alltaf svaka sport hjá okkur systkinunum í Túni að fá að labba yfir að Uppsölum og heimsækja systkinin þar, þó nokkur aldursmunur væri þarna á milli. Þá hringdum við og spurðum hvort við mættum koma í heimsókn og yfirleitt var svarið já ef þau voru heima. Það hefðu eflaust ekki margir á þeirra aldri verið tilbúnir að taka á móti ungum systkinum frá næsta bæ. En það gerðu þau og út héldum við, röltum framhjá hestunum hans Guðjóns heitins og upp hólinn. Þegar komið var að dyrunum var bankað og kom Jóna yfirleitt til dyra. Okkur var boðið í kaffi ef heimsóknin var á kaffitíma og svo var spilað. Við spiluðum nánast alltaf og það klikkaði ekki að boðið var upp á kandís með spilamennskunni. Stundum gerðist það að við krakkarnir vorum heldur orkumikil eftir kaffitímann og var þá farið í feluleik um húsið með tilheyrandi látum. Þau kipptu sér lítið upp við þetta. Eftir þennan tíma inni fórum við svo stundum með þeim í göngutúr út að Túnsafleggjara en þar kvöddumst við og við krakkarnir röltum aftur heim í Tún. Já, ýmislegt var brallað í Uppsölum.

Þegar við systkinin héldum upp á afmælin okkar buðum við systkinunum á Uppsölum alltaf og nefndum þau iðulega fyrst þegar við vorum spurð hverjum ætti að bjóða í afmælisveisluna.

Jóna var blíð og góð kona. Hún var mikill húmoristi og fann yfirleitt spaugilega hlið á hinum ýmsu málum.

Ég hlýja mér við dýrmætar minningar af Jónu á Uppsölum og er þakklátur fyrir að hafa átt hana sem vin og nágranna.

Blessuð sé minning Jónu Marín frá Uppsölum

Guðmundur Bjarnason frá Túni.