Miðpunktur Flestir viðburðirnir fara fram í miðbæ Reykjavíkur og vel tókst að þétta sýningarkjarnann.
Miðpunktur Flestir viðburðirnir fara fram í miðbæ Reykjavíkur og vel tókst að þétta sýningarkjarnann. — Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HönnunarMars fer fram sextánda árið í röð dagana 24.-28. apríl með fjöldamörgum viðburðum um höfuðborgarsvæðið. Hátíðin fer þó aðallega fram í miðbæ Reykjavíkur og hefst að venju á alþjóðlegu ráðstefnunni Design Talks í Hörpu sem að þessu sinni tekst á við öfgar og ójafnvægi

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

HönnunarMars fer fram sextánda árið í röð dagana 24.-28. apríl með fjöldamörgum viðburðum um höfuðborgarsvæðið. Hátíðin fer þó aðallega fram í miðbæ Reykjavíkur og hefst að venju á alþjóðlegu ráðstefnunni Design Talks í Hörpu sem að þessu sinni tekst á við öfgar og ójafnvægi. Þema hátíðarinnar þetta árið er sirkus. „Það var erfitt að finna þema fyrir 2024 vegna þess sem er að gerast í samfélaginu og heiminum í dag.

Við enduðum á sirkus, þar sem kaos er norm og jafnvægið er list. Við teljum að það sé mikilvægt að hátíðin dreifi gleði. Verkefni hönnuða snúast mikið um að leysa áskoranir, finna nýjar lausnir og mæta hlutunum með forvitni og hugrekki. Allt eru þetta hlutir sem má finna í sirkus lífsins,“ segir Álfrún Pálsdóttir kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar. Bætir hún því við að HönnunarMars taki á sig ólíkar myndir ár hvert, alltaf sé rauður þráður gegnumgangandi en sýningar þátttakenda og dagskráin endurspegli það sem beri hæst hjá hönnuðum og arkitektum.

Tilraunakennd sena

„Hátíðin hefur reynst gríðarlega mikilvægt verkfæri til að kynna íslenska hönnun innanlands og erlendis, bæði kynna og opna þennan heim fyrir almenningi og vekja athygli á íslenskri hönnun. En líka að hvetja fólk til að kaupa íslenska hönnun, sýna gróskuna og það sem er að gerast. Þessar sýningar og verkefnin veita svo mikinn innblástur og mörg þeirra snúast um að leysa áskoranir, endurnýta, endurvinna og endurhugsa gömul kerfi.“

Hátíðin er þarfur vettvangur fyrir hönnunarsamfélagið hér á landi og hvatning til að sýna sig, ná samtali og vera með hlutina tilbúna. Álfrún segir áhuga frá öðrum löndum einnig vera að stóraukast á milli ára.

„Við erum að staðsetja okkur á ákveðinn hátt með íslenska hönnunarsenu, hún er ung og það þarf ekki að vera neikvætt. Hún er minni og yngri en hönnunarsenur nágrannalanda okkar í Skandinavíu en að sama skapi er hún tilraunakenndari og ferskari með einhverjum hætti. Hér á landi er ekki mikil framleiðsla svo íslenskir hönnuðir eru vanir því að þurfa að leita leiða og lausna til að framleiða, sem mögulega verður umhverfisvænni en gengur og gerist,“ segir hún.

Hitta hönnuðina

„Það sem hefur vakið mikla athygli er að HönnunarMars er öllum opinn og er ein af fáum hönnunarhátíðum í heiminum sem sameina þetta breiða litróf. Það má sjá fatahönnun og arkitektúr á sömu hátíð sem þekkist ekki annars staðar, sömuleiðis finnst útlendingum gaman að koma hingað því hönnuðirnir eru alltaf á staðnum sem er mun persónulegra. Ég held að fólk kunni alltaf betur og betur að meta það.“

Dagskráin er fjölbreytt þetta árið með yfir hundrað sýningum og tvö hundruð viðburðum. Hún er haldin á sama tíma og Barnamenningarhátíð og má því finna marga fjölskylduviðburði. „Okkur hefur tekist að þétta sýningarkjarnann svo maður kemst upp með að sjá mikið með því að þræða aðeins miðbæinn. Hafnartorgið er mjög sterkt, þar má finna mikið af ungum hönnuðum og nemendasýningum. Það er alltaf gaman að fá þetta samspil á milli nemendasýninga og annarra hönnuða, þá sérðu breiddina. Ég myndi ekki láta það fram hjá mér fara,“ segir Álfrún.

Framtíðin og nútíminn

Líkt og fyrr segir hefst hátíðin með ráðstefnunni Design Talks og er það eini viðburður hennar sem selt er inn á. „Það eru auðvitað ákveðnir straumar og stefnur í gangi í þessum heimi. Fyrst og fremst er verið að finna viðmælendur til að koma til landsins og veita innblástur. Þetta eru leiðandi raddir innan þessarar senu. Það má horfa á það þannig að Design Talks fjalli um framtíðina og HönnunarMars um nútímann. Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi Design Talks, fléttar fyrirlesara dagsins saman sem heild, takt og sögu sem viðburðurinn er að segja frá upphafi til enda. Það er nokkuð sem enginn má missa af.“

Hátíðin verður sett á morgun í Hörpu að Design Talks loknu. Í kjölfarið flyst hátíðin á Hafnartorg, upp Laugaveg og Skólavörðustíg og í Ásmundarsal. „Ég hvet alla til að kynna sér dagskrána því þar er að finna eitthvað fyrir alla. Allir geta fundið gleðina,“ segir Álfrún að lokum.

Dagskrána má kynna sér nánar á vefnum honnunarmars.is