Guðrún Johnsen
Guðrún Johnsen
Aukningar hagvaxtar er að vænta í heimsbúskapnum á þessu og næsta ári. Gliðnun alþjóðaviðskipta gæti leitt af sér lægri hagvöxt til lengri tíma.

Guðrún Johnsen

Vorfundir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og Alþjóðabankans (AB) stóðu yfir í liðinni viku í Washington DC. Þessir fundir eru um margt einstakir. Þar koma saman stefnumótandi aðilar frá seðlabönkum og fjármálaráðuneytum 190 landa. Sendinefndir landanna halda mýmarga tvíhliða fundi til að ræða áskoranir í efnahagsstjórnun heima við og bera saman bækur sínar. Yfirstjórnir stofnananna samhæfa sýn sína á efnahagshorfur heimsins og hvaða þáttum stofnanirnar eiga að beina spjótum sínum að við að ráðleggja stefnumótandi aðilum í hverju landi. Viðfangsefnin eru í grunninn hins sömu alls staðar; hvernig beita megi opinberum fjármálum og stýritækjum seðlabanka til að tryggja verðstöðugleika, fjármálastöðugleika og sjálfbæran, jafnan hagvöxt.

Það er óhætt að segja að skuggi stríðsátaka hafi hvílt þungt á fundargestum í Washington þetta vorið. Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu stendur hrávörumörkuðum fyrir þrifum. Margir telja að endalok stríðsins í Úkraínu sé sá þáttur sem myndi muna hvað mest um til að ná böndum á þeirri verðbólgu sem enn er að valda tjóni. Átökin á Gasa, skærur milli Ísraels og Írans og svo stríð í Súdan hafa bætt gráu ofan á svart. Ákall um frið er hávært meðal fundargesta.

Kosningaár fer í hönd víða um lönd. Óvissan í kringum þing- og forsetakosningar í Bandaríkjunum hefur hvað víðtækust áhrif, ekki síst vegna þess hversu ólíkar stefnur forsetaframbjóðendurnir bjóða kjósendum upp á. Báðir forsetaframbjóðendur eru þó líklegir til að auka viðskiptahindranir, sér í lagi gagnvart Kínverjum. Verði þær að veruleika munu þær draga úr alþjóðaviðskiptum og þar með hagsæld. Kínverjar kunna að svara fyrir sig með undirboðum og ríkisstyrktri framleiðslu til að selja vörur sínar ódýrt í öðrum löndum, sem hjálpar e.t.v. verðbólgu að hjaðna til skamms tíma en getur leitt til erfiðra samkeppnisskilyrða fyrir innlenda framleiðslu og þar með hærra verðlags til millilangs tíma.

Gliðnun í alþjóðaviðskiptum almennt (e. geoeconomic fragmentation) er áhyggjuefni meðal hagfræðinga AGS. Margar þjóðir horfa til þess að færa vöruframleiðslu sína og alþjóðaviðskipti inn í umdæmi sem standa þeim nær (e. friendshoring) vegna þess hökts sem varð í vöruframleiðslu í heimsfaraldrinum sem skapaði framboðsskell sem aftur skilaði sér í hárri verðbólgu um stundarsakir. Slík stefnumótun er þó líkleg til að leiða af sér lægri hagvöxt, minni hagsæld, jafnvel þráláta verðbólgu, a.m.k. til millilangs tíma, þar sem byggja þarf upp nýja tækni í hverju landi og hlutfallslegir yfirburðir í framleiðslu og skalahagkvæmni verður ekki nýtt í sama mæli og áður.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika hefur hagvöxtur haldið velli á síðasta ári. Peningastefna víða um lönd hefur náð góðum árangri við að kæla verðbólgu, en hagfræðingar vonast til að lendingin verði mjúk í efnahagslegu tilliti eftir þenslu farsóttaráranna.

Grunnspá AGS sem birtist í vorriti Sjóðsins um efnahagshorfur[1] gerir ráð fyrir að hagkerfi heimsins alls haldi áfram að vaxa um 3,2 prósent á árunum 2024 og 2025, á sama hraða og árið 2023. Lítils háttar aukningu hagvaxtar er þó spáð í þróuðum hagkerfum – en gert er ráð fyrir að hagvöxtur aukist meðal þeirra úr 1,6 prósentum árið 2023 í 1,7 prósent árið 2024 og 1,8 prósent árið 2025. Hóflegs samdráttar má þó vænta í nýmarkaðsríkjum og þróunarhagkerfum úr 4,3 prósentum árið 2023 í 4,2 prósent bæði 2024 og 2025. Spáin um alþjóðlegan hagvöxt eftir fimm ár – 3,1 prósent – er enn í gildi, sem er sú lægsta í áratugi. Spáð er að alþjóðleg verðbólga lækki jafnt og þétt, úr 6,8 prósentum árið 2023 í 5,9 prósent árið 2024 og 4,5 prósent árið 2025. Gert er ráð fyrir að þróuð hagkerfi nái verðbólgumarkmiðum fyrr en nýmarkaðs- og þróunarhagkerfin. Almennt er spáð að kjarnaverðbólga dragist hægar saman.

Viðnámsþróttur heimshagkerfisins hefur reynst furðumikill þrátt fyrir verulegar vaxtahækkanir seðlabanka til að endurheimta verðstöðugleika. Síðasta einvígið í þeirri glímu getur hins vegar orðið bæði snúið og erfitt.

[1] AGS, World Economic Outlook, Vor 2024, kafli 1.

Höfundur er doktor í hagfræði og efnahagsráðgjafi yfirstjórnar danska seðlabankans.