Tónleikar Una Torfa hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu.
Tónleikar Una Torfa hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu. — Morgunblaðið/Eggert
„Frá áramótum höfum við lagt allt kapp á að setja saman öflugt teymi, koma okkur fyrir og búa til hlýlega og metnaðarfulla umgjörð fyrir starfsemi miðstöðvarinnar,“ segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar sem verður formlega opnuð í dag

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Frá áramótum höfum við lagt allt kapp á að setja saman öflugt teymi, koma okkur fyrir og búa til hlýlega og metnaðarfulla umgjörð fyrir starfsemi miðstöðvarinnar,“ segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar sem verður formlega opnuð í dag. Opið hús verður frá klukkan 16 í nýjum höfuðstöðvum við Austurstræti 5 þar sem Landsbankinn var áður til húsa.

Starfsemi og starfsfólk Tónverkamiðstöðvar og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar, Útón, færðist inn í nýja Tónlistarmiðstöð um síðustu áramót. Stofnaðilar Tónlistarmiðstöðvar eru STEF, Félag hljómplötuframleiðenda, Félag íslenskra hljómlistarmanna, Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Tónskáldafélag Íslands auk ríkisins. Öll félögin eiga fulltrúa í stjórninni en formaður hennar er Einar Bárðarson.

Í tilkynningu kemur fram að hlutverk Tónlistarmiðstöðvar sé m.a. að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er og falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon