Guðlaugur Jónasson
Guðlaugur Jónasson
Í rannsókn Hafrannsóknastofnunar í nóvember 2022 sluppu 56% af þorski undir trollið.

Guðlaugur Jónasson

Í svari Þorsteins Sigurðssonar forstjóra Hafrannsóknastofnunar við grein minni í Morgunblaðinu 16. apríl síðastliðinn gætir að mínu mati nokkurrar léttúðar og kæruleysis. Það sem vísindamenn hafa komist að sé ekkert sem dvelja eigi við.

„Það að eitthvað af fiskinum fari undir fótreipið og bobbingana er ekki stóra málið.“

Í rannsókn Hafrannsóknastofnunar í nóvember 2022 sluppu 56% af þorski undir trollið. Að forstjórinn skuli kalla 56% „eitthvað“ eins og það skipti ekki máli lýsir miklu ábyrgðarleysi hjá stofnuninni. Já og 86% af skötusel sluppu undir trollið í viðkomandi rannsókn.

Þegar byrjað var að nota svokallað togararall 1985 höfðu menn ekki hugmynd um hvað slyppi af fiski undir trollið. Nú liggja fyrir niðurstöður rannsókna um að hér sé um gríðarlegt magn að ræða. Ég fer ekki ofan af þeirri staðreynd að hér er komin skýringin á stórlegu vanmati á stofnstærð þorskstofnsins síðustu 40 árin. Það er hægt að nota svokallað togararall í að búa til vísitölu til samanburðar á milli ára en ekki til að mæla stærð fiskistofna.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar í handbók um stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum er lýst með nákvæmum hætti (fyrirhugaðri) framkvæmd togararallsins í mars 2024. Afar fróðlegt og til fyrirmyndar í upplýsingagjöf frá stofnuninni.

Í 1. kafla, „Saga verkefnisins“, er farið yfir sögu, markmið og mikilvægi þess. Þar segir m.a.: „Stofnmæling botnfiska hefur í dag mikið vægi í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir þorsk, ýsu, ufsa, gullkarfa, steinbít, hlýra, keilu, löngu, skötusel, hrognkelsi, tindaskötu og margar tegundir flatfiska.“

Í 2. kafla, „Undirbúningur leiðangurs“, er lögð áhersla á „að öll rannsóknatæki og verkfæri séu meðferðis og í lagi, stilla upp vinnuaðstöðu, tengja og prufukeyra vogir, tölvur og samskiptatæki“. Jafnframt að „athuga þarf vel hvort smáir fiskar geti á einhvern hátt tapast úr fiskmóttöku eða af færiböndum“. Að mínu mati er nákvæmnin í fyrirrúmi, en því miður engu skeytt um allt það mikla magn sem sleppur undir trollið og kemur aldrei til mælinga.

Þessa dagana fer þjóðfélagið á límingum yfir nokkurra milljarða kaupum ríkisins á tryggingafélagi. En helmingsminnkun í veiði þorskstofnsins vegna rangrar ráðgjafar Hafró síðustu 40 árin þykir varla fréttnæm. Það þarf að rannsaka ofan í kjölinn vinnubrögð Hafró við stofnstærðarmælingar og gera leiðréttingar svo að hægt sé að veiða miklu meira úr auðlindinni. Þá getum við hætt að reka ríkissjóð með halla, lækkað skatta og styrkt innviði eins og vegi, jarðgöng og heilbrigðiskerfi. Þetta er stórmál fyrir okkur alla Íslendinga.

Höfundur er sjómaður.