Skólastarf Nemendur úr Grindavík eru nú dreifðir víða um landið.
Skólastarf Nemendur úr Grindavík eru nú dreifðir víða um landið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Tíminn er í raun að renna út. Sveitarfélögin hafa sýnt mikla samstöðu og gera það áfram en staðan er mjög þröng,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Tíminn er í raun að renna út. Sveitarfélögin hafa sýnt mikla samstöðu og gera það áfram en staðan er mjög þröng,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á dögunum hafa bæjaryfirvöld í Vogum kallað eftir skýrum og tafarlausum svörum frá ráðherra sveitarstjórnarmála um það hvernig ríkissjóður hyggist styðja við sveitarfélagið og önnur í sambærilegri stöðu í kjölfar mikillar fólksfjölgunar sökum hamfaranna í Grindavík. Íbúum í Vogum hefur fjölgað um 33% á rúmu ári og komið er að þolmörkum í skólum. Á sama tíma fylgja útsvarstekjur ekki þessum nýju íbúum sem aðeins eru með skráð aðsetur í Vogum. Í síðustu viku var tilkynnt að rekstri safnskóla fyrir börn úr Grindavík yrði hætt og því mun enn frekar aukast álag á innviði þeirra sveitarfélaga þar sem Grindvíkingar eru nú búsettir.

Heiða Björg segir að mikilvægt sé að ríkisvaldið komi sterkt inn og taka þurfi af skarið. „Við hefðum viljað að það væri komin einhver lausn því við höfum ekki langan tíma til stefnu. Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga höfum boðið fram aðstoð. Ég held að þetta sé bara ákvörðun sem ríkisstjórnin þarf að taka.“

Í svari innviðaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að unnið sé að úrlausn mála hvað varðar skólasókn barna úr Grindavík í öðrum sveitarfélögum. „Nú stendur yfir heildstæð greining á kostnaðarauka þeirra sveitarfélaga sem tekið hafa við flestum börnum frá Grindavík. Ráðinn hefur verið sérfræðingur gagngert í þetta verkefni og mun hann veita Grindavíkurbæ og öðrum sveitarfélögum aðstoð við að meta kostnað við skólasókn barna úr Grindavík og bregðast þannig við kostnaðarauka annarra sveitarfélaga,“ segir í svarinu. „Búast má við niðurstöðum úr þeirri greiningu innan skamms,“ segir þar ennfremur.

Í svari ráðuneytisins segir að mjög hraður vöxtur í íbúafjölda sveitarfélaga geti tekið verulega á og reynt á getu sveitarfélaga til að sinna þjónustu við íbúa sína. Auk þess reyni slíkur vöxtur mikið á fjárhag þeirra þegar kröfur koma upp um fjárfestingar í innviðum hraðar en ráð var fyrir gert. „Metið verður hvernig styðja megi við sveitarfélög sem hafa tekið á sig auknar byrðar til að aðstoða brottflutta Grindvíkinga en hafa ekki enn fengið útsvarstekjur á móti. Það verður gert með heildstæðum hætti í samvinnu við eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga og Samband íslenskra sveitarfélaga,“ segir í svarinu.