Arnar Herbertsson fæddist á Siglufirði 11. maí 1933. Hann lést á Landspítala Fossvogi 4. apríl 2024.

Foreldrar Arnars voru Lovísa María Pálsdóttir húsmóðir og verkakona, f. 25. nóvember 1908, d. 9. júlí 1975, og Herbert Sigfússon málarameistari á Siglufirði, f. 18. maí 1907, d. 19. júní 1984. Bróðir Arnars samfeðra er Þór, f. 29. desember 1929, d. 7. desember 2020.

Eftirlifandi eiginkona Arnars er Kristjana G. Aðalsteinsdóttir lyfjatæknir, f. 2. maí 1933. Arnar og Kristjana voru jafnaldrar og ólust saman upp á Siglufirði, þau gengu í hjónaband árið 1954. Þau bjuggu á Siglufirði í upphafi hjúskapar síns en fluttu síðan til Reykjavíkur árið 1962 og bjuggu lengst af á Þjórsárgötu í litla Skerjafirði.

Börn þeirra eru: 1) Sigríður Lovísa, f. 25. desember 1954, maki Philippe Patay, börn þeirra eru: Gabriel, f. 1977. Börn Gabriels eru Jóakim, f. 2008, og Matthildur Mia, f. 2013. Matthildur, f. 1983, maki Andrés Úlfur Helguson, synir þeirra eru Grímúlfur Leon, f. 2012, og Filippus Flóki, f. 2013. Anna Lalla, f. 1984, maki Sigurður Oddsson, synir þeirra eru Marínó, f. 2014, og Leó, f. 2021. 2) Kristjana, f. 26. nóvember 1959, maki Bjarni Þór Sigurðsson, börn þeirra eru Lovísa María, f. 1980, maki Einar Snorri Einarsson, börn þeirra eru Ívar Uggi, f. 2008, Sunna María, f. 2011, og Vala, f. 2016. Ívar, f. 1984, maki Clara Lu. Melkorka Rut, f. 1989, maki Hafþór Gunnlaugsson, börn þeirra Arney María, f. 2018, og Bjarki Þór, f. 2021. Baldur Þór, f. 1992, maki Berglind Hönnudóttir, börn þeirra Cýrus Elí, f. 2017, Eldey Katrín, f. 2017, og Korka Hrafnhildur, f. 2022. Sigurður Stefán, f. 1995. 3) Herbert, f. 2. apríl 1968, börn Katrín Anna, f. 1995, maki Jökull Jóhannsson. Ísak Arnar, f. 2005.

Arnar stundaði nám við Myndlistaskólann í Reykjavík 1959-64. Hann sýndi fyrst á haustsýningum FÍM 1965 og 1966. Arnar var virkur í SÚM-hópnum og tók þátt í samsýningum hópsins bæði innanlands og utan. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal árið 1967, auk fjölda einka- og samsýninga. Verk eftir Arnar eru í eigu helstu safna á Íslandi og safna víða um heim. Heimur Arnars er Siglufjörður, þar sem hann ólst upp og þroskaðist meðal ljóss og skugga. Allt sem hann upplifði, sá og fann var í þessum lokaða einangraða firði með einn sjóndeildarhring opinn út á íshafið.

Útför Arnars hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Sá ágæti listfræðingur og vinur Arnars Herbertssonar Ólafur Gíslason skrifar m.a. svo um hann í listaverkabók um Arnar: „Þegar ég nú horfi yfir feril Arnars Herbertssonar í ljósi hálfrar aldar glímu hans við málverkið þá sé ég í þessu ferli endurtekna leit hans að upprunanum sem birtist okkur sem rökræn niðurstaða í nýjustu verkum hans sem eru eins og takturinn í afrískum trumbuslætti. Ekki taktur vélvæðingarinnar eins og við sjáum í málverki fútúristanna sem einhver kynni að vilja leita hliðstæðu við heldur taktur þess hjartsláttar sem á sér dýpri rætur en vélvæðingin, sá taktur verunnar í ölduróti lífsins sem við getum rakið aftur til hjartsláttarins í móðurkviði og örlagasögu völusteinsins á Djúpalónssandi.“

Í mínum augum var Arnar fyrst og fremst í leit að einfaldleikanum, þeim eiginleika í fari mannsins að gera flókna hluti einfalda og öllum skiljanlega. Þessi einlægi og hlédrægi maður sem sat í litlu kvistherbergi í Skerjafirði, mæddur af aldri en uppljómaður af ungri ástríðu og vinnusemi nýrrar sköpunar sem birtist á strigum hans.

Skrýtið sambland af gömlu og ungu, líkaminn hrumur en hugurinn ferskur og fullur af nýjum sígildum hugmyndum sem röðuðu sér á strigann sem beið þolinmóður á trönum fyrir framan hann.

Arnar sagði sjálfur: „Ég er að reyna að leiða fólk inn í þessa tímalausu veröld táknanna með aðstoð birtunnar. Birtan er það mikilvægasta í þessum myndum. Hún er sjálft tákn vonarinnar.“ Þetta segir hann um myndir sínar í lok tuttugustu aldar.

Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur, sem er aðalhöfundur í listaverkabók um Arnar, lýkur skrifum sínum um hann með þessum orðum: „Í kubbum Arnars og mörgum málverkum er greinilegur sjóndeildarhringur. Ofan við þennan sjóndeildarhring er alltaf birta sem virðist vera vaxandi eins og birta dögunar. Þessi birta er von framtíðarinnar um betri heim og betra líf. Hún er ljós í augum dagsins, útgönguleið út úr veröld tímans. Það er gjöf Arnars Herbertssonar.“

Nú er þessi ágæti snillingur dáinn og málar ekki fleiri listaverk fyrir jarðarbúa. Eftir stendur dágott lífsverk sem heldur nafni hans á lofti um ókomna tíð. Farinn er góður maður og mikill listamaður. Hann barði ekki bumbur né blés í lúðra til þess að halda á lofti hégómlegri frægð heldur lét verkin sín tala.

Ég minnist ætíð fyrstu orðaskipta minna við Arnar. Ég segi við hann: „Jæja, Arnar minn, hvað segir þú merkilegt í dag?“ Arnar svarar að bragði: „Ég hef aldrei sagt neitt merkilegt.“

Nú kveðjum við þennan hlédræga og hægláta snilling um leið og við samhryggjumst eiginkonu hans Kristjönu Aðalsteinsdóttur og afkomendum þeirra.

Knútur Bruun og Anna Sigríður Jóhannsdóttir.

Eftir þriggja ára starfsemi Safnasafnsins í Þinghúsinu á Svalbarðseyri var Arnari Herbertssyni boðið að halda sýningu þar árið 2001 á málverkum á mörkum raunveruleikans í ætt við súrrealisma og dada með snert af poplist. Vöktu þeir aðdáun gesta fyrir fíngerða nálgun, glæsta myndbyggingu og leiftrandi liti þar sem mest bar á rauðum og bláum tónum með silfruðu ívafi. Nokkur málverk seldust, safnið keypti einnig verk og listamaðurinn gaf þau sem eftir stóðu. Voru þau kynnt á samsýningu og í fyrstu sýnisbók safneignar 2016. Þótt málverk listamannsins hafi alþjóðlegt yfirbragð þá skírskota þau einnig til íslenskrar nálægðar, samanber mávana sem fljúga inn á völlinn eins og þeir eigi þar heima. Þegar rýnt er í vígindin er auðvelt að ánetjast því sem fyrir sjónir ber því smám saman verða augun innlyksa í fegurð fjarstæðunnar á mörkum hrífandi aðdráttarafls og örðugt að sætta sig við hversdagleikann á ný.

Í fyrra var ákveðið að láta þrykkja af hluta þeirra 47 málmplatna sem Arnar gaf safninu 2016 og síðan gerður samningur við hann um framkvæmdina. Arnar risti í plöturnar á tímabilinu 1963-1973 og voru þrykkin fyrst kynnt í Gallery SÚM og Norræna húsinu. Þær lýsa vel kunnáttu hans og nákvæmu handbragði og geta vel staðið sem sjálfstæð verk því þau eru reist á fagurfræðilegri myndskipan sem kemur vel fram á pússuðum fleti koparsins, frumgerðinni, spegilmynd þrykksins. Línuflæðið tengist formunum ósjálfrátt, útreiknað af frábærri skynjun og sköpunarkrafti og eru tilviljanir víðs fjarri. Plötuskurðurinn er dæmi um klassíska listsýn, menntun og djúpan skilning á flókinni tækni sem hefur átt erfitt uppdráttar undanfarna áratugi eða frá því grafíkin varð eftirlæti almennings upp úr 1975, samhliða conceptual art sem þá ríkti yfir sviðinu.

Safnasafnið vill heiðra Arnar Herbertsson fyrir vináttu, höfðingsskap og rausn, og að vera alla tíð sjálfum sér samkvæmur og veita öðrum nána hlutdeild í persónulegum hugarheimi sem dregur skoðendur inn í óravíddir ímyndunarafls sem líkja má við drauma og ævintýraþrá. Í verkum sannra listamanna leynist ýmislegt sem skoðendur sjá ekki nema því sé lýst í ferlinu og á rætur í umbrotum sálarlífsins, sársauka og viðkvæmni, þeim spurningum sem vakna um samslátt lífs og listar, að gefa allt frá sér til að ná árangri. Í verkum Arnars er engin undanþága frá kröfunni um vönduð vinnubrögð og trúnað við inntak verka, heillandi samspil hugarflugs og hreyfingar og er niðurstaðan afgerandi snjöll og fáséð.

Það er safninu mikilvægt að eiga svo mörg frábær listaverk eftir Arnar sem raun ber vitni og geta gefið gestum sínum kost á því að sjá þau og endurnýja kynnin í óvæntu samhengi þar sem kafað er ofan í hugmyndaheiminn til að öðlast betri skilning á víðfeðmi hans og fjölbreytilegri tjáningu.

Safnasafnið þakkar listamanninum, ekkju hans og börnum þeirra hjóna fyrir ánægjulegt samstarf og flytur þeim samúðarkveðjur á erfiðum tímamótum. Sjálfur þakka ég fyrir einlæg og góð kynni sem lifa í minni.

Níels Hafstein.

Arnar fór suður eins og margur. Tók sig upp með konu sinni, Kristjönu, og ungum börnum um það leyti sem ljóst var að á síldina væri ekki að stóla – og yfirgaf stað sinn. Eflaust hefur löngunin eftir ríkara listarlífi í borginni en í fásinninu nyrðra haft sitt að segja. Hann nam nokkuð við Myndlistaskólann í Reykjavík en var að öðru leyti sjálfmenntaður. Hann var einn úr SÚM-hópnum sem hóf að sýna verk í anda popplistar seint á sjöunda áratugnum. Arnar var að öðru leyti einfari í list sinni. Eftir grafík sína málaði hann nokkuð hálf-súrrealískar minningarmyndir frá síldarplönunum og verksmiðjum á æskuslóðum sínum heima á Siglufirði ásamt symbólskum altaristöflum í „þjóðlegum“ stíl. Í seinni tíð vakti Arnar athygli listunnenda fyrir litrík óhlutbundin (abstrakt) verk sín þar sem áhrifa bliklistar (optical-art) gætir mjög. Segja má að hann hafi um alllangt skeið verið í fremstu röð þeirra sem þraukað hafa með pensil í hönd. Og um list hans var gefin út prýðileg bók.

Öll árin fyrir sunnan, áratugina, leitaði hugur og tal þeirra hjóna norður – það fann maður skýrt í litla húsinu þeirra á Þórsgötunni. Minningarnar um hin björtu og annasömu sumur og heiðríkju vetrarríkisins stóðu Arnari og Kristjönu lifandi fyrir hugskotssjónum. Ást þeirra og eftirsjá til æskuslóðanna gátu þau tíðum sefað með endurnýjuðum ásetningi um að láta nú verða af því að snúa til baka. En Reykjavík var sennilega of góð til að af því mætti verða.

Frá Siglufirði eru sendar hjartanlegar kveðjur til Kristjönu, Siggu Lollu, Diddu og Hebba. Og Arnari er þakkað trygglyndið allt og örlæti í garð Síldarminjasafnsins.

Örlygur
Kristfinnsson.