Komið til hafnar Farþegaskipið MSC Poesia siglir fram hjá Engey á leið sinni í Sundahöfn á sunnudagskvöldið.
Komið til hafnar Farþegaskipið MSC Poesia siglir fram hjá Engey á leið sinni í Sundahöfn á sunnudagskvöldið. — Morunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Fyrsta „stóra“ skemmtiferðaskip sumarsins lagðist að Skarfabakka í Sundahöfn á sunnudagskvöldið. Búist er við heldur fleiri farþegum til Reykjavíkur en í fyrrasumar.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Fyrsta „stóra“ skemmtiferðaskip sumarsins lagðist að Skarfabakka í Sundahöfn á sunnudagskvöldið. Búist er við heldur fleiri farþegum til Reykjavíkur en í fyrrasumar.

Skipið heitir MSC Poesia, er 92.627 brúttótonn og tekur 2.550 farþega. Það kom fyrst til Akureyrar og síðan átti það að koma til hafnar á Ísafirði. En vegna hvassvirðis varð það frá að hverfa. Fyrsta risaskip sumarsins er væntanlegt í byrjun maí. Er það Norwegian Prima, sem er tæplega 145 þúsund brúttótonn.

Í sumar verður þrengra um þjónustu við skipin við Skarfabakka og Korngarð en í fyrra þar sem bygging farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna er þegar hafin. Sú framkvæmd mun samkvæmt áætlun taka um tvö ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum er gert ráð fyrir 308.584 farþegum með skemmtiferðaskipum í sumar, sem er örlítið hærri tala en 2023. Áætlanir gera ráð fyrir að skiptifarþegar verði 161.540 eða um 52% farþegafjölda en í fyrra voru skiptifarþegar 48% af heildarfarþegafjöldanum hingað.

Farþegarnir koma og fara með flugi og fara um borð í farþegaskipin í Reykjavík. Þetta eru leiðangursskip sem sigla umhverfis Ísland samkvæmt áætlun eða til nálægra landa.

Samkvæmt tölum frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála frá því í fyrra gista 60% farþega að meðaltali 2,15 nætur í landi og nýta sér afþreyingu og aðra þjónustu á þeim tíma.

Reist hefur verið bráðabirgðahús á Skarfabakka þar sem farþegarnir verða „tékkaðir“ um borð í skipin.

Móta stefnu um þolmörk

Vinna er nú hafin á vegum Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna er varðar mótun stefnu um þolmörk og móttöku skemmtiferðaskipa í Reykjavík, að því er fram kemur á vef borgarinnar. Framkvæmdaraðili verkefnisins er Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins.

Markmið verkefnisins er að skapa sameiginlega sýn hagaðila sem mun nýtast sem grunnur við frekari skilgreiningu aðgerða við álagsstýringu sem hefur áhrif á samfélag, náttúru, efnahag og nærumhverfi, segir í kynningu á verkefninu. Skipaður hefur verið stýrihópur sem mun hafa umsjón með framkvæmd verkefnisins.

Í stýrihópnum sitja: Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (form. borgarfulltrúi), Hildur Björnsdóttir (borgarfulltrúi), Gunnar Tryggvason (hafnarstjóri), Svanhildur Konráðsdóttir (menning), Kristófer Oliversson (ferðaþjónusta), Björn Ragnarsson (ferðaþjónusta), Pétur Rúnar Heimisson (verslun og þjónusta), Lilja Sigrún Jónsdóttir (íbúasamtök Laugardals) og Sigrún Tryggvadóttir (íbúasamtök miðborgarinnar, varam.).

Faxaflóahafnir upplýsa að í sumar verði sú breyting frá fyrra ári að tekist hafi að „fletja kúrfuna“ í stærstu skipakomunum nokkuð út. Þannig er aðeins einn dagur þar sem heildarfarþegafjöldi fer yfir 9.000 en aðrir stórir dagar eru á bilinu sex til sjö þúsund farþegar.

Í fyrra voru nokkrir dagar hjá Faxaflóahöfnum með fjölda skipa og tíu til ellefu þúsund farþega. Það hafi því tekist vel að draga úr álagi en það er jafnframt tekið fram að allir þessir dagar gengu hnökralaust fyrir sig í fyrra.