Kiðjaberg Sá látni og sakborningarnir voru að byggja nýjan bústað á svæðinu. Þeir gistu saman í bústað á næstu lóð meðan á vinnunni stóð.
Kiðjaberg Sá látni og sakborningarnir voru að byggja nýjan bústað á svæðinu. Þeir gistu saman í bústað á næstu lóð meðan á vinnunni stóð. — Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvö mál sem varða hugsanleg manndráp eru nú til rannsóknar hjá tveimur lögregluembættum á landinu. Lögreglan á Suðurlandi rannsakar mögulegt manndráp í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu og lögreglan á Norðurlandi eystra hefur til rannsóknar andlát…

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Tvö mál sem varða hugsanleg manndráp eru nú til rannsóknar hjá tveimur lögregluembættum á landinu. Lögreglan á Suðurlandi rannsakar mögulegt manndráp í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu og lögreglan á Norðurlandi eystra hefur til rannsóknar andlát konu sem grunur leikur á um að hafi borið að með saknæmum hætti.

Grunur um morð í sumarbústað

Skömmu fyrir klukkan 14 á laugardag barst lögreglunni á Suðurlandi tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu viðbragðsaðila. Maðurinn, sem var á fertugsaldri, var búsettur hér á landi en kom frá Litáen.

Að sögn lögreglu leiddu áverkar á manninum til grunsemda um að andlát hans hefði borið að með saknæmum hætti.

Fjórir menn voru upprunalega úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Lögregla ákvað í gær að aflétta gæsluvarðhaldi yfir tveimur þeirra en gæsluvarðhald hinna tveggja stendur að óbreyttu til 30. apríl.

Þeir eru allir frá Litáen og voru að byggja bústað í Kiðjabergi ásamt þeim látna. Við hlið lóðarinnar var leigður bústaður undir starfsfólk og fannst maðurinn þar látinn.

Eitt af því sem er til rannsóknar er hvort ölvun hafi átt hlut að máli en vettvangsrannsókn er ekki lokið að sögn lögreglu. Ekki er ljóst hvort játning liggur fyrir í málinu eða ekki.

Kona fannst látin á Akureyri

Aðfaranótt mánudags var lögreglan á Norðurlandi eystra kölluð út að fjölbýlishúsi á Akureyri. Lögreglumönnum var við komuna vísað á meðvitundarlausa konu og hófust endurlífgunartilraunir um leið. Þær báru ekki árangur og konan var úrskurðuð látin á vettvangi.

Í íbúðinni var karlmaður sem var handtekinn í þágu rannsóknar málsins. Hann hefur verið úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í tengslum við málið. Talið er að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en lögreglan hefur ekki viljað tjá sig frekar. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar nú við rannsóknina.