Ánægð Guðný (í miðjunni) ásamt Valgerði og Stellu Soffíu hjá RLA.
Ánægð Guðný (í miðjunni) ásamt Valgerði og Stellu Soffíu hjá RLA.
Reykjavík Literary Agency (RLA) tekur í dag formlega við umsýslu verka Halldórs Laxness á erlendri grundu, en hún hefur í hartnær hálfa öld verið í höndum dönsku umboðsskrifstofunnar Licht & Licht, síðar Licht & Burr, í Kaupmannahöfn

Reykjavík Literary Agency (RLA) tekur í dag formlega við umsýslu verka Halldórs Laxness á erlendri grundu, en hún hefur í hartnær hálfa öld verið í höndum dönsku umboðsskrifstofunnar Licht & Licht, síðar Licht & Burr, í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RLA, en svo skemmtilega vill til að í dag er þess einmitt minnst að 122 ár eru liðin frá fæðingu Nóbelsskáldsins.

„Mikill áhugi er á verkum Halldórs Laxness víða um heim. Hlutverk RLA verður að sjá til þess að þannig verði það áfram og að nafni skáldsins verði haldið á lofti erlendis,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur fram að dætur skáldsins, Guðný og Sigríður, fagni tímamótunum „og segja þau í beinu framhaldi af því að „fá handritin heim“. Valgerður Benediktsdóttir og Stella Soffía Jóhannesdóttir hjá RLA eru spenntar að taka við keflinu af Licht & Burr. Þær segja það mikinn heiður að fá tækifæri til að halda nafni þessa stórkostlega höfundar á lofti um jarðarkringluna þvera og endilanga. Reyndar má til gamans rifja upp að nafn skáldsins er þekkt út fyrir endimörk jarðar en fyrir liðlega áratug samþykkti örnefndanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga að nefna gíg á Merkúríusi Laxness.“ Samkvæmt upplýsingum frá RLA var á dögunum endurnýjaður samningur um útgáfu Sölku Völku í Bandaríkjunum „en ný ensk þýðing Philip Roughton á verkinu vakti gríðarlega athygli þegar bókin kom út fyrir tveimur árum. Verkið þótti tala beint inn í samtímann, ekki síst inn í vitundarvakningu um stöðu kvenna og metoo-byltinguna.“

Útgáfur á Sölku Völku eru væntanlegar fljótlega á ítölsku og á dönsku í þýðingum, en Sjálfstætt fólk kom nýverið út í nýrri danskri þýðingu. „Gagnrýnendur hafa skipað verkum Halldórs Laxness á heiðursbekk og er Sjálfstætt fólk jafnan á lista yfir „bestu bækur 20. aldarinnar“.“