Fundur F.v. eru Sigurður Þórðarson, Hilmar G. Þorsteinsson, Gunnar B. Ragnarsson og Evgenía Mikaelsdóttir.
Fundur F.v. eru Sigurður Þórðarson, Hilmar G. Þorsteinsson, Gunnar B. Ragnarsson og Evgenía Mikaelsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég skynja mikinn áhuga á félaginu,“ segir Evgenía Mikaelsdóttir, einn skipuleggjenda opins fundar um málefni MÍR, Menningartengsla Íslands og Rússlands, sem haldinn var fyrir helgi. Yfir 100 manns mættu á fundinn sem haldinn var í…

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Ég skynja mikinn áhuga á félaginu,“ segir Evgenía Mikaelsdóttir, einn skipuleggjenda opins fundar um málefni MÍR, Menningartengsla Íslands og Rússlands, sem haldinn var fyrir helgi. Yfir 100 manns mættu á fundinn sem haldinn var í kjölfar harðvítugra deilna um framtíð félagsins og dómsmáls um lögmæti aðalfundar þess. Langflestir mættu á staðfundinn, en einnig var boðið upp á streymi á Zoom.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu höfðuðu þrír félagsmenn í MÍR mál gegn samtökunum og ógilti Héraðsdómur Reykjavíkur nýverið þrjár ákvarðanir sem teknar voru á aðalfundi MÍR sumarið 2022. Kjör stjórnar félagsins var ógilt og jafnframt sú ákvörðun að selja húsnæði félagsins á Hverfisgötu 105 í Reykjavík og láta andvirði sölu fasteignarinnar mynda stofnfé Menningarsjóðs MÍR.

70 manns vilja ganga í félagið

Evgenía segir að fyrrverandi stjórnendur MÍR virðist engu ætla að breyta þrátt fyrir dóminn. Pattstaða sé í málum félagsins og fyrrverandi stjórn stefni að því að halda aðalfund og undirbúa sölu fasteignar. „Það er ennþá sama óbilgirnin þar en við trúum því að ísinn fari að brotna,“ segir hún.

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað er á fyrrverandi stjórn MÍR að hlíta áðurnefndum dómi þar sem kjör hennar hafi verið lýst ógilt. Staðhæft er að stjórnin hafi ekki starfað í samræmi við stefnu og markmið félagsins og rofið menningartengsl frekar en að styrkja þau.

„Fundurinn ályktar að þessir aðilar njóti ekki lengur trausts og verði tafarlaust að stíga til hliðar og afhenda húsnæðið, skjöl og reikninga félagsins svo hægt sé að byggja það upp á ný,“ segir í ályktuninni. Evgenía kveðst vera komin með lista yfir rúmlega 70 einstaklinga sem vilja nú ganga í félagið. Greinilegt sé að margir kæri sig um framtíð félagsins, varðveislu menningar- og fræðslumiðstöðvar, skóla og bókasafns fyrir Íslendinga og innflytjendur, fullorðna og börn. Hún segir að auk þess hafi Úkraínumenn sem nú eru búsettir hér á landi sýnt félaginu áhuga. Nokkrir þeirra hafi komið á fundinn.

„Þeir vilja læra á íslenska samfélagið og hitta Rússa, Úkraínumenn og aðra rússneskumælandi og fá góð ráð um samfélagið og aðlögun að því. Það er ekkert jafn gott og að vera með vettvang þar sem innfæddir og útlendingar geta skipst á upplýsingum, kynnt sig og kynnst öðrum. Það auðveldar aðlögun.“