Arnheiður Ingólfsdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist í Fornhaga í Hörgárdal 16. apríl 1942. Hún lést í Frakklandi 10. apríl 2024.

Foreldrar Arnheiðar voru hjónin Ingólfur Guðmundsson, kennari og bóndi, f. 19. desember 1908, d. 1. febrúar 1983, og Herdís Pálsdóttir garðyrkjufræðingur, f. 9. ágúst 1914, d. 17. febrúar 2009. Systkini Arnheiðar eru: Brynhildur, f. 1940, Gunnfríður, f. 1944, d. 2019, Guðmundur, f. 1946, og Sesselja, f. 1949.

Arnheiður giftist 22. júní 1968 Gísla Kristni Sigurkarlssyni lögfræðingi, f. 24. janúar 1942, d. 2. apríl 2013. Foreldrar hans voru hjónin Sigurkarl Stefánsson stærðfræðingur, f. 2. apríl 1902, d. 30. september 1995, og Sigríður Guðjónsdóttir húsmóðir, f. 25. nóvember 1903, d. 20. október 1984.

Börn Arnheiðar og Gísla eru: 1) Ingólfur, doktor í stærðfræðimenntun og aðjúnkt við Háskóla Íslands, f. 5. mars 1974. Giftur Guðrúnu Sif Friðriksdóttur, doktor í mannfræði, f. 22. júní 1979. Þeirra dóttir er Vaka, f. 9. ágúst 2019. Sonur Ingólfs og Elvu Bjarkar Sverrisdóttur er Flóki, f. 19. nóvember 2001. 2) Kristín forvörður, f. 20. september 1976, gift Roland Hamilton myndlistarmanni, f. 29. desember 1970. Þeirra dóttir er Soffía Arna, f. 8. nóvember 2015.

Arnheiður ólst upp hjá foreldrum og systkinum í Fornhaga í Hörgárdal. Hún lauk námi í hjúkrun frá Hjúkrunarskóla Íslands 1965 og framhaldsnámi í heilsuverndarhjúkrun frá Helsesøsterskolen í Osló 1983. Hún starfaði við hjúkrun á Landspítalanum, Borgarspítalanum, sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, í Danmörku og Noregi, og sem hjúkrunarforstjóri við sjúkrahúsið í Keflavík. Síðast og lengst var hún hjúkrunarforstjóri við hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík frá 1988 og þar til hún lauk störfum. Arnheiður var virk í félagsstörfum og tók meðal annars mikinn þátt í starfi Soroptimistaklúbbs Bakka og Selja frá 1988 og var formaður 2006-2008.

Arnheiður verður jarðsunginn frá Neskirkju í dag, 23. apríl 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Undanfarna daga höfum við yljað okkur við minningar um Addí. Upp í hugann koma minningar úr mörgum ferðum um Ísland. Við fórum með þeim Gísla í gönguferð um Víknaslóðir. Austfjarðaþokan var svo þétt að við sáum ekkert frá okkur. Þá beindi Addí athyglinni að gróðri jarðar og þar var ekki komið að tómum kofunum. Hún þekkti hverja plöntu og talaði um þær af slíkri ástríðu að okkur fannst við eiginlega bara heppin að hafa lent í þokunni. Það sama má segja um berjaferðina á Barðaströnd berjaleysisárið mikla. Við nutum þess að skríða um móinn þótt við fyndum engin ber, undir leiðsögn Addíar var nóg að sjá þar. Og við höfum oftar hlegið að berjaleysisferðinni en við hefðum hlegið að berjaferð.

Hún missti mikið þegar hún missti Gísla allt of snemma. En hún kvartaði ekki og hún gafst ekki upp. Hún hélt ró sinni og lagaði líf sitt að nýjum aðstæðum.

Addí kveið svolítið fyrir því að ferðast ein heim úr páskafríinu með fjölskyldunni. Sjónin var ekki alveg nógu góð og það óx henni í augum að þurfa að millilenda á leiðinni og skipta um flugvél. Það fór svo að hún þurfti þess ekki því hún lést í lok frísins, eftir dásamlega daga með börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum í Suður-Frakklandi.

Við erum þakklát fyrir áratuga vináttu Addíar. Við sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Eggert og

Ragnhildur.

Kær skólasystir, hún Addý, er fallin frá.

Það fækkar í hópnum sem útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands í október 1965 en fjórar eru þegar farnar.

Það er ný og sár reynsla þegar aldurinn færist yfir að horfa á eftir ástvinum, vinum og samferðafólki yfir móðuna miklu.

Nú byrjar maður gjarnan daginn á að skoða dánarfregnir í blaðinu og oftar en ekki er einhver þar á meðal úr fyrrgreindum hópi.

Hún amma mín Lilja Björnsdóttir sagði mér fyrir margt löngu að nákvæmlega þetta fyndist henni erfiðast við að eldast, að sjá á eftir samferðafólkinu.

Hún Addý okkar var einstaklega trygglynd og traust.

Ef til stóð að hittast í hópnum hvort heldur í göngutúr eða kaffi var hún gjarnan fyrst til að tilkynna mætingu.

Alltaf stutt í fallega brosið og ávallt glöð að hitta okkur.

Við Guðný vorum svo lánsamar í fyrrasumar að verða samferða Addý heim eftir að hópurinn hafði fengið heimboð til listakonunnar okkar í hópnum, hennar Þóru á Selfossi. Þar nutum gestrisni hennar og áttum saman ánægjulega gæðastund eins og svo oft áður.

Á heimleiðinni bauð Addý okkur að koma við í sumarbústað fjölskyldunnar í Hveragerði. Úr varð sannkölluð yndisstund. Sumarbústaðurinn hvíldi í fallegum trjálundi umkringdur blómstrandi blómabreiðu. Við röltum um svæðið undir dyggri leiðsögn. Addý kunni nöfnin á öllum blómum og trjám.

Í ljós kom að fjölskyldan hafði ræktað og gróðursett á lóðinni til margra ára.

Addý var farsæll hjúkrunarfræðingur. Hún valdist ung til stjórnunarstarfa innan stéttarinnar, enda bæði dugleg og ábyrgðarfull. Mjög skömmu eftir útskrift var hún orðin deildarstjóri á Landspítalanum, þaðan lá leiðin á Sjúkrahús Keflavíkur svo eitthvað sé nefnt. Starfsferlinum lauk hún sem hjúkrunarforstjóri á Skjóli í Reykjavik.

Við kveðjum elskulega skólasystur og þökkum samfylgdina.

Hennar verður sárt saknað.

Ástvinum hennar og fjölskyldu sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Lilja U. Óskarsdóttir.

Kær Soroptimistasystir og vinkona til margra ára hefur kvatt okkur. Huggun harmi gegn er að hún var umvafin fjölskyldu sinni þegar hún lauk skyndilega lífsgöngu sinni jafn hljóðlega eins og hún gekk um alla tíð. Hún var sannur Soroptimisti, trygglynd og alltaf reiðubúin að taka þátt í störfum klúbbsins. Saman fórum við í ótal ferðalög innanlands og erlendis. Alltaf vissum við hvar Arnheiði var að finna. Hún var með okkur í öllu. Minnisstæðar eru haustferðirnar í Munaðarnes sem voru okkur einstaklega dýrmætar. Þar nutum við samveru, oftast 10-12 saman í húsi, höfðum gaman af að leggja fram eitthvað gott á morgunverðarborðið, dekra við okkur með hjálp snyrtifræðings og hársnyrtis, því þar sem Soroptimistaklúbbar eru starfsgreinatengdir vorum við að sjálfsögðu með systur úr öllum starfsgreinum. Í þeim samverustundum var einnig mikill andlegur fróðleikur borinn fram ásamt einstökum kærleika og samverugleði.

Síðustu 14 ár höfum við systur farið í vikulegar gönguferðir þar sem spjallað er um bækur, leikhús og lífið almennt. Arnheiður las mikið og gaman var að ræða við hana um bækur og fá hugmyndir um hvað áhugaverðast væri að lesa næst. Í gönguferðunum fræddi hún okkur um nöfn blóma og trjáa. Þar var hún á heimavelli.

Arnheiður og Gísli eiginmaður hennar áttu yndislegan sumarbústað í Reykjadal við Hveragerði, þar sem þau undu sér vel við að rækta garðinn sinn.

Afar góðar minningar eigum við um ferð til Álandseyja þar sem þau hjón voru með okkur Soroptimistum, Gísli óspar að kasta fram vísum og öðrum fróðleik. Síðustu utanlandsferðir okkar systra voru á Evrópusambandsþing í Flórens 2017 og heimsþing í Dublin síðasta sumar.

Svo viðkvæmt er lífið sem
vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann
allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Fr. St. frá Grímsst.)

Börnum Arnheiðar, Ingólfi og Kristínu, og fjölskyldum þeirra vottum við innilega samúð.

Fyrir hönd systra í Bakka- og Seljaklúbbi,

Guðrún Erla Björgvinsdóttir, Ingibjörg Jónasdóttir formaður.

Elsku Addý hefur kvatt þessa jarðvist og hennar verður sárt saknað. Eftir sitja fallegar minningar um konu sem var einstök og auðgaði líf svo margra sem fengu að vera henni samferða. Ég var ein af þeim heppnu sem fengu að kynnast Addý þegar ég og Stína dóttir hennar og Gísla kynntumst og urðum bestu vinkonur 11 ára gamlar. Ung að aldri man ég eftir að hafa hugsað hvað mér fannst Addý vera dásamleg kona og mamma; svo yfirveguð, hjartahlý og góð. Hún hafði einstaklega notalega nærveru og var bæði léttlynd og traust. Hún hélt fallegt heimili og hélt vel utan um fólkið sitt. Addý var fyrirmynd í mörgu, bæði sem manneskja og móðir og hafði jákvæð áhrif á mín gildi og viðhorf til lífsins.

Addý og Gísli sköpuðu sér og börnum sínum yndislegt heimili í hjarta Seljahverfisins og þar var alltaf gott að vera. Andrúmsloftið var þrungið einstakri ró, kyrrð og öryggi sem gerði manni svo gott á unglingsárunum. Það var líka mikill menningarbragur á heimilinu og miklum tíma eytt í samveru og umræður um áhugaverð málefni. Ég man hvað mér fannst það heillandi. Minningar um fallegt píanóspil, fræðandi skoðanaskipti um skák og skákleiki og vangaveltur um lausnir á flóknum stærðfræðijöfnum koma upp í hugann. Það var alltaf eitthvað nýtt sem maður lærði og tók með sér út í lífið.

Addý og Gísli voru einstaklega góðar manneskjur sem vildu öllum vel og sýndu það í verki. Þau reyndust mér vel og voru til staðar fyrir mig ef á reyndi. Þau gáfu mér hlutdeild í heimilislífinu og létu mig finna að ég væri alltaf velkomin. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Eftir erfitt fráfall Gísla fyrir rúmlega tíu árum var aðdáunarvert að fylgjast með Addý takast á við nýjan kafla í lífinu. Þrátt fyrir sársaukafullan missi var hún staðráðin í að halda áfram að lifa og tók virkan þátt í lífi barna sinna og barnabarna. Hún var einstaklega natin og góð amma eins og hún var mamma. Elsku Stína og Ingó og fjölskyldur, við Davíð og börn sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum góðan Guð um að hugga ykkur og styrkja.

Sara Hlín
Hálfdanardóttir.