Ingólfur Ómar gaukaði þessari vísu að mér á föstudag: Ef vinsemd þín er virt og dáð vil ég á það minna. Að þú hefur samúð sáð í sálarakur hinna. Pétur Stefánsson skrifar mér: Nú þegar vorið er að fæðast er ekki úr vegi að gauka til þín einni vísu…

Ingólfur Ómar gaukaði þessari vísu að mér á föstudag:

Ef vinsemd þín er virt og dáð

vil ég á það minna.

Að þú hefur samúð sáð

í sálarakur hinna.

Pétur Stefánsson skrifar mér: Nú þegar vorið er að fæðast er ekki úr vegi að gauka til þín einni vísu þar að lútandi:

Birtan eykst og baðar skjá,

bjartar vonir glæðast.

Ljúft finnst mér að líta á

langþráð vorið fæðast.

Philip Vogler Egilsstöðum skrifaði mér á föstudag: Í fyrrinótt var ég andvaka og efri vísuhelmingurinn að neðan kom mér nánast fullmótaður í hug. Í gær bar ég nokkrar gerðir síðari helmingsins undir konu hér fyrir austan sem er aðeins yngri en ég en ólst upp við sterka málræktar- og ljóðahefð. Fyrst og fremst er hún til í að segja heiðarlega álit sitt á uppkasti mínu þótt ég spyrji hana sjaldan.

Fæðingin var flókin en að lokum hreifst hún af eftirfarandi gerð. Á Boðnarmiði og máttlitlu eigin fésbókarsíðunni minni finnst mér stundum að vísur hverfi einfaldlega út í bláinn eftir nokkra klukkutíma.

Allavega þykir mér vænt um eftirfarandi stöku sem eingöngu við tvö á Héraði höfum fyrr séð. Ef þér sýnist mátt þú birta hana í Vísnahorni og þá verður hún eins og glæný.

Því miður oft í minni poka

maður þarf að láta.

Ævi- til ef lítur –loka

léttir ei að gráta.

Einn sunnudagsmorgun segist Dagbjartur Dagbjartsson hafa séð áletrun á bekk í strætisvagnaskýli líkt og þarna hafi setið stúlka – skulum ætla það – kvöldið áður og skrifað með penna við hlið sér á bekkinn:

Það er margt líkt með strákum

og strætisvagni;

maður hleypur ekki á eftir þeim

sem maður hefur misst af

- heldur bíður –

því að það kemur alltaf annar

og þeir eru hver öðrum líkir

- ekki satt?

Jökull Jónsson svaraði:

Flóra manns er merkileg

og margur ansi tregur

en viti menn! því Jökull (ég)

Jóns er venjulegur.