Heilsugæslan Bólusett hefur verið frá því smitið fannst á Þórshöfn.
Heilsugæslan Bólusett hefur verið frá því smitið fannst á Þórshöfn. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
„Það var verið að bólusetja börn alla helgina á Þórshöfn,“ segir Örn Ragnarsson, umdæmislæknir sóttvarna á Norðurlandi. Eins og greint hefur verið frá greindist fullorðinn einstaklingur með mislinga í bænum í síðustu viku og er viðkomandi í sóttkví næstu þrjár vikurnar

„Það var verið að bólusetja börn alla helgina á Þórshöfn,“ segir Örn Ragnarsson, umdæmislæknir sóttvarna á Norðurlandi. Eins og greint hefur verið frá greindist fullorðinn einstaklingur með mislinga í bænum í síðustu viku og er viðkomandi í sóttkví næstu þrjár vikurnar.

„Stór hluti eldra fólks hefur fengið mislinga og bólusetning hefur verið góð almennt, en það var verið að bólusetja börn um helgina sem ekki hafa verið bólusett,“ segir Örn en áherslan var á að bólusetja börn yngri en 18 mánaða. Einnig var flýtt bólusetningu á tólf ára börnum sem ekki voru búin að fá seinni bólusetninguna gegn mislingum.

Örn segir sjúklinginn sem er í einangrun á batavegi. Nokkur tilfelli mislinga komu upp á höfuðborgarsvæðinu í febrúar og þá var smitið rakið til erlends ferðamanns. Örn telur að smitið núna megi líka rekja til íslenskra eða erlendra ferðalanga, en mikill mislingafaraldur hefur verið víða erlendis. Hann segir mikilvægt að koma strax í veg fyrir meiri smit með því að bregðast fljótt við. Þá sé líka mikilvægt að slaka ekki á bólusetningum barna. Mislingar eru bráðsmitandi sjúkdómur og helstu einkenni eru hiti, kvef, augn­roði og út­brot á húð. doraosk@mbl.is