Hlutabréf líftæknifyrirtækisins Oculis verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Oculis verður þannig tvískráð, en félagið var skráð í Nasdaq-kauphöllina í New York í fyrra. Nýlega var greint frá því að Oculis hefði sótt sér um átta milljarða…

Hlutabréf líftæknifyrirtækisins Oculis verða tekin til viðskipta í Kauphöllinni í dag. Oculis verður þannig tvískráð, en félagið var skráð í Nasdaq-kauphöllina í New York í fyrra.

Nýlega var greint frá því að Oculis hefði sótt sér um átta milljarða króna (um 59 milljónir bandaríkjadala) í hlutafjáraukningu frá fagfjárfestum hér á landi og núverandi hluthöfum.

Oculis var upphaflega stofnað á Íslandi af dr. Einari Stefánssyni, prófessor í augnlækningum, og dr. Þorsteini Loftssyni, prófessor í lyfjafræði, og byggist lyfjaþróun fyrirtækisins á áralöngum rannsóknum íslenskra vísindamanna við Háskóla Íslands og Landspítala. Höfuðstöðvar félagsins eru í dag staðsettar í Sviss, en rannsóknar- og þróunarstarf félagsins fer fram á Íslandi. Félagið birti nýlega jákvæðar niðurstöður úr tveimur klínískum rannsóknum á OCS-01, augndropum sem byggjast á Optirech-tækni félagsins, en droparnir bæta sjón sykursýkisjúklinga með sjónhimnubjúg, sem meðhöndlaður er með sprautuástungu á auga.