Spectrum Ingveldur Ýr Jónsdóttir stofnaði kórinn fyrir 20 árum og hefur stjórnað honum frá upphafi.
Spectrum Ingveldur Ýr Jónsdóttir stofnaði kórinn fyrir 20 árum og hefur stjórnað honum frá upphafi. — Ljósmynd/Sayeh Hanifpour
Einkunnarorð Spectrum, gleði, gæði og galdur, verða í hávegum höfð á vortónleikum kórsins í Hörpu annað kvöld, síðasta vetrardag. Kórinn hélt upp á 20 ára afmælisárið í fyrra með tvennum tónleikum í Salnum í Kópavogi og tekur sviðsetninguna lengra…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Einkunnarorð Spectrum, gleði, gæði og galdur, verða í hávegum höfð á vortónleikum kórsins í Hörpu annað kvöld, síðasta vetrardag. Kórinn hélt upp á 20 ára afmælisárið í fyrra með tvennum tónleikum í Salnum í Kópavogi og tekur sviðsetninguna lengra að þessu sinni, að sögn Ingveldar Ýrar Jónsdóttur, stofnanda kórsins og stjórnanda frá upphafi.

Spectrum er 25 manna blandaður kór, sem leggur áherslu á samtímatónlist og vandaðar útsetningar dægur- og þjóðlaga. Á tónleikunum frumflytur hann meðal annars tvö verk eftir Helgu Margréti Marzellíusardóttur tónskáld. Hörpu-, selló- og píanóleikari spila með kórnum, en meirihluti laganna er án undirleiks. „Ég legg mikið upp úr svokallaðri konserthönnun,“ segir Ingveldur Ýr. Í stað þess að kórfélagar standi og syngi og hljóðfæraleikarar sitji og spili sé hópurinn hreyfanlegur og noti rýmið í salnum til hins ýtrasta, sé á ferð og flugi án þess að það komi niður á tónlistinni. „Við erum laus og frjáls til að breyta til, fara upp á svalir og fleira. Þetta er í raun sviðsett tónlist.“

Ingveldur Ýr byrjaði að læra söng 15 ára. „Ég var hætt í ballett og vissi ekki hvað ég átti að gera við tímann. Ég datt inn í söngtíma hjá Guðmundu Elíasdóttur, sem var mjög hrífandi persónuleiki, og hún benti mér strax á að halda áfram.“ Ingveldur Ýr tók hana á orðinu og eftir að hafa lokið mastersnámi í söng í Bandaríkjunum tóku við fjölbreytt söngverkefni heima og erlendis. Síðan varð kennslan yfirsterkari.

Miklar kröfur

Sem söngkennari hefur Ingveldur Ýr fengið nemendur til sín á ýmsum stigum. Hún segir að sumir hafi ekki endilega hugsað sér að ljúka einsöngvaraprófi og gera söng að aðalstarfi, þótt þeir væru góðir söngvarar. „Ég ákvað að stofna kórinn til að bjóða þessum nemendum upp á eitthvað meira svo þeir gætu haldið áfram að syngja án þess að vera í fullu söngnámi.“

Nemendur Ingveldar Ýrar og annarra eru í kórnum. Hún segir að kröfurnar hafi aukist og fólk þurfi að hafa einhvern bakgrunn til þess að fá inngöngu. Það þurfi að geta sungið utanbókar og vera með örugga sviðsframkomu. Sumir spili einnig á hljóðfæri, sem komi sér stundum vel á tónleikum, og margir syngi einsöng. „Í raun geta allir í kórnum sungið einsöng. Þetta er hópur sem hefur þjálfast í því að standa og vera mjög sjálfstæður sem eining.“

Vor- og jólatónleikar hafa verið fastir liðir í starfsemi kórsins frá upphafi. Þess á milli tekur hann þátt í ýmsum viðburðum auk þess sem kórfélagar bæta reglulega við þekkingu og kunnáttu á námskeiðum. „Við höfum farið víða á námskeið erlendis og bætt okkur í tónlistarkunnáttu og sviðsframkomu,“ segir Ingveldur Ýr.