— Ljósmynd/NASA
Nær heiðskírt var yfir landinu í gær og fyrir vikið tókst gervitungli bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA að fanga skýra mynd af landinu utan úr geimnum. „Við erum ekki búin að fá marga svona daga á árinu þar sem það er svona heiðskírt og…

Nær heiðskírt var yfir landinu í gær og fyrir vikið tókst gervitungli bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA að fanga skýra mynd af landinu utan úr geimnum. „Við erum ekki búin að fá marga svona daga á árinu þar sem það er svona heiðskírt og allt landið sést svona vel,“ segir Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur við Háskóla Íslands.

„Það er ekkert oft sem allt landið næst á mynd nánast skýlaust. Auðvitað kemur það fyrir, en það er svolítið gaman að það komi núna í vorbyrjun,“ segir hún. Þá sjáist greinilega mörkin á milli landshluta.

Eins og sjá má virðist sem meirihluti landsins sé enn þakinn snjó: „Það er greinilega mjög mikill snjór enn þá á Norðausturlandi og Vestfjörðum, en svo hefur hlánað inn til dala víðast annars staðar.“

Myndir opnar almenningi

Ingibjörg bendir á að myndin sé fengin frá bandarísku geimferðastofnuninni NASA, eins og áður sagði.

„Stefnan hjá þeim er að hafa þessi gögn opin almenningi og að þau séu birt eins fljótt og hægt er. Myndirnar eru birtar nánast um leið og gervitunglið er búið að fljúga fram hjá. Þetta er sjálfvirk vinnsla að mestu leyti fyrir myndir af þessu tagi. Þannig er hægt að fylgjast með alls konar fyrirbærum á hverjum einasta degi.“