Stórskotalið Úkraínsk hábyssa skýtur á stöður Rússa í Karkív-héraði. Skotfæraskortur hefur einkum háð loftvörnum og stórskotaliði Úkraínu.
Stórskotalið Úkraínsk hábyssa skýtur á stöður Rússa í Karkív-héraði. Skotfæraskortur hefur einkum háð loftvörnum og stórskotaliði Úkraínu. — AFP/Anatolii Stepanov
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þakkaði í gær Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir óbilandi stuðning sinn, en leiðtogarnir ræddust við símleiðis eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarp um hernaðaraðstoð við Úkraínu um helgina

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þakkaði í gær Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir óbilandi stuðning sinn, en leiðtogarnir ræddust við símleiðis eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarp um hernaðaraðstoð við Úkraínu um helgina.

Biden tjáði Selenskí í símtalinu að hann muni undirrita frumvarpið sem gildandi lög um leið og öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkir það, en gert er ráð fyrir að deildin taki frumvarpið til umræðu og afgreiði það í þessari viku. Hafa talsmenn bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagt að þá muni ekki líða á löngu þar til fyrstu sendingarnar berist til Úkraínu.

Frumvarpið kveður á um að Bandaríkin verji á þessu fjárlagaári um 60,1 milljarði bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 8.500 milljörðum íslenskra króna, í hernaðaraðstoð til Úkraínu. Höfðu Bandaríkin áður varið samtals 46,3 milljörðum bandaríkjadala í aðstoð við Úkraínuher, og er því um umtalsverða aukningu að ræða.

Það tók hins vegar um hálft ár að ná frumvarpi um endurnýjaða aðstoð í gegnum fulltrúadeild þingsins, og hefur sú töf þýtt að Bandaríkjastjórn hefur ekki getað sent Úkraínu mikilvægar vistir og skotfæri síðustu mánuði, á sama tíma og Rússar hafa búið sig undir sóknaraðgerðir í sumar.

Kíríló Búdanov, yfirmaður leyniþjónustu Úkraínuhers, HUR, sagði í gær í viðtali við breska ríkisútvarpið að líklegt væri að ástandið á víglínunum muni versna enn fyrir Úkraínu á næstu vikum, þar sem Rússar væru nú farnir að þrýsta verulega á varnarstöður Úkraínuhers í austurhéruðum landsins, en þeir sækja nú einkum að bænum Tsjasív Jar.

Búdanov tók fram að staðan væri ekki örvæntingarfull og að Rússar myndu ekki ná að knýja fram sigur í stríðinu. Hins vegar mætti ætla að frá miðjum maí og fyrstu vikurnar í júní verði staðan erfið fyrir Úkraínumenn.

Samkvæmt stöðumati bandarísku hugveitunnar Institute for the Study of War má eiga von á því að Úkraínuher muni enn þurfa að hörfa næstu vikur, þar til skotfæri frá Bandaríkjunum og Evrópu geta borist í nægu magni til þess að stöðva sókn Rússa.