Framtíðarsýn Svona gæti Græni iðngarðurinn litið út árið 2030, ef áform um uppbyggingu ganga eftir.
Framtíðarsýn Svona gæti Græni iðngarðurinn litið út árið 2030, ef áform um uppbyggingu ganga eftir. — Teikning/IEBP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Reykjanesklasans, væntir þess að ný fyrirtæki verði búin að koma sér fyrir í klasanum í byrjun næsta árs. Þau muni fylgja í kjölfar íslensk-japanska fyrirtækisins iFarm Iceland sem ræktar jarðarber í klasanum, eða í Græna iðngarðinum eins og hann nefnist einnig.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Reykjanesklasans, væntir þess að ný fyrirtæki verði búin að koma sér fyrir í klasanum í byrjun næsta árs. Þau muni fylgja í kjölfar íslensk-japanska fyrirtækisins iFarm Iceland sem ræktar jarðarber í klasanum, eða í Græna iðngarðinum eins og hann nefnist einnig.

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í síðustu viku að iFarm áformar að hefja útflutning jarðarberja til London, Parísar og fleiri borga. Þá hyggst fyrirtækið rækta wasabi og framleiða sake-vín í Græna iðngarðinum í náinni framtíð.

Kjartan Þór segir iFarm hafa komið sér fyrir í steyptri forbyggingu sunnan við skála fyrirhugaðs álvers sem Reykjanesklasinn keypti af þrotabúi Norðuráls í Helguvík í fyrra.

Berin séu ræktuð í kjallara forbyggingarinnar sem sé 500 fermetrar og með níu metra lofthæð á hæðinni fyrir ofan. Því sé auðvelt að útbúa milliloft ef þurfa þykir. Síðar, þegar framleiðslu iFarm hafi vaxið fiskur um hrygg, verði hægt að útbúa stærra rými í öðrum af tveimur kerskálunum sem Norðurál lét steypa upp.

Viðræður í gangi

Kjartan Þór segir viðræður í gangi við fleiri fyrirtæki um leigu á rýmum í skálunum. Ætlunin sé að þau geti hafið starfsemi á fyrri hluta næsta árs.

Það flýti fyrir verkefninu að búið sé að steypa upp mannvirkin og því þurfi ekki að grafa grunn og steypa sökkla, sem allt taki sinn tíma.

„Við sjáum fyrir okkur að hefja framkvæmdir við endurbætur á skálunum á vormánuðum, eða í byrjun sumars, þannig að við getum byrjað að afhenda rýmin í byrjun næsta árs.

Við ætlum ekki að loka öllu húsinu í einu lagi heldur tökum við ákveðna áfanga og lokum því,“ segir Kjartan Þór og vísar til þess að setja þarf þak á skálana sem eru stór mannvirki eins og hér er sýnt á mynd.

Fjármagnað samhliða tekjum

„Við ætlum að setja upp milliveggi og klæða húsið að utan. Svo höldum við áfram að þróa okkur í gegnum skálana,“ segir Kjartan Þór.

Hann segir aðspurður að þeir séu nú þegar með sterkan hóp fjárfesta í verkefninu en að öðru leyti verði framkvæmdirnar fjármagnaðar með lánsfé í takt við leigusamninga. Áætlanir miði nú við að umbreytingu skálanna verði lokið eftir fimm til sex ár.

Byggingarnar séu að grunnfleti um 25 þúsund fermetrar en með milligólfum sé hægt að útbúa um 35 þúsund fermetra rými. „Skálarnir eru 14 metra háir við útvegg en 17 metra háir við mæninn í miðjunni. Sjö metrar þykja mjög góð iðnaðarlofthæð, jafnvel fjórir metrar. Hugmyndin er að setja upp milliloft og nýta innviðina sem fyrir eru en byggingin var byggð til að bera meðal annars brúarkrana sem áttu að fara eftir endilöngum skálunum.

Við erum að láta hanna bygginguna þannig að nýta megi burðarvirkið til að bera milligólf. Þannig að við getum sett upp fullberandi iðnaðargólf í hér um bil fimm metra hæð og útbúið aðkomu að því milligólfi utan frá,“ segir Kjartan Þór og útskýrir að gólfið í skálunum sé niðurgrafið, eða hér um bil tvo metra, og taka þurfi tillit til þess þegar aðkoma er mynduð upp á efri hæðir. Svo útskýrir hann að í samningaviðræðum við væntanlega leigutaka séu rýmin hönnuð að þörfum hvers og eins. Hugmyndir leigutaka séu þannig útfærðar af hönnuðum og arkitektum. „Við erum því að ganga svolítið langt í þeim viðræðum en við skilgreinum þarfir viðkomandi starfsemi og látum teikna rými utan um hana. Sú vinna tekur tíma en við reiknum með að ljúka fyrstu samningunum á næstu vikum eða mánuðum og fara svo í endurbætur á skálunum,“ segir Kjartan Þór.

Nýta tengslanetið

Græni iðngarðurinn er markaðssettur erlendis sem Iceland Eco-Business Park.

Spurður hvernig fulltrúar iðngarðsins koma honum á framfæri ytra segir Kjartan Þór að þeir séu fyrst og fremst að nýta tengslanetið sem þeir hafa.

„Þór Sigfússon hefur á síðustu árum byggt upp gríðarlega öflugt tengslanet í gegnum störf sín fyrir Sjávarklasann. Á sama hátt er ég búinn að kynna mér ýmsar iðngreinar á undanförnum árum og hef orðið töluverða reynslu á því sviði. Þannig að við höfum verið að þreifa á því sem við þekkjum. Þar ræðir um ýmislegt tengt nýtingu á orku, rafmagni og sjávarútvegi,“ segir Kjartan Þór og rifjar upp að verkefnið eigi sér langan aðdraganda. Byggingarnar hafi staðið auðar síðan 2012, eftir að framkvæmdir við fyrirhugað álver Norðuráls voru stöðvaðar, og fyrri eigendur hafið leit að hugsanlegum kaupendum. Skoðaðir hafi verið möguleikar á að byggja upp álver eða annars konar rekstur.

Ýmsar hugmyndir

„Síðan eru ýmsir aðilar búnir að skoða byggingarnar með ýmis verkefni í huga sem eru misjafnlega stór í sniðum. Sumir voru að skoða að nota byggingarnar í heild sinni. Meðal annars var Samherji að skoða byggingarnar og lóðir í kring með eldi í huga en fyrirtækið ákvað síðan að hafa eldið á Reykjanesi. Ég fór að skoða verkefnið eftir að Samherji var hættur við og þá með það í huga að hólfa byggingarnar niður og aðlaga þær að ólíkri starfsemi. Ég fór með þessar pælingar til Þórs sem hefur verið að gera rosalega flotta hluti í tengslum við Sjávarklasann og aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi. Þannig að hugmyndin var að við myndum sameina krafta okkar í þessu.

Uppbygging álversins og kísilvers í Helguvík komst því miður ekki alla leið. Við höfum fylgt þeirri hugmyndafræði að taka aðra nálgun við uppbyggingu í Helguvík. Nú held ég að sveitarfélögin og samfélögin hér horfi til annars konar uppbyggingar á þessum reit. Við erum að horfa á þætti sem við viljum meina að skapi samkeppnisforskot Íslands. Þá m.a. tengda sjávarútvegi og matvælaframleislu ýmiss konar og möguleikum til að nýta flugvöllinn til að miðla þessum vörum á erlenda markaði og fá þaðan aðföng,“ segir Kjartan Þór að lokum og bendir á að fyrirtækið iFarm sé gott dæmi um þessar áherslur.