Tryggvi Gíslason fæddist í Reykjavík 24. janúar 1951. Hann lést á Landspítalnum 6. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Vilborg Kristbjörnsdóttir, f. 10. mars 1923, d. 7. október 1994, og Gísli Sigurtryggvason, f. 26. apríl 1918, d. 2. ágúst 2004. Systkini Tryggva eru Eiríkur, f. 24. nóvember 1949, d. 1. mars 1994, Kristín, f. 27. júlí 1952, Valgeir, f. 8. júní 1957, og Ævar, f. 23. apríl 1959.

Tryggvi kvæntist Margréti Jóhannesdóttur, f. 16. júní 1952, þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Jóhanna, f. 16. maí 1972, Vilberg, f. 5. júlí 1974, eiginkona Erla Björg Arnardóttir, f. 10. febrúar 1976. Börn þeirra eru Emil, f. 11. september 2007, og Marit Arna, f. 15. október 2015. Lára, f. 7. maí 1978, sambýlismaður Róbert Benediktsson, f. 10. desember 1971. Dætur þeirra eru Hera, f. 6. apríl 2006, og Regína, f. 24. janúar 2008. Tryggvi Valur, f. 8. mars 1983, sambýliskona Hanna Guðrún K. Þorkelsdóttir, f. 2. janúar 1991. Börn þeirra eru Björgvin Aríel, f. 29. nóvember 2012, Íris Alba, f. 8. mars 2016 og Óliver Atlas, f. 16. júní 2019. Tryggvi var vélstjóri og var lengi til sjós en fór svo að Samvinnuskólanum á Bifröst og útskrifaðist þaðan úr rekstrarfræði árið 1995. Þá bætti hann við sig framhaldsmenntun í Háskóla Íslands á árunum 2003-2010 meðfram vinnu hjá Skattinum þar sem hann starfaði, síðast á eftirlitssviði, en hann lét af störfum í janúar 2021.

Útför Tryggva fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 23. apríl 2024, og hefst útförin klukkan 13.

Elsku pabbi. Mig langar að þakka þér fyrir að hafa verið sá allra besti pabbi sem ég hefði getað eignast. Við vorum miklir vinir og þú barst alltaf hag minn fyrir brjósti og minntir mig reglulega á það að ég þyrfti að hugsa vel um mig því þú ættir jú bara eina Láru.

Þú varst alltaf boðinn og búinn að gera allt fyrir mig og mitt fólk sama hversu stórt eða smátt það var. Okkar bestu stundir voru að sitja bara tvö og spjalla eða eins og þú sagðir stundum,„eða að sitja bara saman í þögninni“, því það gátum við líka og bara notið samverunnar. Þú varst húmoristi og hafðir gaman af því að segja sögur, fórst og lærðir silfursmíði og smíðaðir fallega hluti sem þú gafst fólkinu þínu og það er dýrmætt að eiga í dag en allt gerðir þú 110%. Þegar þú varðst fertugur léstu draum um frekara nám rætast og fluttist í framhaldi af því til Reykjavíkur. Seinna áttir þú heldur betur eftir að bæta enn frekar við þig námi með vinnu og naust þín þótt álagið væri oft mikið. Sumarið sem ég var 25 ára er mér mjög minnisstætt en þá flutti ég tímabundið til þín aftur. Þú vildir ekkert endilega hafa gæludýr á þínu heimili en Sesar minn fékk að fylgja mér, þá pössuðum við feðginin að eiga alltaf einn ískaldan í kælinum sem við gætum skipt með okkur og talað langt fram á nótt. Hera mín var fyrsta afabarnið þitt og það sem þú varst ánægður þegar hún kom í heiminn 6. apríl 2006. Þegar ég sagði þér rúmu ári síðar að ég væri ófrísk aftur sagðir þú strax, „já, það er stelpa og hún kemur 24. janúar“, sem var afmælisdagurinn þinn. Mér fannst þetta nú bara bull í þér enda ég sett snemma í febrúar en viti menn, að kvöldi 24. janúar 2008 fæðist Regína okkar og það með stuttum fyrirvara. Þú varst sá eini sem fékkst að sjá hana strax og varst ekkert lítið rogginn þegar þú labbaðir inn ganginn í Hreiðrinu. Þú sagðir það ekki með orðum en augnaráðið sagði það sem segja þurfti, „ I told you so“, og svo brostir þú út að eyrum. Þú varst yndislegur afi og mjög duglegur að mæta á leiki hjá stelpunum á meðan heilsan leyfði. Eftir að þú hættir að geta komið var það alltaf fyrsta verk eftir leik hjá þeim að hringja í afa og upplýsa hvernig hefði gengið og stóð ég mig meira að segja að því viku eftir að þú kvaddir að vera farin að velja símanúmerið þitt til að láta þig vita hvernig leikurinn hjá Heru hefði farið.

Í tvígang greindist þú með krabbamein og fórst í gegnum allt sem því fylgdi af miklu æðruleysi. Ég fylgdi þér mikið í þeim verkefnum en eitt var það sem ég átti erfitt með að sannfæra þig um og það var það að fara í Ljósið. Þú fórst fyrir rest og það veitti þér mikið og þar leið þér vel. Ég veit ekki hve oft þú þakkaðir mér fyrir að hafa „dregið“ þig þangað. Þótt þú hafir hætt að vinna á sjó fór sjómennskan aldrei úr þér og þú keyptir þér strandveiðibát áður en þú hættir að vinna og ætlaðir heldur betur að njóta þín eftir starfslokin og gerðir það. Vilborg ÍS 7 var á Bolungarvík þegar þú keyptir hana og þú sagðir að þú ætlaðir nú að færa hana nær höfuðborginni, þetta væri nú drjúgur spotti þarna vestur, en það átti eftir að breytast. Fyrir vestan naustu þín í botn, fórst á strandveiðar, eignaðist nýja félaga í hópi annarra strandveiðimanna og kunnir alveg óskaplega vel við þig.

Elsku pabbi, góða ferð í sumarlandið, ég sé þig fyrir mér frískan og brosandi, siglandi á spegilsléttum sjó inn í sólarlagið með appelsín og kleinur í nesti og mögulega smá súkkulaði í eftirrétt.

Takk fyrir allt saman.

Þín dóttir

Lára.

Pabbi minn fór með sínum hætti, ekkert hik, engin bið, enginn kvíði. Hann bara kvaddi.

Hann var fylginn sér og fór sínu fram ef hann ætlaði sér. Hann hóf útgerð með félögum sínum á Netabátnum Þóri SF 77 innan við þrítugt og líkaði það á margan hátt vel. Rúmlega fertugur hætti hann til sjós og fór aftur í nám, sem þótti ekki móðins á þeim tíma. Að lokum útskrifaðist hann með MA í opinberri stjórnsýslu. Það var seigla í honum ef hann beit eitthvað í sig. Eitt sinn var hann fenginn til að taka við nærri gjaldþrota vélsmiðju. Með loforð um nýtt hlutafé gekk hann í verkið að koma henni gegnum nauðasamninga. Hann lagði sig allan fram í verkið og hafði samningana í gegn þvert á trú flestra. Hlutaféð sem honum var lofað kom hins vegar aldrei. Aldrei hafði verið talið raunhæft að koma vélsmiðjunni gegnum þessa samninga og því engin alvara verið bak við hlutafjárloforðin. Hann var engu að síður stoltur af verkefninu, það var ekki hann sem guggnaði heldur þeir sem réðu hann til verksins.

Seinni hluta starfsævinnar vann hann hjá Ríkisskattstjóra og líkaði vel. Oft og iðulega sagði hann fréttir, annað hvort af ferðum með Skattinum eða skemmtilegum félögum sem hann hafið kynnst þar. Hugurinn var þó iðulega hjá bryggjunni og sjónum. Sjómannaalmanakið stóð honum nær en Biblían og alltaf á vísum stað ef ske kynni að hann þyrfti að forvitnast um eitthvert tiltekið skip eða hann vildi sannreyna sína eigin þekkingu. Bryggjurúntarnir gátu því orðið töluvert langir en aldrei varð hann uppiskroppa með fræðsluefni um hvaðan tiltekinn bátur var, hverju var búið að breyta og hverjir höfðu átt hann.

Fyrir nokkrum árum keypti hann sér trillu á ný og hugðist stunda strandveiðar í sumarfríunum sínum. Þó útgerðin gengi brösuglega var karlinn kátur með sitt. Þetta bras gaf honum lífsfyllingu. Hann naut þess að vera innan um sína líka, trillukarlana í Bolungarvík, og skipti þá engu hvort hann eða skipið væru sjóhæf eður ei.

Síðastliðið haust fór um við feðgarnir þrír í pílagrímsferð til Hull og Grimsby. Draumurinn um þessa ferð hafði varað lengi og loks var hún farin. Við máttum ekki seinni vera, síðustu leifarnar af gömlu bryggjunum, byggingunum og skipaskurðunum voru að hverfa af yfirborði jarðar. Karlinn lék hins vegar á als oddi og fátt sem benti til þeirra veikinda sem hann þá þegar glímdi við.

Annað áhugamál hans var silfursmíði og eiga bæði börn og barnabörn fallega muni sem hann smíðaði af mikilli natni í náminu og í litlu smíðaaðstöðunni sinni uppi á háalofti í Hólmgarðinum.

Hann hafði mikla gleði af umgengni við barnabörnin sín. Kom og gætti þeirra þegar hann mátti vera að og heimsótti þau eða hitti þess á milli. Vissi hann af íþróttaviðburði sem þau tækju þátt í var hann oftar en ekki mættur upp í stúku að hvetja sitt fólk.

Nú hefur hann kvatt okkur, sæll lífdaganna. Ef ég þekkti hann rétt er hann einmitt núna að bölsótast yfir einhverjum slóðaflækjum þarna í efra, feginn því að vera loksins farinn að róa aftur.

Vilberg Tryggvason.

Í dag kveðjum við elskulegan mág minn, Tryggva Gíslason. Það er undarlegt og sárt til þess að hugsa að hann sé ekki lengur á meðal okkar. Tryggvi sem skipaði svo stóran sess í lífi Valgeirs bróður síns og barnanna okkar, Andra og Dagnýjar. Við höfum verið svo heppin að hafa hann hjá okkur mörg undanfarin jól og páska og alla tíð hefur hann tekið mikinn þátt í öllum merkum viðburðum í lífi okkar.

Tryggvi var mikill fjölskyldumaður og var hann mjög stoltur af börnum sínum og ekki síst barnabörnum. Ekki þótti honum mikið mál að bruna austur á Höfn og Flúðir til að hitta barnabörnin sem þar eru búsett. Iðulega fór hann á íþróttaleiki á Álftanesi og nágrenni og fylgdist stoltur með stúlkunum sínum keppa. Og næst þegar hann kíkti í heimsókn hélt hann langar ræður um snilli og ágæti barnabarna sinna.

Tryggvi sagði skemmtilega frá og voru sögur hans ætíð gæddar miklum húmor. Hann hafði gaman af því að segja okkur sögur frá því að hann var drengur bæði úr Reykjavík og Sandlækjarkoti. Einnig leiddist honum ekki að segja okkur sögur af sjónum.

„Sorgin sér um sig sjálf en til að njóta gleðinnar til fulls verðurðu að deila henni með einhverjum.“ (Mark Twain)

Elsku Tryggvi, þín verður sárt saknað.

Pálína Sveinsdóttir.