Brynhildur „Undanfarin ansi mörg ár hef ég gert eitthvað söngkyns í kringum afmælisdaginn minn.“
Brynhildur „Undanfarin ansi mörg ár hef ég gert eitthvað söngkyns í kringum afmælisdaginn minn.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Ég er hluti af kabarettsenunni á Íslandi og þar er ég með karakter sem heitir Bíbí, en þetta eru ekki kabaretttónleikar núna og ég verð ekki í hennar hlutverki. Ég verð bara ég,“ segir Brynhildur Björnsdóttir, söng- og leikkona, sem ætlar að fagna sumri í Salnum á sumardaginn fyrsta, 25

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Ég er hluti af kabarettsenunni á Íslandi og þar er ég með karakter sem heitir Bíbí, en þetta eru ekki kabaretttónleikar núna og ég verð ekki í hennar hlutverki. Ég verð bara ég,“ segir Brynhildur Björnsdóttir, söng- og leikkona, sem ætlar að fagna sumri í Salnum á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, kl. 16 með tónleikum undir yfirskriftinni Sumargleði Bíbíar og Mandólíns.

„Mínir góðu vinir í stórgleðisveitinni Mandólín spila með mér og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari líka en við höfum unnið saman í áratug eða meira. Ég mun skiptast á að syngja við undirleik Mandólíns og Aðalheiðar,“ segir Brynhildur sem á afmæli á laugardaginn, sem er einmitt tilefni tónleikanna.

„Undanfarin ansi mörg ár hef ég gert eitthvað söngkyns í kringum afmælisdaginn minn. Ég er menntuð söngkona og þó söngurinn hafi ekki orðið mitt aðalstarf, þá er það engu að síður með því skemmtilegasta sem ég geri að syngja fyrir fólk og spjalla á milli laga. Fyrstu afmælistónleikarnir mínir voru í Mapútó í Mósambík á afmælisdeginum mínum þegar ég varð þrjátíu og tveggja ára, en þá var ég búsett þar og tók þátt í óperuuppfærslu. Ég þekkti fyrir vikið píanóleikara á staðnum og við tvö settum saman prógramm sem við fluttum heima hjá þýska sendiherranum því þar var góður flygill sem var ekki í nógu mikilli notkun.“

Notaleg kaffihúsastemning

Brynhildur segist hafa haft nóg að gera milli þrítugs og fertugs við barneignir og fleira, en þegar hún varð fertug ákvað hún að sparka söngferlinum aftur í gang.

„Þá hélt ég stóra tónleika í Salnum og var með hljómsveit og píanista með mér. Ég bauð helling af fólki og rúmlega tvö hundruð manns mættu og allir þessir gestir héldu að þeir væru að koma í afmæli, en voru svo lokaðir inni í Salnum og neyddust til að hlusta á mig syngja í tvo klukkutíma ,“ segir Brynhildur og hlær. „Enginn kvartaði þó, allir voru glaðir og ég bauð fólki í veislu eftir tónleika. Allar götur síðan hef ég reynt að halda söngtónleika í kringum afmælið mitt og þegar ég var fimmtug árið 2020 ætluðum við Aðalheiður að hafa tónleikaröð með ólíkum þemum, sem datt upp fyrir vegna heimsfaraldurs. Síðan opnaðist smuga í þrjár vikur í júní sem mátti halda viðburði og þá náði ég að halda afmælistónleika í fordyri Salarins og varð skotin í þessu rými, þar er nálægð við áhorfendur og afslappaðra en inni í tónleikasalnum sjálfum. Tónleikarnir á fimmtudaginn verða einmitt líka þarna frammi, þar er hægt að hafa svolitla kaffihúsastemningu og tengsl við birtuna sem flæðir þar inn um gluggana og leyfir okkur að finna fyrir sumrinu sem einmitt verður nýkomið “

Gott trúnó á vorkvöldi

Brynhildur segist tvisvar áður hafa komið fram með hljómsveitinni Mandólin.

„Ég kom fyrst fram með þeim á Rosenberg árið 2016 en það voru einmitt líka afmælistónleikar hjá mér, en ég er svo heppin að eiga góða vini í þessari hljómsveit og ég hef verið mikill aðdáandi þeirra allt frá byrjun. Ég kom líka fram með þeim í nóvember í fyrra þegar þau voru með útgáfutónleika í Salnum, en þá fékk ég þann mikla heiðurssess að flytja lag Sigríðar Ástu, „Innkaupatangó“, en hún er harmonikkuleikari Mandólíns. Ég get lofað að „Innkaupatangóinn“ verður tekinn núna í Salnum,“ segir Brynhildur sem ætlar að fagna sumrinu með blönduðu prógrammi á tónleikunum.

„Ég hef gert mikið af því að syngja þýska kabaretttónlist, sem er mjög skemmtileg og til í frábærum íslenskum þýðingum, en núna ákvað ég að hafa íslenska slagsíðu og það er nánast einvörðungu íslensk tónlist á dagskránni. Þetta eru allskonar lög eftir til dæmis Sigfús Halldórsson, Moses Hightower, Pál Óskar, Jónas og Jón Múla, Bubba, Valgeir Guðjónsson og svo líka nokkur af lögum Mandólíns. Sum af þessum lögum heyrast oft en önnur sjaldnar og ég syng þau með mínu nefi. Einnig verður snúningur Aðalheiðar á þeim, en hún er algjör snillingur í útsetningum og að finna hvað hentar söngrödd minni. Þá má ekki gleyma snúningi Mandólíns, sem eru ekki síðri snillingar í að sjá nýja möguleika í lögum, þau eru svo æðisleg og gleðivekjandi,“ segir Brynhildur sem titlar sig sem ástarmeistara og glaðvaka á fésbók sinni.

„Þetta kemur til af því að ég skrifaði meistararitgerð fyrir nokkrum árum um hugmyndina um rómantíska ást. Ég er ekki endilega einvörðungu jákvæð í hennar garð, því ég hef verið að stúdera hvernig hugmyndin um rómantíska ást er notuð til að viðhalda bæði skaðlegum staðalmyndum í samfélaginu og ákveðinni tegund af neyslu. Auðvitað er samt gott að trúa á ástina, eitthvað verður fólk að trúa á,“ segir sumarbarnið Brynhildur í léttum dúr og hlakkar til að hefja sumarið á vængjum söngsins í góðra vina hópi. „Það er bókstaflega ekkert skemmtilegra en að syngja með vinum sínum fyrir glaða áhorfendur. Nema ef vera skyldi gott trúnó á vorkvöldi í Reykjavík og vonandi næ ég hvoru tveggja á tónleikunum.“