Aðeins af breyttu fylgi fremstu frambjóðenda milli vikna er auðvelt að sjá að kjósendur eru enn að gera upp hug sinn. Eins og eðlilegt er þegar haft er í huga að framboðsfrestur er enn óútrunninn og óvitað hverjir verða endanlega á kjörseðlinum

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Aðeins af breyttu fylgi fremstu frambjóðenda milli vikna er auðvelt að sjá að kjósendur eru enn að gera upp hug sinn.

Eins og eðlilegt er þegar haft er í huga að framboðsfrestur er enn óútrunninn og óvitað hverjir verða endanlega á kjörseðlinum. Óljóst er hverjir ná tilskildum fjölda meðmælenda og ekki útilokað að einhverjir dragi sig í hlé.

Mesta fylgishreyfing vikunnar er ljóslega til Höllu Hrundar Logadóttur, sem jók fylgi sitt um helming, úr 12% í 18%. Það hefur áhrif á fleiri frambjóðendur, sem flestir lækkuðu milli vikna, mismikið þó. Þannig dregur Katrín Jakobsdóttir nokkuð á Baldur Þórhallsson, þótt ítreka verði að vegna vikmarka er ekki tölfræðilega marktækur munur á þeim. Hins vegar má nokkuð lesa úr breytingunum.

Greining á hópum

Þegar svarendum er skipt upp í hópa eftir lýðfræði eða skoðunum blasa einnig við breytingar frá fyrri viku.

Þar, líkt og í heildarfylgistölum, gæti flöktið þó að einhverju leyti endurspeglað ónákvæmni í mælingunni, sérstaklega í hópum þar sem fá svör liggja að baki. Þannig er hlutfall fylgjenda Baldurs meðal Samfylkingarfólks áreiðanlegra en í hópi Sósíalista.

Það er þó ekki á eina bók lært, samkvæmt Prósenti er Baldur nú sterkastur í Kraganum, þar sem hann var veikastur í liðinni viku.

Sem fyrr á Jón Gnarr mest undir ungum kjósendum, fylgi hans minnkar í hlutfalli við aldur, sem varla eru góðar fréttir því yngra fólkið er ólíklegra til að koma á kjörstað. Þá dalar Baldur talsvert hjá miðaldra fólki.

Katrín sækir áfram frekar í eldri hópana, en Halla Hrund saxar á hana, þótt það sé raunar á kostnað annarra frambjóðenda.

Mesta athygli vekur hins vegar hvað Halla Hrund hefur náð miklu fylgi meðal Framsóknarmanna, 29%. Í þeim hópi náði hún aðeins 8% í síðustu viku.