Eftir að Íslandi var úthlutað lokakeppni HM karla í handbolta 2031 ásamt Danmörku og Noregi, en ekki 2029, er svigrúmið til að reisa svokallaða Þjóðarhöll í Laugardalnum í Reykjavík aðeins meira en áður

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Eftir að Íslandi var úthlutað lokakeppni HM karla í handbolta 2031 ásamt Danmörku og Noregi, en ekki 2029, er svigrúmið til að reisa svokallaða Þjóðarhöll í Laugardalnum í Reykjavík aðeins meira en áður.

En hvers vegna Þjóðarhöll, á sama tíma og knattspyrnuhreyfingin hefur um árabil reynt að ýta úr vör undirbúningi að nýjum þjóðarleikvangi?

Hvers vegna er þetta ekki lagt upp og unnið sem eitt verkefni? Ein og sama byggingin?

Róbert Agnarsson skrifaði áhugaverðan pistil á Facebook í síðustu viku þar sem hann benti á slíkt mannvirki í Lille í Frakklandi þar sem spilaður er handbolti, fótbolti, körfubolti, blak, keppt í akstursíþróttum og haldnir tónleikar.

Um leið og þetta er heimavöllur eins besta knattspyrnuliðs Frakklands, sem Skagamaðurinn Hákon Arnar Haraldsson leikur með, hafa tugþúsundir horft á leiki þar á stórmótum í handbolta.

Handboltakeppnin á Ólympíuleikunum verður einmitt leikin þar í sumar.

„Kom aldrei til greina að byggja minna mannvirki í þessum dúr á Íslandi? Nei, svo virðist ekki vera. Byggja skal sérstaka þjóðarhöll og sérstakan þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu. Klárlega dýrari kostur og ekki góð efnahagsstjórnun,“ skrifar Róbert.

Ráðherra íþróttamála með yfirsýn yfir allt sviðið hlýtur að skoða af alvöru þann möguleika. Það getur hreinlega ekki annað verið en að það væri hagstæðara að öllu leyti.

Ekki bara hvað varðar keppnisaðstöðuna sjálfa heldur myndi þetta einfalda áhorfendastúkur, búningsklefa, bílastæði og margt fleira. Og kosta mun minna!