Öflugur Mario Matasovic fór fyrir Njarðvíkingum þegar liðið vann sterkan útisigur á Þór í Þorlákshöfn og tryggði sér þannig oddaleik á heimavelli.
Öflugur Mario Matasovic fór fyrir Njarðvíkingum þegar liðið vann sterkan útisigur á Þór í Þorlákshöfn og tryggði sér þannig oddaleik á heimavelli. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njarðvík knúði fram oddaleik í einvígi sínu við Þór frá Þorlákshöfn með því að vinna fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Lauk leiknum með sigri Njarðvíkur, 91:84, og staðan í einvíginu er því 2:2

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Njarðvík knúði fram oddaleik í einvígi sínu við Þór frá Þorlákshöfn með því að vinna fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Lauk leiknum með sigri Njarðvíkur, 91:84, og staðan í einvíginu er því 2:2.

Mætast liðin í oddaleik í Ljónagryfjunni í Njarðvík næstkomandi fimmtudag, sumardaginn fyrsta.

Í leik gærkvöldsins var allt í járnum lengi vel þar sem liðin skiptust á að ná eins til þriggja stiga forskoti.

Það var ekki fyrr en um miðjan fjórða og síðasta leikhluta sem Njarðvík náði ögn stærra forskoti er liðið komst í 76:71 með þriggja stiga körfu frá Mario Matasovic.

Njarðvíkingar bættu aðeins í og náðu nokkrum sinnum níu stiga forskoti. Þórsarar gáfust ekki upp en það var um seinan fyrir heimamenn að minnka muninn enn frekar og niðurstaðan að lokum sjö stiga sigur Njarðvíkur.

Hjá Njarðvík var Mario stigahæstur með 20 stig og 13 fráköst og var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Næstir hjá Njarðvík komu Dwayne Lautier með 19 stig og Veigar Páll Alexandersson með 18 af varamannabekknum.

Stigahæstur heimamanna í Þór var Tómas Valur Þrastarson með 19 stig. Jordan Semple kom næstur með 18 stig og 18 fráköst.

Lygileg endurkoma dugði ekki

Valur vann magnaðan sigur á Hetti, 103:97, eftir æsispennandi framlengdan fjórða leik liðanna á Egilsstöðum. Valsmenn unnu þar með einvígið 3:1 og eru annað liðið, á eftir Grindavík, sem tryggir sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Fátt benti til þess að leikurinn myndi enda í framlengingu þar sem Valur var með undirtökin langstærstan hlutann og var 21 stigi yfir, 67:46, þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður.

Höttur var hins vegar ekkert á því að gefast upp og hóf að leggja drög að ótrúlegri endurkomu undir lok leikhlutans. Munurinn var þó 14 stig, 77:63, að þriðja leikhluta loknum og verkefnið ærið fyrir heimamenn.

Hattarmenn voru komnir með blóð á tennurnar og fór svo að ótrúlegur fjórði leikhluti sá til þess að staðan var jöfn, 87:87, að honum loknum. Í framlengingunni reyndust svo gestirnir ögn sterkari og unnu með sex stigum.

Justas Tamulis fór mikinn og skoraði 34 stig fyrir Val. Í liði Hattar var Deontaye Buskey atkvæðamestur með 29 stig og átta fráköst.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson