Ragnheiður Jóna Jónsdóttir
Ragnheiður Jóna Jónsdóttir
Halla Tómasdóttir fær mitt atkvæði og ég vil gjarnan að sem flestir heyri í henni og kynnist því hvað hún hefur fram að færa.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir

Við erum lánsöm, Íslendingar, að geta kosið okkur forseta. Það búa ekki allir við þau mannréttindi. Ekki nóg með að við getum kosið okkur forseta, heldur höfum við úr að velja fríðum flokki fólks sem gæti án efa skilað starfinu með sóma.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það hvert mitt atkvæði fer. Ég vil fá konu á Bessastaði og ég vil fá þroskaða konu. Halla Tómasdóttir fær mitt atkvæði og ég vil gjarnan að sem flestir heyri í henni og kynnist því hvað hún hefur fram að færa. Í forsetakosningunum 2016 rauk hún upp í vinsældum þegar leið á kosningabaráttuna og fólk hafði fengið tækifæri til að heyra í henni í sjónvarpi. Ég á von á að nú verði sama upp á teningnum. Halla Tómasdóttir var flottur forsetaframbjóðandi þá en nú er hún enn flottari. Hún er reynslunni ríkari eftir að hafa undanfarin sex ár starfað í New York þar sem hún er forseti samtakanna B-team. Þar kemur saman framsýnn og öflugur hópur forystufólks sem leggur sig fram um að breyta viðskiptaháttum í samfélaginu og sýna gott fordæmi þegar kemur að ábyrgð gagnvart fólki, samfélagi og umhverfi. B-team þrýstir jafnframt á stjórnvöld að tryggja að lög og reglur styðji við þá sýn.

Halla Tómasdóttir er þroskuð, framsýn og lausnamiðuð manneskja, sem hefur áhuga á fólki og á auðvelt með að umgangast alla. Hún brennur fyrir betri heimi og skipar sér ekki á pólitískt litróf frá hægri til vinstri. Hún hefur sýnt það í gegnum allan sinn feril að hún er kærleiksrík og skapandi forystumanneskja, með góð gildi og einstaka hæfileika í að leiða saman fólk til góðra verka. Hún var ein þeirra sem leiddu þjóðina saman á Þjóðfundi 2009, sem komst að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki, réttlæti, virðing og ábyrgð væru gildi þjóðarinnar. Þessi gildi vill Halla halda í heiðri og taka með sér á Bessastaði, eins og hún hefur sýnt í verki hvar sem hún hefur starfað. Halla er vel menntuð og hefur víðtæka reynslu bæði innanlands og utan.

Halla verður frambærilegur fulltrúi þjóðarinnar. Leiðtogi sem við Íslendingar verðum stolt af og mun leggja sitt af mörkum til að bæta samfélag manna jafnt innanlands sem á alþjóðlegum vettvangi. Ég er þakklát fyrir að geta krossað við nafn Höllu Tómasdóttur í forsetakosningum 1. júní og hvet þig til að gera slíkt hið sama. Ég trúi að það yrði stórt gæfuspor fyrir íslenska þjóð að fá Höllu Tómasdóttur í hlutverk forseta Íslands.

Höfundur er stofnandi Hannesarholts.