Anna Friðrika Karlsdóttir fæddist 29. maí 1937. Hún lést 15. mars 2024.

Útför Önnu fór fram 21. mars 2024.

Elsku hjartans vinkona mín.

Nú þegar komið er að kveðjustund þá vil ég þakka þér öll þau 80 árin sem við höfum verið svo góðar vinkonur. Allri þinni yndislegu tryggð og vináttu gleymi ég aldrei enda söknuður minn mikill, en við eigum eftir að hittast aftur í Draumalandinu.

Minningarnar eru svo margar frá gömlu góðu árunum. Þegar þú bjóst í Hraunbæ þá kom ég oft til þín en þá voru bæði góðir og erfiðir tímar hjá þér þegar þú varst orðin ein með fjögur börn, en dugnaður þinn var mikill og allt fór þetta vel.

Síðan bjóstu á Herjólfsgötu í lítilli sætri íbúð, þú komst oft til mín á meðan þú hafðir bílpróf, en síðan komstu með strákunum þínum.

En svo fór heilsa að bila en þá fórstu á Hrafnistu þar sem var vel hugsað um þig. Ég heyrði í þér vikulega, stúlkurnar þar á deildinni voru svo elskulegar að fara alltaf með símann til þín þegar ég hringdi, eiga þær skilið þakkir fyrir.

Jæja elskan, nú ert þú búin að fá hvíldina, við hittumst síðar, þá verður nú fjör!

Góður Guð geymi þig, elskan mín!

Þín vinkona,

Lovísa (Lúlla).