Fyrirsjáanleiki Ferðaþjónustan kallar eftir því að gert verði ráð fyrir fjármagni til neytendamarkaðssetningar í fjármálaáætlun til fimm ára í senn.
Fyrirsjáanleiki Ferðaþjónustan kallar eftir því að gert verði ráð fyrir fjármagni til neytendamarkaðssetningar í fjármálaáætlun til fimm ára í senn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef Coke markaðssetur sig ekki gengur Pepsi á lagið, það er markaðsfræði 101. Segir þú sögu þína ekki sjálfur segja aðrir þína sögu og sína sögu, sem er betri en þín.“ Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka…

Baksvið

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Ef Coke markaðssetur sig ekki gengur Pepsi á lagið, það er markaðsfræði 101. Segir þú sögu þína ekki sjálfur segja aðrir þína sögu og sína sögu, sem er betri en þín.“ Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), en ekkert fjármagn hefur verið sett í neytendamarkaðssetningu ferðaþjónustu á Íslandi á vegum ríkisins síðan 2022, að undanskildu 100 milljóna króna framlagi stjórnvalda sem nýtt var í stóra bókunarglugganum frá liðnum jólum og fram í miðjan janúar vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Norðurljós eru norðurljós

Samkeppnin um norræna upplifun er orðin meiri að sögn Jóhannesar. Það skipti ferðamanninn ekki öllu máli hvort hann sér norðurljós á Íslandi, í Noregi eða í Finnlandi. Ef ekki sé talað jafnt og þétt beint við þá markhópa sem við viljum fá, ferðamenn með meira fé á milli handanna sem dvelja lengur og verja meira fé hér á landi, verði erlendum flugfélögum, ferðaskrifstofum og söluaðilum leyft að stýra því hverjir koma hingað og verðmæti ferðaþjónustunnar minnkar. „Þannig færumst við í áttina að ósjálfbærri ferðaþjónustu og það er nokkuð sem enginn hefur áhuga á.“

Markaðsleg tilraun

Jóhannes segir leit á netinu að Íslandi hafa dregist saman um 40% í Þýskalandi og leit að Noregi aukist að sama skapi en Norðmenn vinni hart að neytendamarkaðssetningu. „Þetta er bara einhver markaðsleg tilraun um að hætta markaðssetningu og utanumhaldi um vörumerkið. Við erum strax farin að sjá afleiðingarnar sem eru alveg eins og spáð var.“

Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á því hvernig markaðssetningu í ferðaþjónustu sé háttað. Annars vegar kynningu á vörumerkinu og utanumhaldi erlendis sem sé vanalega á vegum ríkja og sé skynsamleg fjárfesting með miklum geislabaugsáhrifum fyrir aðrar atvinnugreinar. Hins vegar sölumarkaðssetningu fyrirtækja sem noti mörkun vörumerkisins áfram. Sölumarkaðssetning sé alltaf í gangi en hvort tveggja þurfi að vera í gangi á sama tíma og styðja hvort við annað. Ríkið hefur sett þrjú til sex hundruð milljónir króna í vörumerkið á ári eftir því hvaða átak hefur verið í gangi hverju sinni en fyrirtæki í ferðaþjónustu um þrjá til fjóra milljarða að sögn Jóhannesar. Segir hann að í eðlilegu árferði verji Norðmenn og Finnar um einum milljarði íslenskra króna í mörkun og markaðssetningu ferðamannastaðanna á hverjar tvær milljónir ferðamanna, samkvæmt minnisblöðum sem Íslandsstofa tók saman fyrir SAF. Um tvær milljónir ferðamanna fara á ári um Ísland.

Í fjármálaáætlun

Jóhannes segir ferðaþjónustu á Íslandi hafa skilað rúmum 150 milljörðum í ríkissjóð á árinu 2022 og muni skila nær 160 milljörðum á síðasta ári. „Það er til vinnandi að setja nokkur hundruð milljónir í að halda þessu við,“ segir hann.

Markaðssetning ferðaþjónustu fyrir áfangastað sem kominn er á kortið þurfi að hætta að vera átaksverkefni án fyrirsjáanleika. „Þetta þarf að fara inn í fjármálaáætlun til fimm ára þar sem gert er ráð fyrir fjármagni til neytendamarkaðssetningar þannig að allir viti það fram í tímann.“ Íslandsstofa geti gert hagstæðari samninga, skipulagt markaðssetningu og brugðist við þegar á þarf að halda.“

Markaðssetning

Sýnilegur árangur

Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu segir að ákveðið hafi verið að halda Íslandi á loft svo áfangastaðurinn sé ofarlega í huga fólks þegar það fer að ferðast á ný eftir faraldur.

Tveir milljarðar hafi verið settir í verkefnið sem samanstóð m.a. af verkefnunum Looks Like You Need Iceland, To Let It Out og Icelandverse.

Mælingar á endurheimt ferðaþjónustu eftir faraldur sýndu að Ísland var upp um 15,3%. Sömu mælingar sýndu mörg önnur lönd niður. Finnland um 24%, Bandaríkin um 16,8%, Kanada um 18,6% og Þýskaland um 12,6%.

Mælingar þessar sýna fram á mikilvægi markaðssetningar, segir Pétur við Morgunblaðið.