Vanbúin vísindi eru vandamálið

Það snúnasta við loftslagsvísindin er að það vantar dálítið upp á að þau séu vísindi. Forsenda trúarsetninga er að kenningin haldi þótt á móti öllum líkindum sé.

Vestrænar ríkisstjórnir telja óvarlegt að hugsa sjónarmið sín upphátt. Þær hafa, til að tryggja vinnufrið, skrifað undir að grípa skuli til björgunaraðgerða fyrir tiltekin tímamörk.

Vandinn við þá stefnu er að klukkan gengur. Bretar fluttu sín loforð aftur til ársins 2030 og allir vita að þegar þau tímamörk nálgast verða þau flutt aftur um 10 ár til viðbótar. Því reynslan sýnir að fimm ár líða of hratt þegar ekkert gerist.

Biden forseti er í erfiðum málum, eins og gildir um margt. Hann hafði tilkynnt við ógóðar undirtektir að landar hans skyldu hætta að grilla til að bjarga heiminum. Og svo hitt, að fjölga skyldi rafmagnsbílum í stað „olíusvelgja“, svo gefa mætti veröldinni von. Trump segist ætla að henda öllum gervivísindum á haugana vinni hann.

Þótt ungviði í flokki demókrata sé veikt fyrir prédikunum Als Gores, æðstaprests „hnattrænnar hlýnunar af mannavöldum“, hefur hann rafmagnsbíla með öðrum í sínu safni en ferðast að öðru leyti með einkaþotum til björgunar loftslaginu. Það gera þeir fleiri. Vandinn er sem sagt sá að rafmagnsbílar seljast sífellt verr, fólkið vill grilla og Trump gæti unnið.

En að auki, sem miklu skiptir, að eingöngu við, dekurbörnin í vestrænum heimi, tökum þátt í loftslagsdansinum, á meðan 90% heimsbyggðarinnar láta sér fátt um finnast. Það dæmi gengur ekki upp frekar en önnur í þessu máli. En það telja loftslagspáfar hreint aukaatriði.