Gísli Arnkelsson fæddist 19. janúar 1933. Hann lést 1. apríl 2024.

Útför Gísla fór fram 15. apríl 2024.

Eftir að tengdafaðir minn, Gísli Arnkelsson, fór heim í himininn á annan dag páska hafa margar minningar leitað á huga minn, en umfram allt þakklæti. Strax eftir að við Kamí byrjuðum saman var mér tekið opnum örmum af þeim hjónum, Gísla og Systu. Við tengdapabbi náðum vel saman og fljótlega myndaðist með okkur góð vinátta. Ég leitaði mikið til Gísla í gegnum tíðina, enda var hann einstaklega klár og ráðhollur maður. Fjölbreytt reynsla hans, dómgreind og gott innsæi reyndust mér oft og tíðum ómetanleg. Gísli var afar stoltur af afkomendum sínum og það var aðdáunarvert hvernig hann sýndi hverju einasta barnabarni einstaka umhyggju. Þegar okkar yngsta barn var ekki komið á leikskólaaldur buðust þau hjónin til að sinna börnum okkar, en þá voru þau nýhætt að vinna. Þann vetur óku Gísli og Systa hvern einasta virka dag úr Vesturbænum til okkar í Kópavoginn þar sem dagurinn byrjaði á að sinna þeim yngsta. Svo þegar eldri börnin komu heim úr skólanum hjálpaði Gísli þeim með heimanámið. Eftir það fóru þau oft í gönguferðir um hverfið með afa sínum.

Kærleikur þeirra Gísla og Systu til fjölskyldunnar var einstakur. Þau áttu fimmtíu afkomendur og sex tengdabörn og hvern einasta dag báðu þau fyrir okkur öllum, hverju og einu einasta, með nafni. Gísli glímdi við erfið veikindi síðustu árin svo himnahvíldin var honum langþráð. Ég kveð hann með virðingu og djúpu þakklæti.

Guðmundur Karl Brynjarsson.