Guðmundur Magnússon
Guðmundur Magnússon
Viðmót Katrínar hefur mér fundist óþvingað og aðlaðandi og tjáning og tal hennar í anda gamallar og góðrar íslenskrar jafnaðarhugsjónar …

Guðmundur Magnússon

Margt ágætisfólk er í framboði við forsetakjör í sumar. Megum við kjósendur teljast heppnir að geta valið á milli ólíkra frambjóðenda og treyst því að þetta mikilvæga embætti verði í góðum höndum, hver sem það hreppir. Ég tel þó að einn frambjóðenda beri af. Þetta er Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra. Ekki þekki ég hana neitt persónulega en hef fylgst með stjórnmálaferli hennar allt frá því að hún tók fyrst sæti á Alþingi 2007. Leiðir okkar í stjórnmálum hafa ekki legið saman nema að takmörkuðu leyti svo ekki blindar það sýn mína. Mér hefur fundist hún standa sig afar vel í ýmsum snúnum verkefnum, fyrst sem menntamálaráðherra á árunum 2009 til 2013 og síðan sem forsætisráðherra í sjö ár frá 2017. Hún hefur reynst vera mannasættir, borið klæði á vopnin eins og kvenskörungar gerðu á söguöld þegar fornkapparnir okkar höfðu ekki stjórn á skapi sínu. En hún hefur jafnframt haft bein í nefinu, sýnt forystu og einurð, tekið erfiðar ákvarðanir og staðið við þær, þótt ekki hafi þær ávallt verið til vinsælda fallnar. Framkoma hennar á alþjóðavettvangi hefur verið til fyrirmyndar. Viðmót hennar hefur mér fundist óþvingað og aðlaðandi og tjáning og tal hennar í anda gamallar og góðrar íslenskrar jafnaðarhugsjónar sem er eitthvert dýrmætasta einkenni okkar samfélags.

Ég hef heyrt því haldið fram að ekki sé við hæfi að manneskja sem gegnt hefur starfi forsætisráðherra, eins og Katrín Jakobsdóttir, sækist eftir forsetaembættinu. Þeir sem áður hafi gegnt forystuhlutverki á vettvangi stjórnmálanna eigi ekkert erindi á Bessastaði. Þetta er undarleg skoðun, vanhugsuð og raunar ósamrýmanleg grundvallarreglum lýðræðisins. Rifja má upp að Ásgeir Ásgeirsson, sem var kosinn forseti á sínum tíma undir kjörorðinu „fólkið velur forsetann“, hafði áður verið forsætisráðherra Íslands. Fyrrverandi stjórnmálaforingjar, ráðherrar og alþingismenn, hafa staðið sig með prýði sem forsetar og um þá skapast víðtæk samstaða. Stjórnmálareynsla er að sönnu ekki forsenda fyrir því að geta orðið góður forseti eins og dæmi Kristjáns Eldjárns, Vigdísar Finnbogadóttur og Guðna Th. Jóhannessonar sýna. En þau höfðu öll til að bera þekkingu og skilning á forsetaembættinu og umgengust valdheimildir þess af hógværð og varkárni eins og Katrín Jakobsdóttir hefur lýst yfir að hún hyggist gera og ég veit að hún mun standa við. Katrín hefur jafnframt menningarlegan bakgrunn og víðsýni sem styrkja mun hana í embættinu. Ég trúi því að hún verði góður forseti okkar allra og haldi í heiðri bestu hefðir embættisins.

Höfundur er sagnfræðingur og fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu.