Það borgar sig illa að fara á bak við þjóðina

Það er undarlegt að horfa til Bandaríkjanna og sjá í hvílík vandræði þetta mikla ríki hefur komið sér. Íran gerði árás „á Ísrael“, en sú árás er innan tilvitnunarmerkja, því að eftirtekjur af 300 risaflaugum af margvíslegu tagi, allt niður í dróna sem Íran sendi í 10 milljóna þéttbýli eina lýðræðisríkis á öllu svæðinu, sem það hafði komið sér fyrir á, af þúsund ára sögulegum og trúarlegum ástæðum og var gert með samþykki Sameinuðu þjóðanna, sem ýmsum þykir stundum skipta máli þótt illa rekin og óáreiðanleg stofnun sé eins og dæmin sanna. En þá hafði Gyðingaþjóðin gengið í gegnum hrylling útrýmingarbúða, sem hrollvekjan Adolf Hitler merkti sér og reknar voru eins og þar færi öflugt framleiðslufyrirtæki sem mætti engan tíma missa. Bandaríkin gáfu fordæmi þegar Franklin Roosevelt forseti ákvað að taka skyldi þátt í Ólympíuleikunum 1936. Vestræn ríki voru lengi treg til að hleypa gyðingum yfir til sín, þótt hinn kosturinn væri útrýmingarbúðirnar. Vildi margur ekki styggja Hitler og hans nóta. Meira að segja stjórnvöld á Íslandi voru treg til og spyrntu við fótum.

Suðurlína Bandaríkjanna er í raun landamæralaus og vita yfirvöld þar í landi næsta lítið um það, hverjar þær séu, þessar 10 milljónir sem þar fara um á fáum árum! Sífellt fleiri Bandaríkjamenn telja ástandið óþolandi og er fjöldinn sem hingað sækir og illa er fylgst með þó hlutfallslega meiri en er að gerast þar vestra!

Ýmsir hér hafa ekki viljað ræða upphátt það endemis stjórnleysi yfirvalda hér sem hefur komið Íslandi í hreinar ógöngur. Lengi vel var einnig bannað að ræða slíkt í Svíþjóð en landið situr nú illa í súpunni og stjórnlausar glæpaöldur herja á þjóðina. Ekki er lengur hægt að þvinga umræðuna þar í landi og seinustu fréttir frá Noregi bera með sér sívaxandi óþol landsmanna.

Stutt er síðan rætt opinberlega um að stækka þyrfti Litla-Hraun án tafar og virtist umræðan helst bera með sér að ástæðan væri mygla eða önnur vandræði ills frágangs ungra bygginga eins og algengt er. En Litla-Hraun var í upphafi vel byggt sem sjúkrahús og mygla er fyrirsláttur. Úr varð að byggja nýtt og betra fangelsi, en af einhverjum ástæðum minna um hið augljósa talað, af hverju skyndilega var þörf á miklu fleiri fangaklefum.