Ásgeir Þormóðsson fæddist í Reykjavík 20. september 1945. Hann lést á heimili sínu 5. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Steinunn Bergþóra Pétursdóttir, f. á Eyrarbakka 7. október 1912, d. 20. september 2001, og Þormóður Jónasson, f. á Auðólfsstöðum í A-Húnavatnssýslu, f. 1. ágúst 1908, d. 3. júní 1989. Systkini Ásgeirs eru Hilmar Pétur, f. 19. mars 1945, d. 10. maí 2019, Áslaug, f. 14. mars 1953. Uppeldisbróðir er Ástþór Pétur Ólafsson, f. 15. mars 1938, d. 5.mars 1971.

Ásgeir giftist Valgerði Ólafsdóttur ritara. Foreldrar hennar voru Ólafur Guðmundsson verkamaður, f. 20. mars 1920, d. 4. febrúar 2009, og Jórunn Jóhanna Kristjánsdóttir húsmóðir, f. 4. september 1925, d. 23. febrúar 1993. Þau hófu búskap sinn á Hringbraut 109 en hafa búið á Hofakri 5 Garðabæ síðastliðin 16 ár.

Börn þeirra eru: 1. Ásgeir Þór, f. 15. júní 1969, giftur Guðrúnu Árnadóttur. Börn þeirra eru Þórhildur Elín og Vigdís Lóa og einnig á hann dótturina Valgerði Ýri með fyrrverandi eiginkonu sinni, Írisi Kristjánsdóttur. 2. Pétur, f. 19. mars 1976, sambýliskona er Ilona Sandradóttir, börn hans með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Sóleyju Ástudóttur, eru Ásta og Pétur Ásgeir. 3. Ólafur, f. 8. júní 1979, giftur Sigríði Dagmar Jóhannsdóttur, börn: Ingunn Dagmar, Valgerður og Ólafur Jóhann.

Útför Ásgeirs fer fram í Áskirkju í dag, 23. apríl 2024, klukkan 11.

Fjölskyldur okkar Ásgeirs Þormóðssonar bjuggu báðar við Grettisgötuna. Ég bjó Frakkastígsmegin en hann Vitastígsmegin. En þetta voru tveir heimar. Í Austurbæjarskólanum lágu leiðir okkar saman, mín og eldri bróður hans, Hilmars Péturs, þar sem við vorum í sama bekk. Við urðum skotin hvort í öðru og endaði með hjónabandi árið 1959. Okkur bauðst að flytja inn í risið á Grettisgötu 43 enda var þá fram undan að ljúka stúdentsprófum frá MR og að auki var von á frumburði. Þar í húsinu, hjá foreldrum Hilmars Péturs, Steinunni Bergþóru Pétursdóttur og Þormóði Jónassyni húsgagnasmíðameistara, bjuggu þá þegar þrír ættliðir. Auk barnanna þeirra, Hilmars Péturs, Ásgeirs og Áslaugar, áttu þar heimili Elísabet Jónsdóttir, móðir Steinunnar Bergþóru, og Steinunn Jónsdóttir, móðir Þormóðs. Þar bjó líka Ástþór Pétur Ólafsson, uppeldisbróðir systkinanna, hjá ömmu sinni. Ásgeir, sem var þremur árum yngri en Hilmar Pétur, og á fermingarári, gladdist yfir þessu og fagnaði komu brúðhjónanna í risið. Það var mikilvægt fyrir mig, á viðkvæmu skeiði þá, að finna vináttu, skilning og kurteisi sem hann sýndi mér frá fyrstu tíð. Ég man fljótlega eftir að við hjónakornin vorum flutt inn að fermingardrengurinn Ásgeir færði mér óvænt að gjöf varalit, fallega innpakkaðan, og einnig litríka regnhlíf. Ég dáðist að því að svona ungur drengur skyldi hafa auga fyrir þessu til að gleðja mágkonu sína. Hann var mannþekkjari. Í annað skipti var hann nýkominn úr togaratúr til útlanda, þessi ungi drengur, og gleymdi ekki að færa mágkonu sinni tvöfaldan konfektkassa við heimkomuna. Svona var Ásgeir alla tíð í minn garð, hlýr og fullur stuðnings. Þegar vantaði skáp á heimilið tók hann sig til og smíðaði fyrir okkur hjónakornin enda sérlega laginn maður og lærður húsgagnasmiður. Seinna þegar ég lagði fyrir mig myndlist keypti hann reglulega verk eftir mig og aðra myndlistarmenn enda fagurkeri. Ásgeir fékkst við margt í lífi sínu og eftir að smíðaferlinum lauk var hann sölumaður og framkvæmdastjóri þangað til hann sneri sér að eigin rekstri með yndislegri eiginkonu sinni, Valgerði Ólafsdóttur. Þau eignuðust þrjá myndarlega syni, Ásgeir Þór, Pétur og Ólaf Ástþór, og barnabörnin eru orðin átta.

Elskulegi Ásgeir, minn kæri mágur, þakka þér góða samfylgd þessi tæp 65 ár, sem liðin eru frá því ég steig fyrst inn í hús foreldra þinna, og var manna sælust yfir að hafa eignast hann Hilmar Pétur bróður þinn fyrir eiginmann og með honum drengina okkar tvo, þá Atla Örn og Steinþór Óla. Þið voruð góðir bræður og ég vona innilega að þið hittist hinum megin, hjá þeim sem þegar eru farnir og munu taka á móti ykkur. Eins og þið sögðuð jafnan sjálfir. Um leið þakka ég ykkur báðum, þér og Völu, frábærri konu þinni, góðan stuðning síðustu ár eftir fráfall Hilmars Péturs og votta allri fjölskyldunni dýpstu samúð við þessi erfiðu tímamót.

Björg Atladóttir.

Nú er Geiri frændi allur. Hann var löngum skemmtilegasti maðurinn í lífi mínu. Og sá sterkasti. Mér var lyft til skýja og boðið í flugferð á fótum hans þegar hann var heima og ég hjá ömmu, móður hans. Föðurbróðir og uppáhaldsfrændi. Aldrei lognmolla í kringum Geira. Það var grínast og hlegið, töfrabrögð framin sem voru barninu óskiljanleg. Ótrúlegustu sögur sagðar og barnið gapti. Seinna komu til sögunnar bílar sem vöktu aðdáun og uppátæki af ýmsu tagi sem gerðu ekkert nema auka á hrifninguna. Geiri bjó á Grettó, fyrst uppi í risi en síðar í kjallaranum. Þar var glatt á hjalla með vinum og ég nýttist sem sendisveinn til að sækja bland fyrir liðið og fékk mikla elsku fyrir og auðvitað gos sjálfur og sælgæti. Og hann átti meira að segja byssur, sem olli miklum spenningi. Byssu eins og Bond notaði sjálfur í vinnu sinni. Alla mína æsku var Geiri frændi stórmenni í mínum augum. En honum þótti líka afar vænt um mig og mér um hann. Hann kenndi mér Vertu guð faðir og samband okkar var alltaf náið. Seinna eignaðist hann konu og fjölskyldu og við hittumst reglulega í stórfjölskyldunni. Grettó var alltaf miðpunkturinn. Og orgelið sem safnast var saman um á hátíðum og sungið. Auk ömmu varð Ásgeir liðtækur á það og eignaðist fljótt sitt eigið enda músíkalskur og hafði fína rödd. Á unglingsárunum vann ég hjá honum af og til þegar hann setti upp eldhúsinnréttingar en hann var húsgagnasmíðameistari eins og afi. Þá sá maður hve allt fórst honum vel úr hendi. Hann var bæði laginn og útsjónarsamur auk þess að vera afkastamikill. Á fullorðinsárum vann ég aftur hjá honum við að reisa einingahús. Á öðru húsi okkar hrundum við niður af þaki saman með þakplötu á milli okkar og vorum heppnir að sleppa lifandi frá. Geiri frændi fékk hins vegar högg á hnéð og fékkst ekki mikið við smíðar eftir það. En hann var fjölhæfur, vel gefinn og vel máli farinn og sneri sér að öðru. Varð sölumaður og framkvæmdastjóri þangað til hann á seinni árum hóf sinn eigin rekstur. Eftir litrík piparsveinsár eignaðist hann afburðakonu, Valgerði Ólafsdóttur, sem stóð með honum allt til hins síðasta. Eignuðust þau þrjá öfluga syni og átta barnabörn. Hafa fáir sem ég hef kynnst verið betur giftir en Geiri frændi. Nú er hann allur blessaður, fimm árum seinna en eldri bróðir hans, faðir minn. Þeir voru alltaf nánir bræðurnir og verða nú umræður fjörugar þegar þeir hittast á ný. Gleðjast gumar. Sendi fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Atli Örn Hilmarsson.

Í dag kveðjum við góðan vin til áratuga, Ásgeir Þormóðsson eða Geira sem við kölluðum alltaf.

Það er margs að minnast þegar litið er yfir alla þessa áratugi sem vinátta Geira og Völu og okkar Einars hefur spannað. Allt frá áhyggjulausum æskudögum fram á efri ár, þar sem við höfum tekið þátt í lífi hvert annars bæði í gleði og sorg og mynduðum okkar fjölskyldur og á sama tíma stóðum í byggingabasli í brjálaðri verðbólgu þess tíma, sem var saga okkar kynslóðar. Ásgeir var smiður og hafði næmt auga fyrir framkvæmdum, og kom sér fljótt nokkuð vel fyrir í lífinu, en lundin var stór, ekkert miðjumoð, flott skyldi það vera, þoldi illa allt hálfkák. Þau stofnuðu Ríkið, sem var flottasta vídeóleigan í bænum, ásamt skyndibitastað og verslun. Eins er það minnisstætt þegar hann fékk sér húsbíl, þá var hann sá allra flottasti, með mynd aftan á; stærstu útgáfu af sjálfstæðisfálkanum.

Þannig var Geiri, stórhuga og fljótur að sjá hvort vit væri í hlutunum eða ekki. Það er okkur minnisstætt þegar við stóðum frammi fyrir erfiðri ákvörðun varðandi húsakaup, sem var stórt verkefni. Þá kom Geiri og grandskoðaði húsið með sínum athugulu smiðsaugum og á hann rann lotningarsvipur og andvarp sem sagði okkur að ákvörðunin væri rétt.

Ásgeir var mikill stemningarmaður, var hrókur alls fagnaðar á gleðistundum í góðra vina hópi, þar sem hann fór á kostum með sögum sem ekki gleymast. Tónelskur söngmaður, hafði næmt eyra fyrir tónlist og gat spilað af fingrum fram án þess að hafa numið þau fræði. Upp í hugann koma margar dýrmætar gleðistundir með Geira og Völu í hinum ýmsu veislum, uppáklædd og glæsileg. Minningarnar streyma fram um skemmtilegu ferðalögin okkar erlendis eins og til San Francisco, Egyptalands, Kúbu og Pétursborgar, sem við fórum öll saman ásamt fleiri góðum vinum. Ásgeir naut sín vel innan um glæstar og fornar byggingar, var mikill fagurkeri bæði á myndlist sem tónlist og kunni að njóta lífsins lystisemda, þetta voru góð ár.

Geiri var marglyndur og ekki áttu allir vináttu hans, en hann var vinur vina sinna og sýndi hlýhug og kærleika. Þess naut dóttir okkar Áslaug, en milli þeirra var alltaf kærleiksstrengur, sem varð til þegar hún spilaði ung að árum fyrir hann á píanó, sem snerti hans hlýja hjarta.

Ásgeir gekk í Oddfellowregluna og starfaði þar af lífi og sál í áratugi, hann naut sín vel í þessum góða félagsskap, komst þar til metorða og varð yfirmeistari.

Síðustu ár hafa verið honum erfið vegna veikinda, en vegna einstakrar aðhlynningar og kærleika Völu gat hann verið heima.

Við minnumst Ásgeirs af hlýju og þakklæti fyrir ævilanga vináttu.

Sendum hlýjar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Guðrún (Lillý) og Einar.