[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Meirihluti starfsfólks sveitarfélaga sem að skipulagsmálum vinnur sem og meirihluti skipulagsráðgjafa þekkir dæmi þess að spilling hafi haft áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Meirihluti starfsfólks sveitarfélaga sem að skipulagsmálum vinnur sem og meirihluti skipulagsráðgjafa þekkir dæmi þess að spilling hafi haft áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga.

Þetta kom fram í erindi sem Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, aðjunkt við Háskóla Íslands og fyrrverandi forstjóri Skipulagsstofnunar, flutti á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í síðustu viku.

Þessara talna var aflað í rannsókn sem hún gerði, en þar var þeirri spurningu beint til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum, sveitarstjóra, starfsfólks sveitarfélaga sem vinnur að skipulagsmálum og sjálfstæðra skipulagsráðgjafa hvort viðkomandi þekkti þess dæmi frá síðustu þremur árum að frændsemi, kunningsskapur eða pólitísk fyrirgreiðsla hefði haft áhrif á ákvarðanir sveitarfélaga í skipulagsmálum. Yfir helmingur aðspurðra svaraði spurningunni.

Af kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum svöruðu 166 spurningunni, 34 sveitarstjórar, 55 starfsmenn sveitarfélaga og 47 sjálfstæðir skipulagsráðgjafar. Svörun var yfir 50%.

Niðurstaðan var sú að 57% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum sögðust engin dæmi þekkja um slíkt, 20% könnuðust við mjög fá dæmi þess, 15% nokkur dæmi og 7% mörg. Í tilviki sveitarstjóra kannaðist 71% ekki við nein dæmi um spillingu, en 15% þekktu fá dæmi og önnur 15% nokkur. Önnur mynd blasir við þegar svör starfsfólks sveitarfélaga eru rýnd. Þannig kannast 42% ekki við neina spillingu, 40% þekktu fá dæmi um frændhygli, póltík, eða kunningsskap, en 18% könnuðust við nokkur dæmi um það.

Þegar kemur að svörum skipulagsráðgjafa, en þeir starfa ýmist fyrir sveitarfélög eða einkaaðila í byggingar- og lóðastarfsemi, sést að þeir verða öðrum fremur varir við að frændsemi, kunningsskapur eða pólitísk fyrirgreiðsla hafi áhrif á skipulagsákvarðanir. Þannig sögðu 36% þekkja nokkur dæmi um slíkt og 32% fá dæmi þess, alls 68%. Aðeins 28% könnuðust ekki við neitt slíkt en 4% þekktu mörg dæmi þess.

„Ég er að vinna að rannsóknarverkefni um bolmagn sveitarfélaga í skipulagsmálum, bæði stjórnsýslulegt bolmagn, en beini líka sjónum að faglegri getu og þekkingu í ákvarðanatöku sveitarfélaga í skipulagsmálum,“ segir Ásdís Hlökk í samtali við Morgunblaðið.

Hún kveðst ekki tilbúin til að draga neinar ályktanir enn, hún sé að vega og meta svörin og vinna úr gögnunum. „En það er óhætt að segja að það eru sláandi margir í þessum tveimur hópum fagfólks sem segjast þekkja dæmi. En hvað það er sem skýrir muninn á milli þeirra og hinna hópanna er ég enn að skoða,“ segir Ásdís Hlökk.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson